Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi þann 1. október en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september, undir heitinu Researchers' Night. Dagana á undan og á eftir verður boðið til Vísindakaffis, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, þar sem vísindafólk mun kynna viðfangsefni sín á óformlegan hátt í þægilegri kaffihúsastemningu þar sem má spyrja vísindafólk spjörunum úr.

Fyrsta Vísindakaffið verður haldið þriðjudaginn 27. september en þar mun Þórarinn Guðjónsson, prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands, fjalla um stofnfrumur og krabbamein undir yfirskriftinni „Hvað viltu vita um frumurnar þínar?“.

„Í spjallinu mínu ætla ég að ræða um frumur líkamans með áherslu á stofnfrumur ýmissa vefja og tengsl þeirra við sjúkdóma á borð við krabbamein. Stofnfrumurannsóknir verða æ mikilvægari í leitinni að lausnum við margvíslegum sjúkdómum. Stofnfrumur eru ósérhæfðar en hafa hæfni til að þroskast yfir í frumur með sérstaka virkni.“

Hann segir stofnfrumur geta fræðilega orðið að hvaða frumum sem er og endurnýjað sig án þess að sýna merki öldrunar.

„Slíkar frumur eru því ákaflega mikilvægur efniviður í rannsóknum en ekki síður í meðferð við hinum ýmsu sjúkdómum.“

Skoðaði hlutverk stofnfruma

Þórarinn er með doktorsgráðu frá læknadeild Kaupmannahafnarháskóla.

„Í doktorsnáminu rannsakaði ég hlutverk stofnfruma í formgerð eðlilegs brjóstkirtils og tengsl þessara fruma við brjóstakrabbamein. Ég byggði síðan upp rannsóknahóp við læknadeild Háskóla Íslands þar sem ég hélt áfram að skoða hlutverk stofnfruma í vefjum líkamans með áherslu á brjóstkirtilinn og lungu. Við höfum þróað ýmis þrívíð frumuræktunarkerfi sem nýtast til rannsókna á vefjum líkamans og einnig á tilurð og þróun krabbameina. Einnig notum við þessi frumuræktunarkerfi til að prófa ný krabbameinslyf.“

Það ríkir notaleg kaffihúsastemning á Vísindakaffinu. MYND/RANNÍS

Fólk er þakklátt og spennt

Hann segir Vísindakaffið og Vísindavökuna hafa mikið gildi fyrir bæði almenning og háskólasamfélagið.

„Við vísindamenn framkvæmum rannsóknir okkar fyrir opinbert fé sem við fáum í gegnum samkeppnissjóði. Okkur ber skylda til að segja almenningi frá rannsóknum okkar og gera það á þann hátt að almenningur skilji hvað við erum að tala um. Það er ótrúlega margt spennandi að gerast í rannsóknum sem almenningi finnst áhugavert að heyra um. Um leið er mjög mikilvægt að háskólasamfélagið miðli vísindum sem unnin eru innan veggja skólanna. Þegar við gerum það þá finnur maður fljótt hvað fólk er þakklátt og spennt yfir því sem er að gerast í rannsóknum hérlendis.“

Vísindakaffi einnig á landsbyggðinni

Boðið verður upp á þrjú Vísindakaffi í Bókasamlaginu í Reykjavík og á sex stöðum á landsbyggðinni. Fyrsta Vísindakaffið verður þriðjudaginn 27. september í Bókasamlaginu, Skipholti 19 í Reykjavík, og stendur yfir frá kl. 20-21.30. Kaffistjóri er Sævar Helgi Bragason.

Nánari upplýsingar á visindavaka.is/visindakaffi