Leikbreytir er hugbúnaðarfyrirtæki sem býður upp á allar gerðir hugbúnaðarlausna fyrir fyrirtæki, allt frá vefhýsingu og vefsíðugerð yfir í snjallmenni og sjálfvirkni sem einfalda fyrirtækjum þjónustu við viðskiptavini. Þá nýta tæplega 100 íslensk fyrirtæki sér þjónustu Leikbreytis.

Leikbreytir er í raun ekki bara nafn fyrirtækisins heldur aðalgildi okkar,“ segir Yngvi. „Við viljum vera „game-changer“ eða leikbreytir fyrir fyrirtæki og viðskiptavini þeirra. Við einblínum á góða þjónustu og horfum til fyrirtækja í þjónustugeiranum eins og Ritz Carlton og Apple sem og fyrirtækja eins og Nova þegar þeir komu á símamarkaðinn hér heima. Hjá Leikbreyti viljum við veita tækniþjónustu á mannamáli. Við teljum mikilvægt að viðskiptavinurinn skilji hvað hann er að kaupa, en ekki endilega hvað tæknin á bak við heitir. Því er ekki að neita að hugbúnaðargerð og tækniþjónusta hefur einkennst af flóknum tækniorðum og skammstöfunum sem fáir þekkja og því mikilvægt að einfalda það til muna og gera aðgengilegra stjórnendum sem oft eru í kapphlaupi við tímann – það teljum við vera leikbreyti í þessum geira.

Okkar samtal við viðskiptavini snýst aftur á móti um það hvernig við getum náð fram leikbreyti í þjónustu og aukið sölu fyrir þá með hjálp tækni sem er í boði. Við tökum svo skrefið enn lengra og fullklárum verkefnið með heildarlausn sem við þjónustum áfram,“ segir Yngvi.

Byrjaði fimmtán ára í bransanum

Yngvi var ekki nema tæplega fimmtán ára þegar hann seldi sína fyrstu vefsíðu og sextán ára var hann ráðinn sem vefstjóri hjá Halló! Frjálsum fjarskiptum. „Ég hef unnið í þessum geira í tæp 25 ár. Lengst af átti ég og rak Davíð og Golíat ásamt viðskiptafélaga, eða í tæp tíu ár. Fyrirtækið sameinaðist síðan Premis 2017. Ég fór í MBA- nám í Háskólanum í Reykjavík um svipað leyti og bauðst starf sem vörustjóri fyrirtækjasviðs Nova. Ég var þar í tæplega tvö ár samhliða MBA-náminu, en það togaði í mig að fara aftur í eigin rekstur. Ákvörðunin var svo einföld eftir lokakúrs sem ég tók í MBA-náminu í frumkvöðlafræðum við Babson í Bandaríkjunum. Þá var eiginlega ekki aftur snúið,“ segir Yngvi. Leikbreytir varð þá til í kjölfarið.

Aukin sjálfvirkni – bætt samskipti

Leikbreytir er viðskiptamiðað hugbúnaðarhús sem sérhæfir sig að mestu í þjónustu við íslensk fyrirtæki. „Í þjónustuleiðum okkar leitumst við eftir að fækka endurteknum verkefnum starfsmanna með aukinni sjálfvirkni. Þannig bætum við þjónustu við viðskiptavini fyrirtækjanna sem við þjónustum. Þá bjóðum við upp á lausnir eins og snjallmenni, vefverslanir, þjónustuvefi og ýmsar aðrar sérlausnir. Flest öll fyrirtæki sem kaupa lausnir hjá okkur koma í heildarþjónustusamning hjá okkur, þar sem við önnumst hýsingu á lausnunum og almenna þjónustu. Við höfum sérhæft okkur í vefverslun og þjónustuvefjum almennt, samþættingum þeirra við bókhaldskerfi og önnur kerfi með það að leiðarljósi að auka sjálfvirkni í öllu. Eins leita fyrirtæki til okkar með að taka yfir þjónustu og rekstur vefverslana sem þau vilja koma í góðar hendur og þróa frekar.“

Leysum vandamálin á snjallan hátt

„Við höfum nýtt að mestu tækni sem er þegar til og öll okkar nálgun á þau verkefni sem við fáum, er ekki sú að finna upp hjólið heldur nýta lausnir sem eru til og aðlaga þörfum viðskiptavina okkar. Ávinningurinn er sá að almennt verður reikningagerð og bókhald allt sjálfvirkt sem fækkar mistökum og vinnu síðar. Eins verður lagerstaða réttari í vefverslunum og þeim þjónustuvefjum sem við höfum gert og með því að nýta rafrænar undirskriftir hefur okkur tekist að gera flókin umsóknarferli nánast alveg sjálfvirk.

Nálgun okkar á fyrirtækjaþjónustu á þessu sviði er almennt einstök og áður óþekkt þegar kemur að fyrirtæki sem vinnur við hugbúnaðarþróun og þjónustu. Við eigum mjög sjaldan óþarfa samtöl við viðskiptavini okkar um flókin tækniatriði og nálgumst öll verkefni út frá því að bæta þjónustu og auka sölu. Við erum alltaf að leysa vandamál sem snúa að því að bæta þjónustu og auka sölu viðskiptavina okkar sem treysta okkur til að finna bestu tæknina sem hentar í verkefnið.“

Yngvi segir að sjálfvirkni og snjallmenni séu framtíðin þegar kemur að þjónustuupplifun á netinu. Þessi atriði einfalda kaup og sölu í vefverslunum, bókhald, rekstur, þjónustu og fleira.
Mynd/Aðsend.

Framtíðin í þjónustuupplifun

Leikbreytir á heiðurinn af virkni fjölda vefverslana og þjónustuvefja hjá óramörgum fyrirtækjum og stofnunum og höfum við líklega flest nýtt okkur veflausnir Leikbreytis á einhverjum tímapunkti. „Við vinnum í raun bak við tjöldin og höfum gert fjölda vefverslana og þjónustuvefja sem margir hafa eflaust notað eða verslað við. Eins sjáum við um fjölmörg snjallmenni sem fólk hefur mögulega átt samtal við. Netspjall er orðin ein aðalsamskiptarás minni fyrirtækja og viðskiptavina. Það að auka sjálfvirkni í svörun eins og við erum að sérhæfa okkur í er tvímælalaust framtíðin í þjónustuupplifun.

Snjallmennin hafa verið vinsæl hjá fyrirtækjum þar sem þau svara síendurteknum fyrirspurnum um hluti eins og skilamál og opnunartíma netverslana. En það sem hefur helst glatt viðskiptavini okkar er hvernig má nýta þau til að auka söluna. Þau greina hvað viðskiptavini vantar og vinna þannig forvinnuna fyrir sölumenn, sem koma svo og klára söluna. Þetta er sérlega hentugt því snjallmennin eru auðvitað alltaf í vinnunni.

Ég held að hér heima hafi netverslun verið mest áberandi síðustu ár, sérstaklega í kjölfar Covid. Eins hafa verið tekin stór skref í öllu sem snýr að samskiptum við opinberar stofnanir og hafa rafrænar undirskriftir og auðkenningar spilað þar stórt hlutverk. Þá er áberandi að viðskiptavinir fyrirtækja og stofnanir kjósa frekar að eiga samtal í gegnum netspjall til að fá þjónustu, heldur en að hringja inn. Það er líka hjálplegt fyrir báða aðila að eiga samskipti á rituðu formi. Það getur komið í veg fyrir misskilning síðar meir.

Þá er mér ofarlega í minni nýlegt sérverkefni sem við unnum og erum að þróa frekar fyrir S4S. Lausnin felur í sér að allir viðskiptavinir þeirra sem eiga gjafabréf eða inneignarnótur geta fengið þær í Apple Wallet og Smart Wallet í símann sinn og séð hve mikil inneign er eftir. Þetta fyrirkomulag kemur í veg fyrir að strimlar eða gjafakort glatist, eða gleymist heima og er frábær þjónusta við viðskiptavini.“

Hvert er næsta þróunarskref í þessum bransa?

„Það eru enn fjölmörg verkefni óleyst í netspjalli og snjallmennum en ég tel að á næstu árum muni öll fyrirtæki og stofnanir bjóða upp á netspjall. Langtímasýn okkar er sú að með hjálp gervigreindar og aukinni sjálfvirkni muni þjónustuver fyrirtækja og opinberra stofnana eins og við þekkjum þau í dag heyra sögunni til. Snjallmenni munu í raun ekki bara getað svarað öllum fyrirspurnum sem koma inn í fyrirtæki heldur einnig geta fyrirbyggt vandamál þannig að fólk þurfi einfaldlega ekki aðstoð.“

Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu fyrirtækisins, leikbreytir.‌is.