„Til að hér takist sem best til verður að vera til staðar gagnkvæmt traust og þá þarf stjórnandinn að vera sú fyrirmynd sem starfsfólk getur litið til,“ segir Ásdís Auðunsdóttir, forstöðumaður á heimili fyrir fatlað fólk. „Fjársjóðurinn er fólginn í því að virkja það afl sem býr í starfsmannahópnum. Í hverjum og einum starfsmanni býr metnaður og það er mikilvægt að hlusta á ólíkar skoðanir, að starfsfólk finni að það sé tekið mark á því, og að hugmyndir þess og tillögur fái að heyrast þannig að það fái notið sín í starfi. Stjórnandi þarf einnig að standa með sínu fólki og styðja og hvetja til frumkvæðis. Það kemur öllum til góða að stjórnandi leggi sig fram um að hlúa að starfsmannahópnum. Í okkar starfi er ákveðin festa mikilvæg; mikil starfsmannavelta er ekki góð fyrir þjónustunotendur.“

Ásdís segir að starfsmannahópurinn á heimilinu þar sem hún vinnur sé fjölbreyttur en þar vinnur bæði fagfólk með mikla reynslu og svo ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref. Segir hún að þá skipti góð aðlögun miklu máli um framhaldið. „Hafnarfjarðarbær hefur boðið upp á nýliðafræðslu þar sem farið er yfir hugmyndafræði, réttindi og skyldur í starfi. Það er gefandi að sjá ungt fólk koma til starfa og þroskast í starfi sínu og jafnvel mennta sig til starfsins. Starfsfólk þarf að fá tækifæri til starfsþróunar og hefur Hafnarfjarðarbær verið með metnaðarfulla starfsþróun í þessum geira. Ég hef hvatt mitt fólk til að fara á námskeið, tileinka sér nýja þekkingu svo allir þekki og raungeri hugmyndafræðina sem unnið er eftir. Markmiðið er velferð íbúanna.“

Ásdís segir að það áhugaverða við forstöðumannastarfið sé hvað verkefnin eru fjölbreytt, þarfir íbúa ólíkar og verkefnin margs konar. „Forgangsverkefni er að sjálfsögðu þjónustan við íbúa sem þarf sífellt að vera í endurskoðun og margir þræðir þurfa að sameinast svo vel takist til. Góður starfsmannahópur með sameiginlega sýn og sem vinnur sem ein heild er lykillinn að árangursríku starfi.

Inga Fríða Tryggvadóttir, leikskólastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ.FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hluti af hópnum

„Ég var ekki með stjórnunarreynslu en var búin að vera handboltaþjálfari í nokkur ár og ákvað að taka svolítið þjálfarann á þetta,“ segir Inga Fríða Tryggvadóttir, leikskólastjóri Smáralundar í Hafnarfirði, um það þegar hún hóf störf á sínum tíma. „Ég var landsliðskona í handbolta og spilaði bæði með Stjörnunni og Haukum og var heppin að spila í góðum liðum með góðri liðsheild og mikilli hópstemningu. Þegar ég tók við starfinu fannst mér tilvalið og mikilvægt að endurspegla og búa til þessa liðsstemningu og keppnisanda. Ég lít á mig sem þjálfarann í hópnum, reyni að leiðbeina vel og vera fyrirmynd. Maður horfir í og reynir að ýta undir styrkleika hvers og eins því rétt eins og á vellinum þá kallar leikskólastarfið á fjölbreytni í fólki, sveigjanleika og skarpa og skapandi hugsun. Ég vil að mitt fólk blómstri í sínu starfi og legg því upp með að lesa svolítið starfsfólkið, eða leikmennina, í leikskólanum.“

Inga Fríða segir það einkennandi að starfsfólk leikskóla hugsi í lausnum. „Leikskólastarfið er án vafa eitt skemmtilegasta og mest gefandi starf í heimi. Því fylgir mikil gleði en líka mikið álag. Börn á hverri deild eru mörg, þarfirnar ólíkar, rými oft á tíðum lítið og hávaðinn mikill. Við þekkjum þetta vel og látum verkin tala. Það að breyta aðstöðu og umhverfi er svolítið undir okkur komið; alveg eins og í íþróttum þar sem leikmenn þurfa að velta því fyrir sér hvort og þá hvernig þeir ætla að leggja sig fram í leikjum til að vinna. Sigurinn er svo miklu sætari. Við nennum ekki að staldra lengi við einhver vandamál eða krefjandi verkefni. Við reynum að passa vel upp á okkar andlegu líðan; notum núvitund í starfi bæði fyrir okkur sjálf og nemendur til að hlúa að okkur og sjálfi okkar. Ég vil að öllum líði vel og velti fyrir mér hvað ég get gert til að ýta undir vellíðan í starfi, til að minnka álagið og auðvitað vera með framúrskarandi skólastarf. Hópurinn minn er frábær og starfsmannaveltan hefur verið lítil þannig að eitthvað erum við að gera rétt.“

Inga Fríða segist almennt leggja áherslu á að vera hluti af hópnum þó það sé svo hún sem taki lokaákvarðanirnar og þurfi að taka á erfiðum málum. „Ég geng í öll störf þannig að ég veit hvað ég er að tala um. Ég er sýnilegur stjórnandi og reyni að vera leiðtogi bæði í orði og á borði; að vera jákvæð og lausnamiðuð þannig að það smitist út í starfið og til félaga minna. Ég legg þannig frekar áherslu á það sem við getum gert í hinum ótrúlegustu aðstæðum en ekki hversu stórt verkefnið er. Ég reyni að enda alltaf daginn inni á deild þannig að ég sé í samskiptum við bæði starfsfólk og foreldra. Þetta fyrirkomulag gefur mér mikið, styrkir tengslin, fyllir mig gleði og léttir lundina eftir langan dag á skrifstofunni.“

Unnur Elfa Guðmundsdóttir, skólastjóri Áslandsskóla. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Árangur kemur með vellíðan og öryggi

„Það er skemmtilegt og gefandi starf að vera stjórnandi í skóla. Verkefnin eru mörg og mismunandi og enginn dagur eins. Að bregðast við óvæntum aðstæðum er daglegt brauð og það þakklæti og sú hlýja sem maður fær frá nemendum sínum gefur starfinu þýðingarmikinn blæ. Það er okkar starf að virkja og styrkja einstaklingana til árangurs, hvern á sínu sviði, og gefa þeim tækifæri til að skapa sér bjarta framtíð,“ segir Unnur Elfa Guðmundsdóttir, skólastjóri Áslandsskóla.

„Með góðri samvinnu og samskiptum sem einkennast af virðingu við nemendur, foreldra og samstarfsfólk byggir maður upp gott skólasamfélag sem er fræðandi, hvetjandi og styðjandi. Samvinna og samtal eru þættir sem skila miklu til okkar ásamt því að skapa traust og samstöðu. Öflugt skólasamfélag er lykilþáttur í lífi okkar allra og vellíðan nemenda getur skipt sköpum í þáttum eins og námsárangri. Það þarf að hlusta og sýna áhuga, fá foreldra til þátttöku í mjög svo fjölbreyttum aðstæðum og búa þannig um að allir séu hluti af sameiginlegri heild, heild sem hefur það markmið að ala upp börn og ungmenni í heilbrigðu samfélagi.“

Unnur Elfa segir að það hafi margoft sýnt sig að starfsfólk, sem líður vel, skilar árangri og metnaðarfullu starfi og það eigi svo sannarlega við í Áslandsskóla. „Starfsfólk sem nýtur stuðnings og upplifir traust og skilning á sín störf nær aukum árangri. Með ákveðinni festu en jafnframt sveigjanleika skapast besta starfsumhverfið.“

Unnur Elfa bendir á að mikilvægt sé að velvild sé til staðar á vinnustaðnum, framtíðarsýn sé skýr og að allir viti til hvers sé ætlast af þeim sem og að einstaklingurinn upplifi öryggi.

„Við þurfum að vera óhrædd við að gera breytingar sem teknar eru með upplýstum ákvörðunum og tryggja að mismunandi raddir heyrist, vera fyrirmynd og sýna sanngirni og heiðarleika með því að láta í ljós skoðanir sínar þó svo að þær séu ekki alltaf líklegar til vinsælda. Stjórnandinn þarf í senn að vera bæði stjórnandi og leiðtogi, vera hvetjandi, óhræddur við að deila verkefnum til annarra, fanga og ýta undir sérstöðu og nýta hæfileika hvers og eins til sterkari framtíðar. Það er mikill mannauður í skólasamfélaginu sem mikilvægt að virða og meta.“