„Við ætlum að fjalla um mannlega sjúkdóma í músum og hvernig nota má mýs til að rannsaka ýmsa sjúkdóma og auka skilning okkar á þeim,“ upplýsir Valdimar Sveinsson, einn fjögurra læknanema sem í sumar tóku þátt í Mobility-verkefninu sem ESB/ESS styður.

„Okkur bauðst að taka þátt í rannsóknum á þessum tilteknu sjúkdómum vegna þess að rannsóknir hafa staðið á þeim í Eistlandi og þangað fengum við að fara í heilan mánuð í sumar. Þar máttum við velja hvaða sjúkdóm við vildum einblína á, og sjálfur valdi ég Parkinsons,“ upplýsir Valdimar.

Fyrir Parkinsons athugaði Valdimar hvort aukna fitusækni (e. lipophilcity) væri að finna í ákveðnum svæðum músarheilans.

„Ástæðan fyrir því var niðurstaða úr fjölþjóðlegri rannsókn sem sýndi aukningu á genatjáningu í svokölluðum fáhyrnum (e. oligodentrocytes) en það eru sérstakar frumur sem finnast í miðtaugakerfinu. Frumurnar eru þess valdandi að rafboð innan heilans berast hraðar. Hingað til hafa fáhyrnur verið hundsaðar í Parkinsons-sjúkdómi en með því að skoða aukna fitusækni í heila fæst vísbending um aukna virkni þeirra í heilanum. Þá gat ég borið saman Parkinsons-mýs við heilbrigðar mýs og séð muninn,“ útskýrir Valdimar.

Til að rannsaka Wolfram-heilkenni voru sneiðar af músaheilum skoðaðar, bæði frá heilbrigðum músum og músum sem tjáðu ekki Wolfram-prótínið.

„Síðan var notað forrit sem bjó til þrívíddarmyndir úr sneiðunum og þá var hægt að athuga breytingar í rúmmáli heilans, en tilgangurinn var að athuga hvort mýs sýni sömu heilabreytingar og menn, sem er mjög gagnlegt þegar kemur að því að rannsaka sjúkdóminn, sem er afar sjaldgæfur og því erfitt að rannsaka í mönnum,“ greinir Valdimar frá.

Eitt aðaleinkenni og helstu orsakavaldar Alzheimer eru amyloid- og tauprótín-útfellingar í heilanum.

„Þá var sérstöku efni, bisdemethoxycurcumin (BDMC), sprautað í mýsnar og var tilgangurinn að athuga hvort hægt væri að nota BDMC sem lyf við Alzheimers en vonin er að BDMC geti minnkað þessar útfellingar,“ segir Valdimar.

Spennandi að rannsaka betur

Ástæða þess að mýs eru gjarnan notaðar í rannsóknum segir Valdimar vera þá að framgangur ýmissa sjúkdóma í músum líkist því sem þekkist í mönnum.

„Erfðamengi músa er mjög líkt okkar og þess vegna má gjarnan yfirfæra niðurstöður músarannsókna á menn. Þetta getur auðvitað verið vandmeðfarið en engu að síður þjóna músarannsóknir sem góð byrjun áður en farið er að rannsaka menn. Ef ég tek Parkinsons-mýsnar sem dæmi eru einkenni þeirra mjög lík þeim sem sjást í okkur mannfólkinu. Það eru mörg einkenni sem geta fylgt Parkinsons, önnur en dæmigerð hreyfivandamál sem flestir tengja sjúkdóminn við. Mörg einkenni koma fram áður en hreyfitruflanir gera vart við sig, til dæmis hægðatregða, skyntruflanir og verkir. Öll þessi einkenni mátti sjá í músum sem voru ekki langt komnar í framgangi sjúkdómsins,“ greinir Valdimar frá.

Niðurstöður frá Parkinsons-músunum sýndu að aukin fitusækni var í heilum þeirra.

„Það gæti þýtt að virkni fáhyrnanna jókst í músum með Parkinsons. Næsta skref væri að lita fyrir fáhyrnurnar og sjá hvort aukning sé í fjölda þeirra. Hvað þetta þýðir fyrir framgang sjúkdómsins er aftur á móti ekki ljóst en það gæti verið spennandi að rannsaka það betur,“ segir Valdimar og heldur áfram:

„Niðurstöður Wolfram Syndrome sýndu minnkun á heilanum, eins og sést hefur í mönnum með sjúkdóminn, og er nú hægt að nota mýsnar til að rannsaka sjúkdóminn betur og vonandi í náinni framtíð til að lækna eða meðhöndla sjúkdóminn. Alzheimer-niðurstöðurnar voru ekki eins góðar þar sem magnið sem notað var af BDMC sýndi engin mælanleg áhrif, en svona geta vísindin víst verið.“

Vel hugsað um mýsnar

Læknanemarnir fjórir fóru út til að hjálpa til við rannsóknir sem staðið hafa yfir í nokkur ár.

„Ég hafði aldrei áttað mig almennilega á því hversu gríðarlegur tími fer í þessar rannsóknir og undirbúningsvinnuna fyrir þær. Okkur gafst tími til að sjá aðstöðuna fyrir mýsnar og hvernig þær eru meðhöndlaðar fyrir ýmis verkefni sem þær leysa. Það sem kom mér mest á óvart var öll vinnan í kringum mýsnar, en þess skal geta að það er mjög vel hugsað um þær enda gilda um það mjög strangar reglur,“ segir Valdimar sem er á öðru ári í læknisfræði.

„Ég hef alltaf haft áhuga á vísindum og sérstaklega læknavísindum. Ég ákvað að fara í læknisfræði þegar ég áttaði mig á að það væri gerlegt að starfa sem læknir, bæði í rannsóknum og klíník, en mér þykir mjög spennandi að geta gert bæði. Einnig hef ég heyrt að læknar í rannsóknum geti haft ákveðna sérstöðu fyrir þær sakir að hafa reynslu af báðum hliðum.“