Jónas Kristjánsson var langt á undan sinni samtíð en sögu hans verða gerð góð skil í heimildarmynd sem Margrét og Guðjón vinna nú að. „Myndin sem við í Sagafilm erum að framleiða, fjallar um Jónas og hans miklu arfleifð, sem lifir enn í starfinu á Heilsustofnun í Hveragerði. Hann var frumkvöðull í heilsueflingu og kom fram með hugmyndir sem á þeim tíma þóttu framandi en eru í fullu gildi enn þann dag í dag. Strax í upphafi tuttugustu aldarinnar talaði Jónas fyrir heilsueflingu og hvatti fólk til að hugsa vel um heilsuna, passa upp á mataræðið, bæta húsakost og fleira, en óhreinindi og léleg húsakynni ollu eða kyntu undir alls konar sjúkdómum. Hann formælti neyslu á sykri, hvítu hveiti og áfengi og talaði mikið um skaðsemi tóbaks. Jónas Kristjánsson vildi að fólk bæri ábyrgð á eigin heilsu, með því að lifa heilsusamlegu lífi og fyrirbyggja þannig ýmsa sjúkdóma,“ segir Margrét, sem er framleiðandi myndarinnar.

Saga Heilsustofnunar er samofin ævisögu Jónasar og er því í stóru hlutverki í myndinni. „Við segjum frá því þegar Heilsuhælið, eins og það hét í fyrstu, var stofnað árið 1955, og förum yfir hvernig starfsemin var og hefur verið frá upphafi. Einnig kemur fram hvers vegna það er staðsett í Hveragerði, en það er merkileg saga á bak við það. Jónas hafði lokið sinni starfsævi sem héraðslæknir, en hann var lengst af á Sauðárkróki, sem var stórt og víðfeðmt læknisumdæmi, þegar hann setti Heilsuhælið á laggirnar, áttatíu og fimm ára að aldri, sem er stórmerkilegt. Hann var yfirlæknir á hælinu þar til hann lést, árið 1960,“ segir Margrét og áhuginn á viðfangsefninu leynir sér ekki.

Hún talar sérstaklega um hversu vel arftökum hans hefur tekist að halda kenningum Jónasar um náttúrulækningar á lofti. „Þær hafa lifað af allar tískubylgjur, enda mikil vísindi á bak við þær. Hann byggði hugmyndir sínar um náttúrulækningar meðal annars á hugmyndafræði erlendra heilsuhæla, sem hann heimsótti á ferðum sínum um heiminn,“ upplýsir Margrét.

Hugsjónastarfið heillaði

Tilviljun réði því að Margrét tók að sér að gera heimildarmynd um Heilsustofnun og hún fékk Guðjón með sér í verkið, en hann leikstýrir myndinni. „Hann er ungur og upprennandi leikstjóri, sem er að vinna með mér að öðru verkefni. Heimildarmyndin kom þannig til að ég mælti mér mót við langafabarn Jónasar, sem var á Heilsustofnun. Ég hélt við ætluðum bara að spjalla saman yfir fjallagrasatei en þá kom í ljós að hann vildi að ég tæki að mér að gera þessa mynd. Ég hafði engan tíma til þess en svo hitti ég fólkið sem stýrir Heilsustofnun og heillaðist svo af þessu hugsjónastarfi að ég ákvað að finna tíma fyrir þetta spennandi verkefni,“ segir Margrét.

Hansína Benediktsdóttir var eiginkona Jónasar og segir Margrét að hún hafi átt stóran þátt í starfi hans. „Jónas átti frábæra konu sem stóð þétt við bakið á honum. Hann hefði aldrei áorkað svona miklu ef hún hefði ekki verið með honum í þessu starfi.“

Miklar heimildir eru til um líf og starf Jónasar, sem hafa nýst vel í ferlinu. Þau Margrét og Guðjón fóru á slóðir Jónasar, bæði fyrir norðan og austan þar sem hann hóf starfsferilinn og var lengi læknir, en þau hjónin bjuggu að Brekku í Fljótsdal. Þau hafa komst yfir gamalt og nýtt myndefni, meðal annars frá Kvikmyndasafninu og Sjónvarpinu. „Það er haldið vel utan um þessa sögu á Heilsustofnun og afkomendur Jónasar brenna fyrir henni. Nokkrir hafa reynt við að gera mynd um hann, það var til dæmis búið að taka upp nokkur viðtöl við fólk sem tengist þessari sögu, svo búið var að vinna töluverða forvinnu. Jónasarstofa stendur líka óhreyfð á Heilsustofnun og þar eru upplýsingar, myndir og bækur sem við getum sótt í. Við erum ekki með nein viðtöl við Jónas sjálfan, og það væri gaman ef einhver lumar á gömlum myndum frá fyrstu árunum eða einhverju efni sem kæmi sér vel við þessa vinnu, þá má hafa samband við Inga Þór Jónsson hjá Heilsustofnun sem kemur þeim til okkar,“ segir Margrét vongóð.

Stefnt er að því að frumsýna heimildarmyndina öðru hvoru megin við áramótin en í ár er 150 ára ártíð Jónasar.

Jónas Kristjánsson varði síðustu tuttugu árum starfsævinnar í að kynna náttúrulækningastefnuna, sem hann hafði heillast af á ferðum sínum erlendis. Hann fæddist að Snæringsstöðum í Svínadal í Húnavatnssýslu.