Veganbúðin er fyrst og fremst netverslun með veganvörur af ýmsu tagi. Það er meðal annars hægt að fá matvörur, snyrtivörur, fatnað og heimilisvörur. „Við erum með opið hús alla laugardaga milli 12 og 16 í Strandgötu 32 í Hafnarfirði en svo er búðin opin allan sólarhringinn á netinu,“ segir Sæunn.

Vefsíðan veganbudin.is fór í loftið 1. nóvember 2018, en 1. nóvember er alþjóðlegi vegandagurinn. Í upphafi var einungis boðið upp á fáar vörutegundir en að sögn Sæunnar var búðinni mjög vel tekið frá upphafi og nú eru um það bil 500 vörutegundir fáanlegar í versluninni, bæði matur og sérvara.

„Við byrjuðum að taka inn kælivörur í kringum páskana og þær hafa verið mjög vinsælar hjá okkur. Við höfum verið með alls konar kryddað tófú og tófúvörur. Við erum líka með mikið úrval af ostum, gourmet ostum sem fólk er alveg brjálað í. Þetta er alveg einstakt á Íslandi, það hefur engin önnur búð hér á landi boðið upp á svona vörur áður,“ segir Sæunn.

Ostarnir í Veganbúðinni eru vinsælir bæði hjá veganfólki og alætum.
Veganbúðin er fyrst og fremst netverslun en á laugardögum er opið hús í búðinni á Strandgötu í Hafnarfirði.

Lúxus-ostarnir eru búnir til úr kasjúhnetum og góðgerlar eru notaðir til að sýra þá og gera þá eldri. Sæunn segir marga kaupa þessa osta og gefa alætum og ostaaðdáendum að smakka til að sýna þeim að veganvörur geti verið góðar. „Ég hef aldrei heyrt annað en að fólk sé ótrúlega ánægt með þessa osta, enda eru þeir rosalega góðir og við höfum ekki undan að panta,“ segir Sæunn.

Oatly Barista er ein vinsælasta veganmjólkin í heiminum að sögn Sæunnar, en hana er einmitt að finna í Veganbúðinni. „Það hefur verið mikill skortur á þessari mjólk og framleiðandinn hefur ekki undan að framleiða hana, en við höfum verið heppin að geta keypt hana af heildsala á Englandi og höfum verið með einna stöðugasta framboðið af henni af öllum verslunum á Íslandi.“

Um það bil 500 vörutegundir eru fáanlegar í Veganbúðinni, allt frá mat, fötum og snyrtivörum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Hægt að sækja á Jömm

Veganbúðin er í eigu Veganmatar ehf. sem er í grunninn heildsala. Þegar búðin var opnuð fyrir einu ári hafði fyrirtækið flutt inn Oumph! í nokkur ár og fleiri veganvörur sem eigendunum þótti vanta á markaðinn í heild sinni. „Okkur fannst vanta líka vettvang fyrir sérhæfðari veganvörur. Það er ýmislegt til hjá okkur sem á ekki enn þá erindi í stóru verslanakeðjurnar, eins og til dæmis hveitiglúten sem fólk notar til þess að búa til seitan sem mörgum finnst góður staðgengill kjöts. Við bjóðum upp á ýmsar fleiri sérhæfðar veganvörur, það er gaman að geta boðið upp á þær til að hægt sé að nálgast fjölbreyttara úrval á Íslandi til viðbótar við það sem fæst í stóru keðjunum.

Fyrirtækið rekur líka skyndibitastaðinn Jömm í Kringlunni sem framleiðir einnig matvöru fyrir verslanir. Þegar fólk verslar á vefsíðu Veganbúðarinnar getur það valið að sækja vörurnar í Jömm í Kringlunni. „Fólk hefur verið mjög ánægt með þann valkost. Það getur sótt vörurnar daginn eftir að þær eru pantaðar og sótt sér mat á Jömm í leiðinni,“ segir Sæunn en bætir við að einnig sé hægt að fá vörurnar heimsendar með pósti eða keyrðar heim að dyrum.

Sæunn segist hafa fundið það bæði í gegnum Jömm og Veganbúðina að ásókn í veganvörur hefur margfaldast. „Fólk er bara að hópast yfir í þennan lífsstíl.“

Fólk kemur langt að til að kaupa nammi á laugardögum í Veganbúðinni.

Vegannammið vinsælt

Í Veganbúðinni er gott úrval af vítamínum og steinefnum. „B12 er mjög vinsælt en veganfólk þarf að passa vel upp á að fá nóg af því. Við erum líka með margar tegundir af vegan D-vítamíni sem er oft erfitt að finna annars staðar og vegan ómega-3 sem er sennilega vinsælasta bætiefnið hjá okkur,“ segir Sæunn. „Svo erum við líka með vegannammi, fólk fer langar leiðir til að ná sér í það hjá okkur á laugardögum.“

Sæunn segir að eftir opnun Veganbúðarinnar hafi þau náð að mynda góð tengsl við viðskiptavinina og vegangrasrótina á Íslandi. Þau hafa fengið góðar ábendingar frá þeim um það sem vantar á markaðinn og þannig hafa þau getað bætt við úrvalið. Meðal þess sem fæst í búðinni eru bambusundirföt, -leggings og -bolir. „Það getur verið erfitt að finna föt úr öðru en ull til að nota sem innsta lag, en þá er bambusinn góður. Það getur verið erfitt að finna hann á Íslandi án þess að hann sé ullarblandaður en fólk getur treyst því að allt sem við bjóðum upp á er 100% vegan. Fólk kann að meta það að geta komið hingað og verslað áhyggjulaust án þess að þurfa að lesa allar innihaldslýsingarnar.“

Förðunarvörur innihalda oft dýraafurðir og hreinlætisvörur líka, sérstaklega sápur. Sæunn er því ánægð með að geta boðið upp á vegan valkosti í þessum vöruflokkum. „Við seljum líka ýmislegt sem kemur fólki á óvart að sé yfirleitt ekki vegan, eins og smokka. Venjulegir smokkar eru yfirleitt meðhöndlaðir með einhvers konar mjólkurafurð sem mýkir latexið, en við seljum vegansmokka sem eru mýktir með jurtum. Þeir eru mjög vinsælir,“ segir Sæunn.