Grænvangur var stofnaður árið 2019 og er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum og grænum lausnum. Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, ræðir hér um erlent markaðsstarf Green by Iceland, á hvaða hátt Íslendingar standa framar öðrum þjóðum við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og segir full orkuskipti hérlendis stærsta tækifærið.

„Þegar kemur að hlutverki innanlands þá erum við að styðja við loftslagsvegferð Íslands og markmið stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérna heima og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar,“ segir Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs. „Alþingi lögfesti í fyrra að Ísland yrði kolefnishlutlaust árið 2040. Ríkisstjórnin hefur líka sett sér metnaðarfull markmið um að Ísland verði fyrst landa kolefnishlutlaust sama ár. Við styðjum við og hvetjum íslenskt atvinnulíf ásamt því að tengja saman ólíka aðila með því markmiði að raunverulegur árangur náist í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hérna heima sem fyrst. Við vinnum mjög náið með atvinnulífinu og stjórnvöldum í að styrkja þessa vegferð en það er mikilvægt að við sláum taktinn vel í sameiningu og þetta næst með öflugu samtali og samstarfi þvert á allar greinar og með stjórnvöldum. Þá erum við líka að horfa út fyrir landsteinana.“

Erlent markaðsstarf

Grænvangur styður við útflutning á grænum lausnum, sérþekkingu og reynslu sem við Íslendingar búum að þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðvarma og vatnsafli. „Við gerum það undir merkjum Green by Iceland sem er samstarfsverkefni Grænvangs og Íslandsstofu. Við vinnum það starf í mjög miklu og nánu samráði við aðra aðila, meðal annars Orkuklasann, fyrirtæki á Íslandi sem eru með grænar lausnir, ráðuneytin og sendiráð víða um lönd. Þannig að starfið er mjög fjölbreytt hvað varðar þennan erlenda hluta. Við sækjum sýningar og ráðstefnur, við tökum þátt í opinberum sendinefndum og tökum þá oft fyrirtækin með okkur í þær heimsóknir. Við erum líka í markvissu markaðsstarfi í netheimum og almannatengslum þannig að með öllu þessu erum við að styðja mjög þétt við orðspor og ímynd Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni og grænna lausna.“

Tækifærið felst í að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem flutt er til landsins út fyrir sjálfbæran, innlendan orkugjafa, að sögn Nóttar.

Komin lengra í orkuskiptunum

„Fáar þjóðir í heiminum geta stært sig af því að 100% rafmagns og húshitunar séu komin af endurnýjanlegum orkugjöfum sem við erum búin að vera að nýta í rúm 100 ár. Þessi saga skiptir máli í þeirri umræðu sem á sér stað núna úti um allan heim. Við vitum að þjóðir heimsins eru að hjálpast að við að reyna að leysa úr vandanum og draga úr sinni losun. Þarna erum við bara með svo frábæra sögu, þekkingu og reynslu sem við getum miðlað til annarra þjóða.“

Nótt segir að ef horft sé á lönd heimsins þá séum við komin hvað lengst í orkuskiptunum. 85% af frumorkunotkun okkar í dag komi af sjálfbærum, endurnýjanlegum orkugjöfum. „Ef maður horfir á frumorkunotkunina okkar hérna heima þá þykir vera einstakt hversu stórt hlutfall af frumorkunotkun okkar kemur af jarðvarmanum eða 60%. Svo fara um 25% í rafmagnsframleiðslu fyrir heimili, atvinnugreinar og orkusækinn iðnað til útflutnings. Við búum við miklu meira öryggi en flestar aðrar þjóðir sem og stöðugleika þó að staðan nú sé snúin út um allan heim. Öll þessi nýsköpun og fjárfestingar sem áttu sér stað fyrir einhverjum árum með tilliti til nýtingar á jarðvarma og vatnsafli hefur skilað okkur meira orkusamstarfi, orkuöryggi og hellingi af nýjum atvinnutækifærum.“

Gríðarstórt verkefni

Þó svo að Íslendingar hafi hátt hlutfall af endurnýjanlegum orkugjöfum segir Nótt að við megum ekki sofna á verðinum. „Við ætlum að halda áfram og taka núna lokahnykkinn má segja. Stóra verkefnið er að klára full orkuskipti. Og samhliða því að draga jafnframt úr annarri losun gróðurhúsalofttegunda sem er að verða á Íslandi og finna leiðir til að farga þeim á vistvænan máta. Við erum þá að horfa til þess að það verði full orkuskipti á næstu 17 árum á landi, sjó og í flugi. Og það er stóra verkefnið okkar. Þannig að tækifærið felst raunverulega í að skipta út öllu jarðefnaeldsneyti sem við erum að flytja inn til landsins út fyrir sjálfbæran, innlendan orkugjafa. Þetta þarf allt að hafast á næstu tveimur áratugum og er gríðarstórt verkefni sem við ætlum að taka föstum tökum. Það er alveg ljóst að við munum þurfa að afla meiri orku til þess að skipta út þessum rúmlega milljón tonnum af jarðefnaeldsneyti sem við erum að flytja inn árlega. Þá er líka mikilvægt að horfa til þess hvernig við getum sparað orkuna og nýtt hana betur. Það verður engin ein leið fram á við sem mun koma okkur á leiðarenda heldur verða þetta margar ólíkar tæknilausnir og breytt nálgun.

Hér á landi er rafvæðing minni bíla komin vel á veg, þar erum við í öðru sæti í heiminum á eftir Norðmönnum. Nú er fyrsti fasi orkuskipta vöruflutningabifreiða og vinnutækja að hefjast. Þar verða ólíkir orkugjafar nýttir, bæði rafmagn og rafeldsneyti á borð við vetni. Á sjó gætu metanól og ammoníak spilað stóra rullu þó erfitt sé að spá fyrir um nákvæmlega hvaða leiðir verða farnar. Í fluginu stefnir Icelandair að því að knýja innanlandsvélar sínar með rafmagni eða vetni fyrir árið 2030 en í millilandaflugi verður líklega horft til vetnis og sjálfbærs flugvélaeldsneytis. Það er því fullt að gerast sem vekur von í brjósti.

Lykillinn að því að orkuskiptin geti átt sér stað er þó ekki eingöngu nýsköpun, réttir hvatar og fjárfestingar, val á tækni og innleiðing og innviðauppbygging, heldur þarf líka að svara þeirri spurningu hvaðan orkan eigi að koma. Þá er nauðsynlegt að taka tillit til umhverfisins og ná samfélagslegri sátt um leiðirnar Sé horft til rammaáætlunar og áforma fram undan munu jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir áfram vera mikilvægar en fleiri orkugjafar munu koma til og má þar nefna vindafl og sól auk þess sem smávirkjanir gætu verið áhugaverður valkostur.“

Höldum ótrauð áfram

Nótt segir að í næstu skrefum verði áherslan á að styðja við atvinnulífið í þeirri vinnu sem er fram undan. Í fyrra var gefinn út Loftslagsvegvísir atvinnulífsins þar sem hver atvinnugrein gerði grein fyrir stöðunni og helstu tækifærum og áskorunum í átt að kolefnishlutausu Íslandi. Grænvangur sá um samþættingu þessarar vinnu og útgáfan var fyrsta skrefið í að ná utan um heildarstöðuna þvert á atvinnugreinar. Næsta skref verður að draga betur fram einstaka geira og tengja þá enn frekar við markmið og aðgerðaáætlun stjórnvalda.

„Með samstilltu átaki og öflugu samstarfi ætlum við að leggja kapp á að hraða allri vinnu til að Ísland nái markmiðum sínum. Við getum spilað stórt hlutverk í loftslagsvegferðinni og verið fyrirmynd annarra hvað framtíðina varðar Í átt að kolefnishlutlausu Íslandi.“