Pure North Recycling hlaut nýverið Bláskelina, sem er viðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir árangur í málefnum plastúrgangs. Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North, segir að starfsmenn séu ákaflega ánægðir og stoltir að hafa hlotið þessi verðlaun. „Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkar starf. Ég segi sjálfur að Pure North Recycling sé eitt flottasta umhverfisverkefni sem hefur verið sett upp hér á landi,“ segir hann. Pure North hóf starfsemi árið 2016 og byrjaði sem tilraunavinnsla í að nýta jarðvarma til að endurnýta plast.

Sigurður hafði starfað við endurvinnslu á timbri frá árinu 2008, en þá var einnig nýttur jarðvarmi í vinnslunni. „Þegar reglur um meðhöndlun og endurvinnslu plasts voru settar í Evrópu 2018, ásamt banni við að senda það til endurvinnslu í Kína, kom upp þörf fyrir úrbætur í hverju landi fyrir sig. Pure North Recycling er eina fyrirtækið á Íslandi á þessu sviði. Við tökum við plastúrgangi og breytum honum í verðmæta afurð,“ útskýrir Sigurður.

Tækjabúnaðurinn er umhverfisvænn eins og fyrirtækið.

Pure North er millistykkið í hringrásarhagkerfinu

„Aðalafurð Pure North Recycling er endurunnið plast til framleiðslu á ýmsum plastvörum, bæði hérlendis og erlendis. Við höfum látið gera vistferilsgreiningu á okkar framleiðsluferli og viljum meina að hjá okkur verði til umhverfisvænasta endurunna plast sem til er í heiminum í dag. Þar sem við nýtum jarðvarma og hreina orku, erum við með um 75% lægra kolefnisspor heldur en sambærilegt plast sem er endurunnið í Evrópu,“ útskýrir Sigurður og bætir því við að fyrirtækið hafi vaxið hratt og nú séu þrettán starfsmenn í vinnu. „Framleiðslan hefur tvöfaldast á hverju ári frá 2018. Við erum að endurvinna yfir eitt þúsund tonn af plasti á þessu ári.

Umhverfisvernd hefur verið mér hugleikin lengi og ekki síst að tengja umhverfisvernd og viðskipti. Menn höfðu ekki mikla trú á þessari starfsemi í upphafi, sögðu að margir hefðu reynt en ekki gengið. Við náðum að afsanna það með því að hanna allt ferlið upp á nýtt með nýtingu á jarðvarma og á sama tíma að gera fyrirtækið arðbært. Hveragerði var sérstaklega valið vegna aðgengis að grænni orku sem bæði gerir ferlið umhverfisvænna og rekstrarkostnað lægri. Það er draumur minn að nýta þá þekkingu sem við höfum byggt upp og flytja hugverkið út, því það fellur til mikil glatorka í heiminum sem hægt er að nýta til endurvinnslu,“ segir Sigurður.

Hérna heldur Sigurður framkvæmdastjóri á endurunnu plasti í formi plastperlna sem er síðan pakkað í sekki og selt til plastvöruframleiðenda.

Hugsunarhátturinn breyttur

Sigurður segir að umræðan um plast sé að breytast og að fólk sé farið að umgangast það með ábyrgari hætti en áður. Það er búið að sýna fram á að plast er umhverfisvænt þegar kemur að matarsóun. Plastumbúðir eru ódýrari en margar aðrar umbúðir og kostar minna að flytja það en til dæmis gler. Notkunin mun breytast en hún mun ekki minnka. Það er í raun engin önnur lausn í sjónmáli sem er betri en plast. Kröfur eru á framleiðendur um að plastið sé endurvinnanlegt,“ segir Sigurður. Pure North Recycling hefur meðal annars komið á samstarfi við bændur um að endurvinna heyrúlluplast á Íslandi og gera úr því nýjar vörur, til að mynda girðingarstaura. „Við sjáum mikil tækifæri í að loka hringrás plasts og annarra efna innanlands, þar sem úrgangur er endurnýttur eða endurunninn í hráefni hérlendis, fer þaðan til framleiðenda og aftur á innlendan markað.“

Plastúrgangur berst til fyrirtækisins frá sveitarfélögum, fyrirtækjum og gámastöðvum.

Nýjar lausnir í boði

Pure North Recycling fékk mikið magn af plastpokum frá fyrirtækjum þegar plastpokabannið var sett á, meðal annars frá Fríhöfninni. Það var allt endurunnið. „Þegar kemur að úrgangs- og umhverfismálum erum við bjartsýn á framtíðina. Það er fullt af spennandi lausnum og hönnun í þróun. Við erum á tímamótum núna þar sem enn er verið að nota gamaldags vinnsluaðferðir, en það er mjög jákvæð og spennandi þróun í gangi í þessum málum. Bæði fyrirtæki og einstaklingar eru sífellt að verða jákvæðari í að leggja sitt af mörkum til umhverfisverndar. Hráefnisverð fer hækkandi í heiminum og það er mjög mikilvægt að nýta það sem er til nú þegar. Sú þróun á eftir að verða hraðari, til dæmis að nýta aftur allt plast,“ segir Sigurður.

„Það hefur aukist mjög mikið að fyrirtæki skili beint til okkar sínum plastúrgangi. Þegar fyrirtækin skila plastinu gefum við þeim vottun um endurvinnslu. Þetta er allt mjög gagnsætt ferli. Sömuleiðis höfum við aðstoðað fyrirtæki og sveitarfélög við að koma úrgangsmálum þeirra í betra horf, meðal annars með nýjum lausnum sem hafa ekki verið í boði hingað til. Við settum til að mynda í gang verkefni sem nefnist Þjóðþrif fyrir tveimur árum, sem er landsátak til að vekja athygli á nauðsyn þess að Íslendingar sem þjóð taki ábyrgð á eigin endurvinnslu og tryggi að endurnýtanleg hráefni verði hluti af hringrásarhagkerfi Íslands.“

Hjá Pure North Recycling eru þrettán starfsmenn.

Innviðir og kerfi eftir á

Plastmengun er alvarlegt umhverfisvandamál af mannavöldum sem fer sívaxandi. Plastmengun er farin að hafa áhrif á vistkerfið í heild og ekki síst vistkerfi hafsins. Íslendingar eiga mikið undir í sjávarútvegi og ferðaþjónustu með ósnortna náttúru og nú ógnar þessi þróun afkomu okkar og velferð. „Hjá Pure North Recycling vinnum við með lausnir. Okkar stefna er að vinna með fyrirtækjum og sveitarfélögum, með því að koma þeirra úrgangsmálum í gagnsæjan, umhverfisvænan farveg. Við teljum að fyrirtæki og einstaklingar séu tilbúin að ganga mun lengra í úrgangs- og umhverfismálum en innviðir og kerfi bjóða upp á í dag, því þurfi stjórnvöld að móta og búa til umhverfi þannig að hægt sé að taka hröð og árangursrík skref á næstu þremur til fimm árum.“

Fyrirtækið Pure North Recycling ehf. er staðsett að Sunnumörk 4 í Hveragerði. Hægt er að hafa samband í síma 483 5100. Einnig er hægt að kynna sér starfsemina á heimasíðunni purenorth.is og á Facebook-síðu fyrirtækisins

Fyrirtækið er staðsett í Hveragerði og nýtir jarðvarma í vinnslunni.