Það er gríðarlegt högg fyrir allflesta að missa vinnu. „Það ógnar ekki bara afkomu heldur heggur það í sjálfsmyndina. Þetta á ekki síst við á Íslandi. Við virðumst hafa sterka tilhneigingu til að skilgreina okkur út frá störfum okkar og spyrjum gjarnan þegar við hittum samferðafólk: „Hvað gerir þú?“ Það er því afar mikilvægt, þegar afkoma hefur verið tryggð, að fólk fái stuðning við að takast á við atvinnumissi. Þá er ekki síst mikilvægt að greina þau tækifæri sem geta falist í slíkum breytingum, eins og tækifæri til að læra eitthvað nýtt og breyta til. Þar koma náms- og starfsráðgjafar sterkir inn.

Hópurinn, sem hefur haft færri tækifæri til náms, hefur verið mér sérstaklega hugleikinn. Sömuleiðis vil ég nefna mikilvægi starfsendurhæfingar og stuðnings við þá sem glíma við hindranir og skerðingar á starfsgetu. Það eiga allir að eiga rétt á að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði og leggja til samfélagsins,“ segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur var í fyrsta útskriftarhópnum sem útskrifaðist frá HÍ með diplómanám í náms- og starfsráðgjöf árið 1991 og lauk meistaranámi 2019. „Ég byrjaði að starfa í skólakerfinu en bauðst svo starf hjá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu. Þar fékk ég tækifæri til að sinna ráðgjöf og stuðningi við atvinnuleitendur, fann fjölina mína og átti góðan tíma. Nánast allan minn starfsferil, hef ég unnið að slíkri ráðgjöf.“

Hrafnhildur hefur starfað hjá Vinnumálastofnun frá árinu 2005 þar sem starfa um 30 náms- og starfsráðgjafar. „Ansi margir úr stéttinni hafa haft viðkomu á sínum starfsferli hjá Vinnumálastofnun og höfum við verið einstaklega heppin með starfsfólk. Hjá okkur starfa líka ráðgjafar með fjölbreytta menntun eins og félagsráðgjafar, vinnusálfræðingar og þroskaþjálfar. Slík teymisvinna, þvert á starfsstéttir, er mikill styrkur fyrir þjónustuna.“

Nú í september var skráð atvinnuleysi komið niður í 5% sem er jafn mikið og það var í febrúar 2020, rétt fyrir Covid.

Nám er tækifæri

Hrafnhildur segist vera lánsöm að fá að koma að skipulagi og framkvæmd fjölmargra vinnumarkaðsúrræða hjá Vinnumálastofnun. „Þar langar mig að nefna átaksverkefnið „Nám er vinnandi vegur“ sem var sett af stað í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Atvinnuleitendum, sem höfðu verið án atvinnu í lengur en sex mánuði, bauðst að fara í fullt nám í eina önn á öllum skólastigum með óskertar atvinnuleysisbætur.

Það kom í ljós að brotthvarf úr námi hjá þessum hóp var minna en hjá samanburðarhópi. Ástæðan fyrir því er líklega sú að viðbótarfjármagn var sett í náms- og starfsráðgjöf í þeim skólum sem tóku á móti atvinnuleitendum. Einnig hafði gott samstarf ráðgjafa Vinnumálastofnunar og ráðgjafa viðkomandi skóla mikið að segja og hefur árangurinn sýnt fram á gildi ráðgjafar. Verkefnið skilaði góðum árangri því aðeins lítið brot þátttakenda kom aftur inn á atvinnuleysisskrá.

Í niðursveiflunni í kjölfar Covid-19, þar sem atvinnuleysi hefur aldrei verið meira, var afar nærtækt að grípa til sambærilegs úrræðis sem við köllum „Nám er tækifæri“. Úrræðið hefur staðið atvinnuleitendum til boða síðustu tvær annir og verður í boði í síðasta skipti á komandi vorönn. Færri hafa nýtt sér þetta úrræði en vonir stóðu til og má mögulega skýra það með áhrifum Covid á skólahald. Nám hefur víða farið fram í fjarnámi sem getur verið áskorun fyrir þá sem ekki hafa verið lengi í námi. Eins eru margir atvinnuleitendur fyrst og fremst að bíða eftir að komast í starfið sitt aftur. Mig langar að nota tækifærið og vekja athygli á þessu verkefni því það getur sannarlega verið upphafið að nýju tækifæri,“ segir Hrafnhildur.

Framtíðin er þó björt í kjölfar faraldursins. „Nú í september var skráð atvinnuleysi komið niður í 5% sem er jafn mikið og það var í febrúar 2020, rétt fyrir Covid. Það fór hæst í 11,6% í janúar 2021 svo við getum sannarlega glaðst yfir árangrinum sem náðst hefur og ég leyfi mér að vera bjartsýn um framhaldið.“

Verkefnið hefur nú þegar skilað okkur rúmlega 15.000 störfum sem leiddu til þess að samningar hafa verið gerðir um ráðningar tæplega 7.000 atvinnuleitenda.

Ráðningastyrkur hefur störf

Verkefnið „Hefjum störf“ felst í því að veita ráðningarstyrk til fyrirtækja sem ráða atvinnuleitendur í vinnu. „Árangurinn af verkefninu hefur farið fram úr björtustu vonum. Langar mig að nota tækifærið og þakka fyrirtækjum og atvinnulífinu fyrir gott samstarf og góð viðbrögð. Verkefnið hefur nú þegar skilað okkur rúmlega 15.000 störfum sem leiddu til þess að samningar hafa verið gerðir um ráðningar tæplega 7.000 atvinnuleitenda.

Verkefninu lýkur um áramótin en þá tekur aftur við sambærilegt vinnumarkaðsúrræði um ráðningarstyrki sem lengi hefur verið í boði. Við vonum að Hefjum störf verði til þess að atvinnulífið þekki þennan valkost og nýti sér hann. Því reynslan sýnir að aðeins um 20% af þeim sem taka þátt koma aftur inn á atvinnuleysisskrá þegar úrræðinu lýkur.“

Framtíðin

Örar tæknibreytingar orsaka gríðarlegar breytingar á vinnumarkaðnum og hafa áhrif á þróun starfa og munu einstaklingar því þurfa að sýna fram á gífurlega aðlögunarhæfni. „Þar gegna náms- og starfsráðgjafar afar mikilvægu hlutverki bæði í skólum og með tilboð um ráðgjöf í gegnum allan starfsferilinn. Eftirspurnin eftir ráðgjöf varðandi starfsþróun út lífið mun fara vaxandi. Tæknibreytingar hafa líka haft áhrif á þróun ráðgjafar og opnað nýja samskiptaleið með tilkomu rafrænnar ráðgjafar. Þannig nær náms- og starfsráðgjöf til enn stærri hóps á hagkvæmari hátt. Hér er sóknarfæri til að mæta vaxandi þörf starfsráðgjafar út lífið sem okkur ber að nýta.“