„Á kvenréttindadeginum er vert að staldra við og hugleiða hvar við konur stöndum í dag. Það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að konur hafi þurft að berjast fyrir því að hafa sömu réttindi og karlar. Í mínum huga eru allir jafnir og ekki á að mismuna fólki eftir kyni. Á sama tíma sem ég fagna þeim sjálfsögðu réttindum sem konur hafa í dag, fæ ég sting í hjartað við að hugsa til þess að svo er ekki um heim allan.“

Þetta segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Díana var skipuð í embætti þann 1. október 2019 og hefur því sinnt embættinu í rúm tvö og hálft ár.

„Starfið er í senn krefjandi og mjög gefandi. Áskoranir eru miklar og felast meðal annars í að halda rekstri stofnunarinnar innan fjárlaga,“ upplýsir Díana.

Brennur fyrir heilbrigðismálum

Díana fæddist á Selfossi en bjó til fimmtán ára aldurs í Svíþjóð. Síðan hefur hún bæði búið á höfuðborgarsvæðinu og Selfossi, þar sem hún býr í dag.

„Ég er svo lánsöm að eiga þrjú yndisleg börn sem ég er afar stolt af, og þess utan á ég frábæra fjölskyldu sem er mér afar dýrmæt. Fjölskyldan er stór og við erum dugleg að hittast og njóta lífsins saman,“ segir Díana, sem hefur mikinn áhuga á heilbrigðismálum.

„Ég brenn fyrir þeim málaflokki. Eftir stúdentspróf var ég staðráðin í að læra eitthvað sem tengdist heilbrigðisgeiranum og varð geislafræði fyrir valinu. Ég hef alltaf haft unun af því að takast á við skemmtilegar áskoranir og hélt áfram að mennta mig á hinum ýmsu sviðum, eins og í kennslufræðum, stjórnun og lýðheilsuvísindum. Allt frá því ég lauk námi hef ég verið heppin að fá tækifæri til að sinna störfum sem hafa í senn verið fjölbreytileg, áhugaverð, krefjandi og umfram allt skemmtilegt. Það er ómetanlegt að vinna í umhverfi sem veitir manni hvatningu og gleði.“

Hvatning til að halda áfram

Hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) starfa ríflega 500 konur, en það eru um 80 prósent af öllu starfsfólki stofnunarinnar. Margar konur sinna stjórnunarstörfum og í framkvæmdastjórn sitja þrjár konur og tveir karlar.

„Það er ánægjulegt að segja frá því að HSU hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar á síðasta ári. Til þess að hljóta hana þarf að vera jafnvægi á hlutfalli kynjanna í efsta lagi stjórnunar. Oft er talað um að blöndun kynja í stjórnum hafi jákvæðari áhrif á árangur fyrirtækja en einsleitar stjórnir. Það er mín skoðun að fjölbreyttur mannauður hafi góð áhrif á starfsemina, sem og starfsánægju og frammistöðu í starfi. Umbótastarf og nýsköpun verður líka öflugra í hópi fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn,“ greinir Díana frá.

Mikilvægt skref náðist í jafnréttismálum HSU þann 4. maí 2020, þegar stofnunin náði að uppfylla kröfur sem gerðar eru til jafnlaunavottunar.

„Að ná slíkum áfanga er okkur mikil hvatning að halda áfram á sömu braut. Þessi áfangi er mér sérstaklega hugleikinn og ekki spillti fyrir að jafnlaunavottunin barst okkur í hús á afmælisdaginn minn,“ segir Díana ánægð.

Hún kveðst þakklát fyrir traustið sem henni hefur verið sýnt til að sinna þeim umfangsmiklu og spennandi verkefnum sem embætti forstjóra fylgir.

„Í sjálfu sér tel ég ekki vera meiri áskorun að vera kona í þessu embætti, því mikilvægast er að sinna starfinu af virðingu og alúð. Ég fagna því hins vegar, og tel mikilvægt, að konur hafi jafnan aðgang að störfum sem þessum og þar á kyn ekki að breyta því hvernig valið er í starfið, heldur verðleiki einstaklingsins. HSU er víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins og ég er svo lánsöm að vinna með frábærum hópi starfsfólks sem vinnur heilshugar að því að veita sjúklingum og öðrum skjólstæðingum örugga og góða heilbrigðisþjónustu.“

Framtíðin er björt

Áskoranir í heilbrigðiskerfi landsins eru í dag fjölmargar.

„Við þurfum svo sannarlega að vera á varðbergi til að mæta þeim vanda sem meðal annars snýr að mönnun og framþróun í heilbrigðisþjónustu. Verkefnin sem bíða okkar innan HSU eru fjölmörg og tækifærin margvísleg, sem er mikilvægt að nýta starfseminni til framdráttar,“ segir Díana.

Hún horfir björtum augum til uppbyggingar og vaxtar innan stofnunarinnar, og hlakkar til að starfa með góðu og öflugu fólki sem hefur áhuga á að taka þátt í uppbyggingunni.

„Það eru spennandi tímar fram undan og konur eiga að sækja fram í atvinnulífinu og sækjast eftir stjórnunarstörfum, sem og öðrum spennandi verkefnum. Við konur verðum að trúa því og treysta að sérfræðiþekking okkar sé metin að verðleikum og að við fáum tækifæri til að vaxa og nýta okkur þá þekkingu og reynslu sem við búum að. Velgengni okkar sem þjóð hlýtur að byggjast á jöfnum tækifærum fyrir alla.“

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er við Árveg á Selfossi. Sjá hsu.is

Þetta viðtal birtist fyrst í sérblaðinu Kvenréttindadagurinn sem fylgdi Fréttablaðinu laugardaginn 18. júní 2022.