„Það sem heillar mig mest við snyrtivörubransann er hversu gefandi hann er. Það er gaman að hjálpa fólki við að líða vel með sjálft sig. Snyrtivörur snúast nefnilega ekki bara um að fela galla eða breyta ásýnd fólks, heldur að draga fram það sem fallegast er, finna leynivopnið sem fær fólk til að geisla af sjálfstrausti og leggja áherslu á það sem gerir hverja manneskju einstaka.“

Þetta segir Íris Björk Reynisdóttir, eigandi nýju snyrtivöruverslunarinnar Beautybox í Síðumúla 22.

Íris starfaði sem ljósmyndari í Lundúnum þegar hún komst á snoðir um mánaðarleg box sem nutu mikilla vinsælda þar í landi og innihéldu sitthvað óvænt og ómótstæðilegt af öllu tagi, allt frá sokkum og matvöru til snyrtivara.

„Mig hafði um tíma langað til að gera eitthvað skemmtilegt með foreldrum mínum, Valgerði Ólafsdóttur og Reyni Jóhannssyni, svo við tókum okkur til og ræddum þessa hugmynd við íslenska snyrtivöruheildsala sem hvöttu okkur frekar til að opna góða snyrtivöruverslun á netinu. Við slógum því til og opnuðum vefverslunina Beautybox.is í ágúst 2017. Við opnuðum svo fyrstu snyrtivöruverslunina okkar á Langholtsvegi í febrúar 2020, tæpum mánuði fyrir Covid. Á meðan Covid gekk yfir skiptumst við á að opna og loka eftir ástandi, en það gerði okkur ekkert slæmt því í samkomubanninu kunnu viðskiptavinir vel að meta að geta keypt snyrtivörur á netinu og Beautybox.is óx og blómstraði.“

Beautybox er glæsileg snyrtivöruverslun sem minnir á það besta sem þekkist í útlöndum.MYNDIR/AÐSENDAR

Einstök upplifun í Beautybox

Þökk sé miklum vinsældum netverslunar Beautybox varð verslunin á Langholtsvegi fljótt of lítil.

„Við leituðum lengi að draumahúsnæðinu sem við fundum í Síðumúla 22 og gátum því loksins skapað verslunina sem okkur dreymdi um,“ segir Íris.

„Í nýju verslun Beautybox viljum við skapa einstaka upplifun. Við fórum gagngert utan til að skoða upplifunarþáttinn í snyrtivöruverslunum frægra vöruhúsa og flottra snyrtivörubúða á minni skalanum. Við vildum ekki bara opna hefðbundna snyrtivöruverslun heldur snyrtivöruheim þar sem viðskiptavinir geta komið til að skoða og versla sér snyrtivörur, en líka notið þjónustu eins og förðunar á staðnum, hvers kyns ráðgjafar og kennslu í húðumhirðu og förðun,“ greinir Íris frá.

„Áður en ég lærði ljósmyndun lærði ég förðun því ég vildi safna mér myndum í möppu. Þótt snyrtivörubransinn hafi ekki verið upphaflega planið er ég himinlifandi að hafa endað í honum. Okkur langar að breyta leiknum og koma með spennandi nýjungar, búa til nýjar upplifanir. Við einbeitum okkur að því, enda er óneitanlega skemmtilegt að koma við í fallegri snyrtivöruverslun.“

Beautybox er ekki bara snyrtivöruverslun heldur staður upplifana, ráðgjafar, förðunar og kennslu, svo fátt sé nefnt.

Freistandi opnunartilboð

Beautybox í Síðumúla var opnað með látum þriðjudaginn 7. júní.

„Viðtökurnar hafa verið stórkostlegar og á opnunardaginn var röð út á götu. Við vorum með kaupauka fyrir fyrstu 50 viðskiptavinina sem kláruðust á 50 mínútum. Við erum líka með alls kyns opnunartilboð, til dæmis 20 prósenta afslátt á öllu út 12. júní, bæði í verslun og netverslun, því við erum ekki heldur búin að gleyma landsbyggðinni. Við verðum þess áskynja að eftir heimsfaraldurinn vill fólk koma í snyrtivöruverslunina til að prófa, snerta, upplifa, og finna lykt. Verslunarhættir eru að færast í sitt gamla horf á ný, og er gaman að geta boðið upp á bæði alvöru snyrtivöruverslun og öfluga netverslun sem líka nýtur mikilla vinsælda,“ segir Íris.

Hún segir algengt að húð fólks breytist á tíu ára fresti og þá virki ekki alltaf húð- og snyrtivörur sem áður voru í eftirlæti.

„Þá er gott að koma til okkar og fá aðstoð við að finna réttar húðvörur fyrir mismunandi húðgerðir og jafnvel læra að mála sig öðruvísi en var. Því gleðjast margir að geta komið í verslun eins og Beautybox til að fá ráðgjöf og þjónustu sem þeir geta treyst á.“

Í Beautybox fást öll helstu snyrtivörumerki heims, sem og frábær merki sem Beautybox flytur sjálft inn og hafa slegið í gegn.

„Við reynum að velja vel inn og þau merki sem við höfum veðjað á, eins og Dr. Dennis Gross og Face Halo, hafa hitt í mark, enda afbragðs húð- og snyrtivörur,“ upplýsir Íris.

Öll helstu snyrtivörumerki heims fást í Beautybox og meira til.

Ekki of bleik eða stelpuleg

Íris segir aðgengi að snyrtivörum nú mun meira en áður þekktist.

„Þegar ég var ung setti ég á mig maskarann sem mamma rétti mér og lét þar við sitja, og þegar ég lærði förðun fyrir tólf árum síðan var lítið um kennslumyndbönd á YouTube, og TikTok ekki til. Nú eru ungar stelpur orðnar ótrúlega færar í að mála sig því upplýsingarnar eru alls staðar og þær kunna öll nýjustu trixin. Samfélagsmiðlar eru góðir í að koma því nýjasta á framfæri og líka til fullt af skemmtilegu efni á Instagram sem kennir konum að hugsa vel um húð sína og mála sig.“

Að sjálfsögðu er hugsað fyrir öllu fyrir öll kyn í Beautybox.

„Ég heyri frá herrunum að þeim þykir gaman að koma í búðina því hún er ekki of bleik eða stelpuleg, heldur fyrst og fremst kúl. Svo mega karlar nota sömu vörur og konur, ekki síst húðvörur, og ef þeir vilja mála sig. Æ fleiri karlar eiga rakakrem í lit eða bronsing gel sem gefur húðinni ljóma, sem og hyljara yfir bólur,“ segir Íris.

Hún hlakkar til að taka á móti viðskiptavinum í nýju Beautybox-versluninni í Síðumúla.

„Þetta er draumur að rætast og yndisleg tilfinning að koma í búðina. Hér finnur fólk af öllum kynjum og á öllum aldri snyrti- og húðvörur við hæfi og getur notið þess að bera á sig góð krem og upplifa vellíðan. Þetta á að vera gaman.“

Beautybox er í Síðumúla 22. Opið virka daga frá klukkan 11 til 18 og á laugardögum frá klukkan 11 til 16. Skoðið líka úrvalið í vefversluninni beautybox.is. Þar má lesa nánar um kaupauka á yfir 30 merkjum í tilefni opnunar Beautybox.

Guðrún Þóra Sigurðardóttir fagnar tilkomu nýju verslunar Beautybox í Síðumúla þar sem ríkir stemning, dekur og upplifun.

Heilluð af Beautybox

Guðrún Þóra Sigurðardóttir, sem af mörgum er kölluð Gunna ameríska, þekkir snyrtivörubransann betur en flestir.

„Ég er fædd inn í snyrtivörugeirann. Mamma átti Snyrtivörubúðina á Laugavegi 76 og þar var ég lögð nýfædd ofan í vöggu og svaf á bak við. Því má segja að ég sé með snyrtivörur í blóðinu,“ segir Gunna og hlær dátt.

Seinna fór hún til Bandaríkjanna þar sem hún lærði viðskiptafræði og réði sig til vinnu hjá snyrtivörurisanum Esteé Lauder.

„Ég hélt ástfóstri við snyrtivörubransann en þegar ég flutti aftur heim til Íslands voru hættar litlu snyrtivörubúðirnar sem var svo gaman að fara inn í á Laugavegi og í Bankastræti. Í staðinn voru komnar stórar snyrtivörudeildir, sem getur vitaskuld verið þægilegar heim að sækja, en breytti ásýnd snyrtivörubúða. Því fylgir ekki sama upplifun og að fara inn í sérverslun með snyrtivörur þar sem nándin er meiri, því þegar konur fara í stórmarkaði eru þær oftast að kaupa í matinn í leiðinni, gjarnan með karlinn með sér og að flýta sér. Í snyrtivöruverslunum er enginn að flýta sér og hægt að velja sér snyrtivörur í ró og næði.“

Nostrað við kúnnann í Beautybox

Gunna er heilluð af nýrri snyrtivöruverslun Beautybox.

„Ég er heilluð af búðinni, starfsfólkinu og vörunum. Ég er víðförul og hef skoðað margar snyrtivöruverslanir um ævina, jafnt litlar sem stórar í stórum borgum. Beautybox minnir mig á þessa útlensku upplifun, svipað og í Sephora sem margir þekkja frá Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta er flottur heimur að koma inn í, persónuleg nánd og einstök upplifun. Það er ómetanlegt að geta farið inn í snyrtivöruverslun þar sem þekking er fyrir hendi og sem betur er þetta allt að koma aftur,“ segir Gunna.

Hún segir víst er margir taki Beautybox fagnandi.

„Konur vilja geta farið í snyrtivöruverslun þar sem þær þekkja starfsfólkið og fá persónulega þjónustu þegar þær kaupa sér krem og þær vilja vita hvað þær eru að kaupa. Beautybox er snyrtivörubúð eins og þær voru í gamla daga, þar er nostrað við kúnnann og þar ríkir stemning, dekur og upplifelsi,“ segir Gunna sem starfar hjá snyrtivöruheildsölunni Artica og fer á milli búða með heimsfræg vörumerki, eins og Estée Lauder, Clinique, La Mere og Bobby Brown.

„Ég verð reglulega í Beautybox þar sem ég útdeili þekkingu minni og reynslu. Ég lifi og hrærist í bransanum og er sérlega ánægð með þessa æðislegu snyrtivörubúð.“