Reykjavík Algorithmics er íslenskt útibú alþjóðlegs skóla sem býður upp á námskeið í tölvulæsi og forritun fyrir börn og unglinga á aldrinum 5-17 ára. Skólinn er með yfir 200 starfsstöðvar í yfir 25 löndum um allan heim og yfir 150 þúsund nemendur hafa sótt námið.

„Við vorum að hefja starfsemi í haust og erum byrjuð að bjóða þessa menntun á Íslandi,“ segir Birgit Eriksen framkvæmdastjóri. „Við bjóðum bæði upp á staðkennslu á höfuðborgarsvæðinu og fjarkennslu um allt land, en mesta áherslan er þar núna vegna ástandsins í samfélaginu.

Við bjóðum upp á ólík námskeið sem henta ólíkum aldurshópum,“ segir Birgit. „Þetta er mjög einstaklingsmiðað nám, en það eru að hámarki sex nemendur í hóp í fjarkennslu svo að leiðbeinendur geti sinnt hverjum og einum á þeirra forsendum og hraða. Í staðkennslu eru svo hóparnir aðeins stærri og þar eru tíu til tólf nemendur. Hóparnir í staðkennslu eru svo litlir að það er auðvelt að fylgja sóttvarnareglum.

Leiðbeinendurnir okkar eru með bakgrunn í tölvunarfræði, hugbúnaðarverkfræði og fá að auki sérstaka þjálfun í kennslu til að standast gæðakröfur alþjóðlega skólans. Það er ánægjulegt að segja frá því að allir þrír leiðbeinendurnir okkar fóru í gegnum þjálfunina með glans,“ segir Birgit. „Námsefnið okkar er mjög gagnreynt, þar sem það hefur verið kennt í svo mörgum löndum og svo margir nemendur hafa farið í gegnum námskeiðin. Fyrir vikið eru gæðin mjög mikil.

Til að taka þátt í fjarnámi þurfa nemendur svo bara tölvu og nettengingu og að tengjast kennslugrunni þar sem kennslan fer fram og námsefnið er alltaf aðgengilegt,“ segir Birgit. „Það má vera með heyrnartól, en það er ekki nauðsynlegt.“

Fjölbreytt námskeið í boði

„Námskeiðin okkar eru ólík. Nemendur á aldrinum 7-9 ára geta skráð sig í námskeiðið Tölvulæsi og stafrænn leikur,“ segir Birgit. „Þar læra börnin að greina upplýsingar, nota tölvu sér til gagns, leita að upplýsingum á netinu á réttan og öruggan hátt, vinna með öðrum og eiga samskipti, bæði á internetinu og í eigin persónu.

Fyrir börn á aldrinum 8-12 ára bjóðum við upp á námskeið sem heitir Mars Academy. Þar eru krakkarnir að búa til eigin teiknimyndir og tölvuleiki og þroska hjá sér rökhugsun, beita henni og rýna til gagns, sem er færni sem ég vil meina að hjálpi við alla skólagöngu,“ segir Birgit. „Þetta tengist líka nýsköpun og frumkvöðlahugsun mjög mikið og eflir sköpunarhæfni. Börnin hanna eigin reiknirit og búa sér til eigin verkefni og þannig læra þau grundvallaratriðin í forritun.

Leiðbeinendur Reykjavík Algorithmics hafa allir bakgrunn í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði og hafa auk þess fengið sérstaka þjálfun í kennslu til að standast gæðakröfur alþjóðlega skólans. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Svo erum við með tvö frábær námskeið í Python-forritunarmálinu. Python-byrjendanámskeið fyrir 12-13 ára og framhaldsnámskeið fyrir 14-17 ára,“ segir Birgit. „Þetta er mjög vinsælt forritunarmál og til dæmis er Eve Online forritaður í Python. Í þessum námskeiðin læra þau hvernig reiknirit eru byggð upp, þau hanna tölvuleiki, forrita gagnvirkt efni að eigin vali og læra að vinna með forritasöfn, greiningartól og fleira.

Kennsla fer fram í 90 mínútur í senn einu sinni í viku, nema fyrir 5-7 ára, en þá er kennt í 45 mínútur í senn, og það eru teknar reglulegar pásur. Námskeiðin eru 16 vikur hvert,“ segir Birgit. „Það fer bara eftir því hve mikil aðsókn er hvenær ný námskeið hefjast, þau fara af stað þegar hópar fyllast.“

Nauðsynlegur grunnur í dag

„Sjálf er ég viðskiptafræðingur og það má segja að það sé hugsjón að baki því að bjóða þetta nám. Þetta er færni og þekking sem er öllum nauðsynleg í náinni framtíð, ef ekki nú þegar,“ segir Birgit. „Það er alveg nauðsynlegt fyrir komandi kynslóðir að búa yfir færni á þessu sviði. Maður sér hvað atvinnumarkaðurinn kallar mikið eftir fólki með þessa þekkingu.

Það er samt alls ekki þannig að það sé eingöngu verið að búa krakka undir upplýsingatækniheiminn. Þetta er mjög sjónrænt nám sem þroskar hugmyndaflugið og snýst um þjálfun í að hugsa rökrétt, setja sér markmið og vinna að þeim, rækta frumkvöðla- og nýsköpunareðlið og sýna frumkvæði. Þessi færni getur nýst í hverju sem fólk tekur sér fyrir hendur,“ segir Birgit. „Ég hef líka fundið það í mínu starfi undanfarin ár hvað það er mikil þörf fyrir forritunarþekkingu og hvað það getur einfaldað manni lífið að kunna skil á henni. Forritun og tölvulæsi snertir rosalega margar starfsgreinar.“

Fleiri námskeið á döfinni og kynningarverð í boði

„Í byrjun næsta árs byrja svo tvö ný námskeið, annars vegar í heimasíðugerð og hins vegar í leikjahönnun,“ segir Birgit. „Við ætlum líka að bjóða upp á námskeiðið „The Coding Knight“ fyrir börn á aldrinum 5-7 ára eftir áramót. Þar eru notaðar spjaldtölvur og nálgunin er svolítið öðruvísi þar sem börnin eru svo ung. Hóparnir verða líka enn minni. Þar kynnast þau ævintýraheimi, bjarga prinsessum og leikur helst í hendur við forritunina.

Öll námskeiðin verða í boði í bæði fjar- og staðkennslu, en við mælum með staðkennslu fyrir „The Coding Knight“,“ segir Birgit.

„Við ætlum að bjóða upp á kynningarverð á námskeiðunum okkar. Það eru náttúrulega fáir nemendur á hvern leiðbeinanda, sem eykur kostnað, en á móti kemur að þetta er einstaklingsmiðað og námsefnið alltaf aðgengilegt,“ segir Birgit. „Þannig að fólk fær mikið fyrir peninginn og frístundastyrkurinn getur líka nýst á móti kostnaðinum. Boðið er upp á frían kynningartíma fyrir börn með foreldrum svo þeir geti tekið ákvörðun um þátttöku í framhaldi.“


Nánari upplýsingar á heimasíðu Reykjavík Algorithmics: https://reykjavik.alg.academy/icelandic