Foreldrahús er lágþröskulda þjónustumiðstöð fyrir fjölskyldur í vanda og stuðningur við foreldra barna sem eru í vímuefnavanda og áhættuhegðun,“ segir Berglind Gunnarsdóttir Strandberg, framkvæmdastjóri Fjölskylduhúss.

„Það sem gerir okkur sérstök er að Foreldrahús er það eina sem hefur sinnt þessu hlutverki frá upphafi samtakanna og við erum trú þeim grunni sem samtökin standa á: að styðja við foreldra með börn í vímuefnavanda. Við störfum eftir þeirri hugmyndafræði að foreldrar séu mikilvægur hlekkur í forvörnum og reynast vera þeir sem hafa mest áhrif á velferð barna sinna, einkum þegar reynir á. Foreldrar eru yfirleitt bestu fyrirmyndir barna sinna og þurfa á mestri fræðslu og styrkingu að halda þegar kemur að áfengi og vímuefnavörnum,“ útskýrir hún.

Berglind segir vímuefnavandann því miður ekki að hverfa; nóg sé af vímuefnum í samfélaginu og unga fólkið ánetjist þeim.

„Hátt í 400 fjölskyldur nýttu sér þjónustu Foreldrahúss í fyrra þar sem við veittum viðtöl og námskeið fyrir foreldra sem eiga unglinga í fikti eða neyslu. Við erum með námskeið í sjálfstyrkingu fyrir foreldra sem vilja valdefla sig og verða öruggari í hlutverki sínu, sem og fræðslufundi fyrir foreldra í grunn- og framhaldsskólum,“ upplýsir Berglind.

Í Foreldrahúsi starfa vímuefnaráðgjafar, fjölskylduráðgjafar, listmeðferðarfræðingur og sálfræðingur.

„Foreldrasíminn 581 1799 hefur verið opinn frá árinu 1986 og þar veitir fagaðili ráðgjöf og stuðning allan sólarhringinn. Í Foreldraskóla Foreldrahúss leggjum við áherslu á að foreldrar fái tækifæri til að tjá sig og hlusta á aðra foreldra, styðjum foreldra í að bæta samskipti við unglinginn, skilja vanda hans og efla vitund þeirra og færni til að skapa og viðhalda heilbrigðum og nánum tengslum við börn sín. Oft er álagið orðið það mikið að foreldrar missa tökin og þurfa einnig stuðning til að sinna öðrum börnum á heimilinu sem og sjálfum sér. Við leitumst við að mæta þeim vanda sem fjölskyldan glímir við og efla hana til betri lífsgæða,“ upplýsir Berglind.

„Þegar kemur að úrræðum í Foreldrahúsi er af nógu að taka, eins og sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga til að hlúa að og byggja upp sjálfstraust þeirra, félagsfærni, samskiptahæfni, tilfinningaþroska og sjálfsþekkingu, og svo sálfræðiráðgjöf fyrir unglinga í vanda; með kvíða, vanlíðan, depurð, samskiptavanda, hegðunarvanda og áhættuhegðun,“ útskýrir Berglind.

„Eftirspurn eftir þjónustu Foreldrahúss vex ár frá ári og nú erum við í brýnni þörf fyrir stærra húsnæði undir starfsemina til að geta mætt þeirri eftirspurn. Í starfsemi Foreldrahúss er svo stöðug þróun í starfseminni, allt eftir ákalli samfélagsins á hverjum tíma,“ segir Berglind.

Hægt er að gerast Verndarengill Foreldrahúss. Sjá nánar hér.

Foreldrahús er á Suðurlandsbraut 50. Sími 511 6160. Sjá nánar á foreldrahus.is