Gauta Eiríksson þekkja líklega flestir sem manninn á bak við YouTube-rásina sem heitir eftir honum, þar sem hann birtir stórskemmtileg og fræðandi kennslu- og orðskýringamyndbönd í náttúrufræði og stærðfræði, kennslumyndbönd í ljósmyndun, myndbönd frá mismunandi stöðum á Íslandi og ýmislegt fleira. Í ár er hann höfundur glæsilegrar spurningabókar um fótbolta sem kemur út á vegum forlagsins Óðinsauga.

„Þetta er ekki fyrsta spurningabókin sem ég gef út og alls ekki fyrstu spurningarnar sem ég hef samið,“ segir Gauti, sem starfar sem kennari í Álftanesskóla. „Ég hef samið spurningar mjög lengi og haldið spurningakeppni fyrir nemendur í Álftanesskóla í hátt í 13 ár.“ Þess má geta að þó nokkrir einstaklingar sem hafa tekið þátt í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, eiga margt að þakka Gauta. „Árið sem MH sigraði í keppninni komu til dæmis tveir af þremur keppendum sigurliðsins frá mér.“

Ekki fyrsta spurningabókin

Gauti er gífurlegur áhugamaður um fótbolta og fylgist sérstaklega með enska boltanum „Mitt lið er Liverpool og hefur verið í hátt í 40 ár allt frá því Kenny Dalglish, Ian Ross og Bruce Grobbelaar voru og hétu. Annars fylgist ég líka með því sem gerist í fleiri deildum og meistaradeildinni, þó svo ég horfi nú kannski ekki á hvern einasta leik.“

Fyrsta spurningabók Gauta kom út árið 2018 á vegum Óðinsauga. „Sú spurningabók var um fótbolta og samdi ég hana með öðrum höfundi sem hafði áður gefið út svipaðar bækur á vegum forlagsins. Sama ár gaf ég út Stóru spurningabókina hjá Óðinsauga, sem kom út í stóru og veglegu broti. Bókin var tvö ár í vinnslu með 3.000 spurningum um allt og ekkert og líka fótbolta. Næsta bók sem ég gaf út var um enska boltann þar sem ég gerði upp nýyfirstaðið tímabil.“

Hvað veist þú?

Hvað veistu um fótbolta? kom út í byrjun nóvember og er frábrugðin Enska boltanum að því leyti að hún fjallar vissulega um fótbolta, en á almennari hátt. „Spurningarnar eru ekki háðar útgáfutíma og skiptast í auðveldar, miðlungs og erfiðar spurningar. Þá eru sérkaflar innan bókarinnar þar sem eingöngu er spurt um nýafstaðin tímabil enska boltans og Evrópuboltans.“

Bókin er veglega myndskreytt sem að sögn Gauta er sjaldgæft þegar kemur að spurningabókum. „Það eru bæði fallegar ljósmyndir í bókinni og einnig myndaspurningar. Þetta er tilvalin jóla- eða tækifærisgjöf fyrir hvern þann sem hefur áhuga á fótbolta. Það má eyða löngum stundum einn með sjálfum sér að prófa eigin þekkingu. En það er líka stórskemmtilegt að koma nokkur saman og skiptast á að spreyta sig á spurningunum í bókinni.“

  1. Í hvaða landi fer úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu karla fram árið 2022?
  2. Hvaða lið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu ber viðurnefnið Toon Army?
  3. Hvaða lið varð enskur meistari í knattspyrnu karla leiktíðina 2019 til 2020?

Bókin er stórskemmtileg og tilvalin fyrir áhugamenn um fótbolta á öllum aldri. Mynd/aðsend

Ekki sú síðasta

Gauti segist halda úti spurningabanka með tugþúsundum spurninga. „Þetta eru um 900 blaðsíður í Word. Það þarf klárlega að setja sig í ákveðinn gír þegar kemur að því að semja spurningar og að baki liggur gífurleg heimildavinna. Ég bý því að gjöfulum banka þegar ég þarf á að halda. Svo þegar kemur að útgáfu þarf ávallt að sannreyna það að svarið í bókinni sé það eina rétta. Það kemur líka á daginn að það reynist oft langerfiðast að semja auðveldu spurningarnar.“

Gauti er hvergi nærri hættur og vonast til þess að gefa út enn fleiri spurningabækur. „Ég held að sjálfsögðu áfram að punkta niður fleiri spurningar til þess að viðhalda spurningabankanum mínum þegar ég þarf að grípa í hann.“

Svör: 1. Í Katar, 2. Newcastle, 3. Liverpool.