Krakkakreistur og Krakkakropp er barnamatur sem framleiddur verður á Íslandi og væntanlegur er á markað á næsta ári. Verkefnið fékk styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna en það er á allan hátt umhverfisvænt.

Það eru þær Vaka Mar Valsdóttir og Sigrún Anna Magnúsdóttir, nemar á lokaári í matvælafræði við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, sem eru frumkvöðlar að þessu verkefni. Þær eru báðar mæður og fannst undarlegt að ekki væri fáanlegur íslenskur barnamatur. Í samstarfi við Sölufélag garðyrkjumanna þróuðu þær barnamat úr grænmeti sem ýmist er of smátt, of stórt, bogið eða brotið og því ekki söluhæft en að öðru leyti í fullkomnum gæðum.

Vinkonurnar höfðu hug á nýsköpun sem tengdist námi þeirra og sóttu um styrk í Nýsköpunarsjóð námsmanna. „Við sáum frekar fljótt að þetta verkefni var mun stærra en við sáum fyrir okkur í upphafi og stofnuðum upp frá því fyrirtæki, Sifmar, sem við nefndum eftir börnunum okkar sem heita, Freyja Sif og Hvannar Mar. Við munum framleiða annars vegar Krakkakreistur sem er maukaður barnamatur í pokum og síðan Krakkakropp sem er grænmetisnasl sem bráðnar í munni og dregur úr köfnunarhættu. Til að framleiða vöruna hyggjumst við nýta umhverfisvænni tækni en gengur og gerist við framleiðslu á barnamat til dæmis með nýtingu jarðvarma,“ segir Vaka.

„Rannís styrkir því miður ekki tækjakaup, við fengum styrk frá Tækniþróunarsjóði til gerðar á markaðskönnun og almennri fýsileikakönnun. Þá fengum við fyrir stuttu stóran styrk frá Matvælasjóði sem gerir okkur kleift að halda áfram með vöruþróun og lokavinnu á umhverfisvænu ferli í framleiðslunni.

Núna vinnum við að því að fjármagna kaup á tækjabúnaði til að geta farið sem fyrst með vöruna í sölu. Hagar eru búnir að kaupa fyrsta upplag af Krakkakreistum,“ segir Vaka og bendir á að þar sem um barnamat sé að ræða þurfi varan að standast strangar kröfur. Varan þarf að vera samkvæmt lýðheilsustefnu og hollustan í fyrirrúmi. Í hraða nútímans vill maður geta fengið barnamat til að grípa í á ferðinni en um leið þarf varan að vera holl og góð.“

Nýsköpunarstyrkurinn í upphafi skipti þær vinkonur miklu máli til að hefja ferlið. „Þá gátum við unnið í nokkra mánuði hjá Matís undir leiðsögn Ólafs Reykdal sem hefur hjálpað okkur gríðarlega mikið. Alls kyns markaðskannanir og grunnvinna hefði ekki verið möguleg án styrkja,“ segir Vaka en um leið og þær hafa sett vöruna á markað hafa þær um leið skapað sér atvinnutækifæri. Verkefnið fékk tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forsetans á þessu ári. „Það var mjög hvetjandi og gefur manni byr undir báða vængi til að halda áfram.“