„Hvar er betra að vera um verslunarmannahelgi en á Unglingalandsmóti UMFÍ? Sennilega hvergi. Mótið er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem forvarnar- og fjölskylduhátíð. Það er einstök upplifun að taka á móti ungmennum sem koma á Unglingalandsmót UMFÍ. Þangað koma þátttakendur á mismunandi forsendum, sumir til að keppa en aðrir til að njóta þess að takast á í íþróttum. Þátttakendur koma til að hitta vini, eignast nýja vini, safna góðum minningum og síðast en ekki síst að verja helginni með fjölskyldunni,“ segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þar hefur UMFÍ lagt sitt á vogarskálarnar í áratugi og stendur vaktina enn. Forvarnir skipta máli og þar þurfum við öll að standa saman. Við þurfum ávallt að vera vakandi.

Ungt fólk í dag er frábært. Það er svo miklu meðvitaðra um mikilvægi lýðheilsu en þegar við hin vorum ung. Þau munu senn taka við keflinu og halda áfram að gera samfélagið enn betra.“