Húsasmiðjan hefur undanfarið ár verið í samstarfi við framleiðanda vandaðra heilsárshúsa sem uppfylla kröfur íslenskrar byggingarreglugerðar. Þau koma fullkláruð að innan sem og utan, án húsgagna. Húsin fást í mismunandi stærðum og gerðum en hægt er að aðlaga þau þörfum hvers og eins.

Sveinn Enok Jóhannsson vörustjóri og Sveinn Halldór Skúlason, verkefnastjóri á Fagsölusviði, segja að þrátt fyrir að einungis sé nýlega farið að bjóða upp á þessi hús hjá Húsasmiðjunni sé komin góð reynsla á þau hér á landi enda hafa þau verið á markaði hér í mörg ár. Sýningareintak af stærsta húsinu sem er 94 m2 er væntanlegt til landsins í byrjun maí og hægt verður að skoða það á plani Húsasmiðjunnar við Skútuvog.

„94 m2 húsið er fullbúið og kemur í tveimur einingum. Þegar við segjum fullbúið þá meinum við með gólfefnum, blöndunartækjum, hurðum, eldhúsinnréttingu og baðinnréttingu. Það er allt tilbúið. Það eina sem þarf að gera er að festa húsið niður og tengja það við rafmagn og veitukerfi,“ segir Sveinn Enok.

Teikning af 94 m2 húsinu sem verður til sýnis í maí og teikning af 64 m2 húsinu að innan. Stærri húsin afhendast í tveimur einingum.
Hér sést útleigueiningin sem er 40 m2. Henni er skipt upp í tvær stúdíóíbúðir með baðherbergi. Húsið hentar til dæmis vel í ferðaþjónustu.

Húsin koma í stærðum frá 15 m2 og upp í 94 m2 og geta hentað bæði sem sumarhús og íbúðarhús.

„Við erum með útleigueiningu sem hentar til dæmis vel fyrir ferðaþjónustu. Einingin er 40 m2 og er skipt upp í tvær stúdíóíbúðir með baðherbergi í hvorri einingu,“ segir Sveinn Halldór.

„Við flytjum húsin inn frá Litháen, en þau hafa verið seld mikið til Svíþjóðar og Finnlands, þar sem ekki eru gerðar minni kröfur en hér á Íslandi um að standast ýmiss konar veður. Þegar húsin eru pöntuð þá gefum við okkur 10-14 vikna afhendingarfrest.“

Sveinn Enok segir að síðasta sýningarhúsið þeirra sé nýlega selt, en um miðjan apríl verður hægt að skoða 52 m2 hús og svo í maí 94 m2 húsið eins og áður sagði.

Timburhús á sterkri stálgrind

Húsin eru timburhús með timburgólfi á sterkbyggðri stálgrind sem auðveldar flutning til muna. Þau koma í ákveðinni grunnútfærslu. Við erum í frábæru samstarfi við IKEA erlendis en allar innréttingar og öll tæki koma þaðan. Hægt er að uppfæra og velja sér sína eigin innréttingu frá IKEA. Baðherbergi koma með lítilli innréttingu með vaski, blöndunartækjum og sturtuklefa. Hægt er að uppfæra í innbyggða sturtu ef Fibo-plötur eru teknar á rýmin en þær þola mikinn vatnsþrýsting og hitasveiflur.

Dæmi um hús að innan. Eldhúsinnrétting, ísskápur, örbylgjuofn, vaskur og blöndunartæki fylgja.
Teikning af 64m2 húsinu að innan.

„Það er möguleiki á að velja um veggja- og loftklæðningar, gólfefni, innréttingar og hurðir. Það fylgir líka sólpallur með öllum húsunum sem hægt er að stækka og það er hægt að velja liti að utan. En hefðbundin lausn er timburklæðning,“ segir Sveinn Enok.

Nafnarnir segja að Húsasmiðjan bjóði kaupendum húsanna upp á aðstoð við allt ferlið. Hönnun, flutning og uppsetningu og frágang. Það er auðvitað margt sem þarf að huga að í þessu ferli.

„Við mælum með að húsin fari ofan á staðsteypta eða forsteypta dregara, en dregarar fylgja ekki. Húsið er þá sett beint ofan á þá og fest við,“ segir Sveinn Halldór.

„Samanborið við einingahús sem koma í mörgum einingum þá er þetta miklu minni tilkostnaður á verkstað og byggingartíminn hverfandi, ef hægt er að tala um byggingartíma. Það er miðað við að það taki tvo vana menn tvo daga að setja húsið upp og ganga frá því. Þetta er þess vegna bæði einfalt í uppsetningu og svo er þetta líka á góðu verði,“ segir hann og bætir við:

„Við teljum okkur vera með eitt af betri fermetraverðum í bænum, ef ekki bara þau bestu.“Nánari upplýsingar á husa.is