„Það skiptast á skin og skúrir í svona klúbbastarfsemi eins og gengur en ávallt hefur verið góð stemning í kringum K-dagana. Hluti af afrakstri sölunnar á K-lyklinum hefur nokkrum sinnum komið til Akureyrar, til dæmis til Lautarinnar, Geðdeildar sjúkrahússins, þjálfunarstöðvar og endurbyggingar áfangaheimilis að Álfabyggð 4 á Akureyri og fleira sem mætti telja hér,“ segir Kristinn Örn Jónsson, einn félaganna og bætir við að Kaldbakur hafi ljáð Píeta samtökunum afnot af félagsheimili sínu til fundahalda þeirra.

„Við þekkjum vel til þeirra samtaka og munu þau njóta stuðnings hreyfingarinnar í ár til að byggja upp sína starfsemi á landsbyggðinni. Það verkefni sem er okkur kært og langstærst í sniðum er endurbygging Álfabyggðar 4 sem var áfangastaður þeirra sem voru að koma af geðdeild og voru að komast út á vinnumarkaðinn aftur. Það var það stórt verkefni að skipta þurfti því á tvo K-daga. Þetta er þriggja hæða hús og í fyrra skiptið voru tvær efri hæðirnar teknar í gegn og eftir síðari söfnunina var neðsta hæðin endurgerð og húsið málað að utan. Þetta verkefni var okkur Kaldbaksfélögum mikil hvatning til að vinna vel við sölu K-lykilsins og við fundum strax að viðtökur Norðlendinga voru mjög góðar þar sem stór hluti söfnunarinnar kom í heimabyggð,“ segir Kristinn Örn.

Öflugir sölumenn

„Okkur langar að segja frá stemningunni sem myndaðist á þessum tíma. Þetta byrjaði í bílskúr eins félagans þegar skipulagning hófst og lyklum sem voru barmmerki þá var skipt í poka. Á þessum tíma átti Kaldbakur ekki húsnæði en góður bílasali og velunnari klúbbsins rýmdi sýningarsalinn og lánaði okkur hann endurgjaldslaust til afnota frá fimmtudagskvöldi til sunnudags. Síðan hófst salan. Hver félagi fékk úthlutað hverfi til húsasölu sem fór fram á kvöldin en síðan stóðu Kaldbaksfélagar vaktina við stórmarkaði og aðrar vinsælar búðir. Allt gekk þetta vel fyrir sig og allir í góðu stuði og þegar komið var í hús á laugardagskvöldið sagði einn félaginn: „Strákar, við eigum eftir Svalbarðsströndina og Grenivík,““ segir Kristinn Örn og bætir við:

„Undirtektirnar voru á þann veg þótt flestir væru búnir að fá nóg og þetta var ekkert mál. Nokkrir félagar fóru um kvöldið á svæðið og seldu vel meðal annars vegna þess að fyrstavetrardagsball var á Grenivík og margir komnir í gírinn til að fara á ballið og tóku vel á móti okkur. Varla voru félagar búnir að nudda stírurnar úr augunum morguninn eftir þegar símhringing glumdi við og forseti klúbbsins tjáði mönnum að eftir væri að selja í sveitunum innan Akureyrar. Svarið hjá þeim sem leitað var til var eins og áður „ekkert mál“.

Á þessum árum voru greiðslukort lítið notuð og það var ekki leiðinlegt þegar við á mánudagsmorgni fórum í bankann með nokkra poka fulla af peningum. Þarna hafði þessi eini klúbbur selt K-lykilinn við allar stærstu verslanir á Akureyri, gengið í öll hús á staðnum og sveitirnar í kring. Það þarf líklega ekki að taka það fram að Kaldbaksmenn voru langsöluhæstir á landinu að þessu sinni. Þessi frásögn sýnir hve mikið er hægt að gera þegar kynning er góð fyrir gott málefni og stemning myndast í hópnum,“ segir Kristinn Örn.

Gáfu börnum hjálma

„Kiwanisklúbbar koma að ýmsum góðum málum en það sem við Kaldbaksmenn erum stoltastir af er að við vorum frumkvöðlar að því að sjö ára börn fengu gefins reiðhjólahjálma. Það var árið 1991 sem við gáfum öllum sjö ára börnum á Akureyri hjálma. Fyrstu árin keyrðum við hjálmana heim til barnanna en síðan þróaðist þetta í að haldinn er hjálmadagur við félagsheimili okkar og eru þá grillaðar pylsur og gert eitthvað skemmtilegt.

Þá erum við með happdrætti þar sem ein stúlka og einn drengur fá ný reiðhjól í vinning. Fljótlega spurðist þetta verkefni út og nágrannaklúbbar okkar tóku þetta upp og voru með í pöntun á hjálmum. Síðan bættust við klúbbar víða á landinu og þá fór af stað umræða hvort ekki ætti að gera þetta að landsverkefni Kiwanis. Ekki varð af því fyrr en árið 2004 að Kiwanis fékk Flytjanda-Eimskip í lið með sér og hafa þeir verið styrktaraðilar verkefnisins síðan. Gríðarlega gott verkefni.

Fundur á Kaldbaki

Þegar Kaldbakur varð 30 ára kom upp hugmynd um að halda fund á toppi fjallsins sem klúbburinn heitir eftir. Þetta var rætt fram og aftur og á endanum ákveðið að gera þetta laugardaginn fyrir páska. Sömuleiðis var ákveðið að ekki yrði farið nema veður og skyggni væri gott. Viðmiðið var að ef ekki sæist í toppinn á Kaldbaki klukkan 9 að morgni þá færum við ekki. Föstudaginn langa snjóaði stanslaust allan daginn þannig að útlitið var ekki gott. Á laugardagsmorgninum voru félagar snemma á fótum og mun bjartara var en daginn áður. Ekki sást í toppinn á Kaldbaki. En viti menn, rétt fyrir tilsettan tíma birti upp og Kaldbakur blasti við. Var nú þeyst út á Grenivík með marga vélsleða og lagt til atlögu við fjallið. Er skemmst frá því að segja að veðurblíðan var einstök allan daginn og var fundurinn haldinn undir berum himni og var þetta hin mesta ævintýraför. Alls voru 25 manns sem fóru í ferðina.

Það að vera í Kiwanis er ekki bara að safna peningum til góðra málefna. Félagsskapurinn heldur vel saman. Við í Kaldbak fundum reglulega og heimsækjum aðra klúbba á svæðinu. Við stöndum fyrir og sækjum viðburði af ýmsum toga með fjölskyldum okkar. Má þar nefna útivistarhelgi að vetri, förum í leikhús og höldum jólatrésfagnað fyrir börnin. Þá er stór fjölskylduhátíð árlega þar sem fjölskyldur allra Kiwanismanna á Norður- og Norðausturlandi hittast og eiga góða helgi saman.

Kaldbaksfélagar þakka öllum sem hafa lagt klúbbnum lið á liðnum árum, hvort sem það er við K-dagsverkefni eða annað. Við hvetjum alla landsmenn til að taka vel á móti K-lykils sölufólki okkar og styrkja þar með gott málefni.“