„Samkaup er frumkvöðull í nýsköpun á íslenskum matvörumarkaði. Við vorum fyrst til að opna netverslun með matvöru árið 2017, sem þá var kærkomin nýlunda fyrir íslenska neytendur, að geta loks gert alhliða matarinnkaup á netinu, og vegferð nýsköpunar hefur blómstrað með hverju árinu síðan,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, nýr forstjóri Samkaupa.

Nýsköpun er Gunnari Agli hugleikin.

„Já, ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að efla nýsköpun í verslunargeiranum áfram og þar er sannarlega margt spennandi í farvatninu,“ segir Gunnar og víst er að margt hefur þegar áunnist, til dæmis vöruþróun og vöruframleiðsla þar sem Samkaup hafa verið bakhjarl nýsköpunarhraðalsins Til sjávar og sveita, í samstarfi við Icelandic Startups og fleiri.

„Samstarfið heillaði vegna þess að við vildum verða brú á milli nýsköpunar í vörum sem tengjast landbúnaði og sjávarútvegi. Þar vorum við með slagorðið „Frá hugmynd í hillu“ þar sem við veittum frumkvöðlahópum ráðgjöf og leiðbeiningar. Þar má nefna Feed the Vikings sem framleiða Beef Jerky og Fish Jerky, einnig Sætu kartöflurnar sem eru kartöfluflögur úr ljótum kartöflum og Veganstöðina. Allt flokkast þetta undir arm nýsköpunar þegar horft er á hvernig verslunarfyrirtæki geta stutt fyrirtæki í nýsköpun, vöruþróun og vöruframboði,“ greinir Gunnar Egill frá.

Menntamál eru nýsköpun

Þegar kemur að nýsköpun segir Gunnar mörgum tamt að hugsa hvað sé nýtt í tæknimálum en sjálfum þykir honum eitt af stóru málum nýsköpunar vera hvernig fyrirtæki nálgist menntamál á vinnustaðnum.

„Samkaup hafa gert menntamál að undirstöðuatriði þegar kemur að sérstöðu í fyrirtækjamenningu og mannauðsmálum. Við erum leiðandi í menntamálum starfsfólks og ákaflega stolt af því að hafa hlotið Menntasprota atvinnulífsins árið 2020 fyrir nýsköpun á sviði mennta- og fræðslumála í atvinnulífinu, og í síðustu viku veittum við viðtökum Menntaverðlaunum atvinnulífsins fyrir árið 2021 fyrir að ná að halda þessum framúrskarandi árangri áfram.“

Á þessum nótum eiga Samkaup jafnframt í skemmtilegu samstarfi við stafræna viðskiptalínu Verzlunarskóla Íslands.

„Þar vinna nemendur meðal annars markaðsrannsóknir fyrir okkur. Við höfum einnig gripið starfsfólk úr okkar röðum sem ekki hefur lokið stúdentsprófi en er með mikla starfsreynslu, sett þau í raunfærnimat og í Verzlunarskólann þar sem þau hafa klárað bæði fagpróf í verslun og þjónustu og margir fara áfram og klára stúdentspróf. Þá höfum við lengi boðið upp á diplómanám í verslunarstjórnun og á dögunum útskrifuðum við fyrstu nemendurna úr leiðtoganámi Samkaupa í samvinnu við Háskólann á Bifröst. Það er ársprógramm þar sem nemendur fara í gegnum leiðtogaþjálfun sem hönnuð er af Samkaupum og kennd í samstarfi við Bifröst. Námið er bylting þegar kemur að því hvernig atvinnulífið stendur að menntun fyrir starfsfólk og að námi loknu fá nemendur 12 ECTS-einingar sem þeir geta tekið með sér í frekara háskólanám.“

Vildarvinakerfi í vinsælu appi

Annað nýsköpunarverkefni er appið Samkaup sem sett var á laggirnar vorið 2021.

„Appið er fyrsta vildarvinakerfið á íslenskum matvörumarkaði og var strax tekið fagnandi. Með appinu fá neytendur fastan afslátt í formi inneignar í appinu af vörukörfunni og aðgang að sértilboðum. Þeir greiða fyrir innkaupin með appinu, fá rafræna kvittun í símann og hafa fulla yfirsýn yfir afslætti sína sem eru í formi inneignar í hvert sinn sem verslað er. Þannig eiga þeir alltaf inneign í símanum sem þeir geta notað til að kaupa matvöru síðar meir. Nú þegar ár er liðið er maður farinn að heyra marga viðskiptavini tala um að síðasta matarkarfan hafi verið ókeypis þar sem þeir notuðu inneignina til að greiða fyrir öll innkaupin,“ útskýrir Gunnar Egill.

Hann segir Íslendinga svo sannarlega tilbúna í nýsköpun af þessu tagi.

„Við vorum með skemmtilegt jóladagatal á aðventunni sem varð til þess að 20 prósent af allri sölu fóru í gegnum appið í desember. Innleiðing appsins gekk líka gríðarlega vel strax frá byrjun. Við byrjuðum á að breyta afsláttarkjörum til starfsfólksins sem áður fóru fram í gegnum plastkort en við færðum yfir í appið. Á aðeins viku voru 98 prósent starfsfólksins komið með appið og byrjuð að nota það. Síðan hefur það vaxið og dafnað og í dag eru yfir 45 þúsund notendur með appið og fjölgar stöðugt. Fólk notar það mikið, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem Kjörbúðin er okkar verslun, og þar nota 30 prósent viðskiptavina appið að staðaldri, fá fasta afslætti og aðgang að sértilboðum í hverri viku,“ upplýsir Gunnar Egill.

Hann segir markaðshlutdeild Samkaupa klárlega hafa styrkst með aukinni nýsköpun, eins og appinu.

„Við sjáum að þeir sem nýta sér appið eru tryggari viðskiptavinir. Þetta eru vildarvinir sem koma oftar og versla meira en áður.“

Maí er nýsköpunarmánuðurinn

Í Nýsköpunarvikunni kynna Samkaup nýtt og framúrstefnulegt nýsköpunarverkefni sem eru ómannaðar verslanir.

„Fyrirmyndin er Amazon Go sem hefur opnað ómannaðar verslanir í stórborgum þar sem opið er allan sólarhringinn. Til að byrja með erum við að hugsa um millileið þar sem verslun er mönnuð frá til dæmis klukkan 10 til 18, en eftir hefðbundinn opnunartíma geta appnotendur skannað QR-kóða til að opna verslunina, versla sjálfir og afgreitt sig á leiðinni út. Þetta er gríðarlega spennandi hugmyndafræði sem kemur til með að auka þjónustuframboð og verður án efa vinsælt hjá neytendum,“ segir Gunnar Egill.

Hjá Samkaupum starfa 1.600 manns um land allt.

„Í tilefni Nýsköpunarvikunnar ákváðum við að maí yrði nýsköpunarmánuður Samkaupa og við settum af stað samkeppni þar sem starfsfólkið getur komið með hugmynd að nýjungum eða nýjum verkferlum. Síðan tekur dómnefnd til við að meta hugmyndirnar og við veitum vegleg verðlaun fyrir þrjár bestu sem við notum til innleiðingar hjá okkur í framtíðinni,“ segir Gunnar fullur tilhlökkunar.

„Það verður spennandi að sjá hvernig okkur tekst til við að virkja starfsfólkið í tengslum við Nýsköpunarvikuna og hvaða hugmyndir koma frá öllu þessu flotta og hugmyndaríka fólki. Allt hefur það sínar hugmyndir og reynslu sem það getur byggt á og er nú komið með vettvang til að láta ljós sitt skína,“ segir Gunnar Egill.

Sjálfvirknivæðing framtíðin

Á opnunardegi Nýsköpunarvikunnar verða Samkaup með kynningu og viðburði.

„Við verðum líka með viðburði fyrir samstarfsaðila okkar og birgja til að leggja okkar af mörkum við að koma nýsköpun meira á framfæri. Samkaup fjárfestir nú mikið í sjálfvirknivæðingu og fyrir 1. júní verðum við búin að rafvæða hillumerkingar í öllum okkar verslunum og erum líka í vinnu við sjálfvirknivæðingu pantana og uppröðun verslana,“ greinir Gunnar Egill frá.

Hann segir Samkaupa-appið vel heppnaða sjálfvirknivæðingu þegar kemur að sölu og afgreiðslu viðskiptavina.

„Allt undir þeim formerkjum að gera verslunarstörf verðmætari og auka virði þeirra á Íslandi. Með því að sjálfvirknivæða ferla og aðgerðir höfum við meira svigrúm til að veita framúrskarandi þjónustu og upplifun. Í verslanaheiminum er mikil gerjun í þróun og nýsköpun; hvernig netverslun hefur þróast, líka hefðbundnar verslanir í samkrulli við netverslanahugmyndina og tilbúnar lausnir fyrir fólk. Það eru þrír angar sem ég held að verði meira samtvinnaðir í framtíðinni. Fólk vill geta farið í símann, pantað þar fulleldaða eða samsetta máltíð sem það fær sent heim eða getur sótt í næstu verslun.“

Gunnar segir Íslendinga ekki endilega frumkvöðla í nýsköpun á matvörumarkaði en þegar ný tækni sé innleidd á Íslandi gerist hlutirnir á methraða.

„Við horfum auðvitað alltaf í kringum okkur; hvað sé að gerast ytra og svo kemur það til Íslands ári til þremur árum síðar. Þannig voru sjálfsafgreiðslukassar ekki opnaðir fyrr en 2018 hér á landi en aðeins fjórum árum síðar sinna þeir meirihluta afgreiðslu í verslunum.“

Annt um starfsfólk Samkaupa

Því er iðulega velt upp hvort aukin sjálfvirkni muni fækka störfum í verslunum en Gunnar Egill segir markmið Samkaupa ekki að fækka störfum.

„Á hinn bóginn viljum við sjálfvirknivæða alla þá ferla sem hægt er. Þannig eyðum við ekki jafn mikilli orku og tíma í hluti sem við getum látið tæknina sjá um, en sköpum í staðinn tíma og rúm með okkar öfluga starfsfólki til að skapa verðmætari störf sem felast í þjónustu og upplifun viðskiptavina,“ segir Gunnar.

Honum er annt um starfsfólkið.

„Já, sannarlega og það er skrifað í stefnu Samkaupa að við tölum ekki bara um mannauð sem okkar helstu auðlind á tyllidögum heldur alla daga ársins og sýnum það í verki. Mitt fyrsta verk sem forstjóri var að heimsækja allar okkar starfsstöðvar. Við rekum 63 verslanir um land allt og ég hef þegar heimsótt 45 þeirra. Þar hefur snortið mig hvað starfsfólkið er meðvitað um hversu dýrmætt það er fyrirtækinu. Við höfum innleitt margar aðgerðir þegar kemur að því að styrkja mannauðinn. Við vorum til dæmis fyrst til að útbúa velferðarpakka þar sem starfsfólkið fær aðstoð við sálfræði- eða lögfræðiþjónustu og fleira sem snertir okkar starfsfólk eins og annarra. Og þótt ég sé nýr forstjóri er ég langt í frá nýbyrjaður hjá Samkaupum. Ég hef fylgst með fyrirtækinu þróast og styrkjast og veit hversu heppin við erum með öflugan hóp starfsfólks. Þegar það talar að fyrra bragði um að upplifa á eigin skinni að okkur sé annt um það, með hlunnindum, afsláttum og fleiru, þá veit ég að við erum að gera rétt. Því fylgir góð tilfinning.“ ■