Lögreglan hefur fyrst og fremst afskipti af fólki í umferð vegna þess að það hefur brotið umferðarreglur, nú eða að lögregla sé að leiðbeina vegfarendum hvort sem þeir eru á ökutækjum eða nota annan samgöngumáta,“ segir Árni um það hvernig eftirliti lögreglu með ökumönnum er háttað. „Það er orðinn mun stærri þáttur seinustu árin að lögreglan sé í leiðbeiningarhlutverki, bæði hefur orðið gríðarleg fjölgun á ferðamönnum sem eru þátttakendur í umferðinni og þá hefur einnig viðburðum sem kalla á víðtækar lokanir á gatnakerfinu fjölgað mikið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur lögregla leiðbeiningarhlutverki að gegna.“

Hann segir orsakir umferðarslysa geta verið margvíslegar. „Því miður sjáum við alltof mikið af umferðarslysum sem tengjast áfengis- eða vímuefnaneyslu. Einnig er of hraður akstur stór þáttur í alvarlegum umferðarslysum,“ segir Árni og nefnir að auki snjalltækjanotkun undir stýri. „Það er því miður alltof algengt að við sjáum ökumenn vera í símanum í akstri án handfrjáls búnaðar. Hækkun sekta hefur þó haft fælingarmátt. Það hefur einnig verið nokkuð um að ökumenn hafa verið að lenda í minniháttar óhöppum þar sem eignatjón á bílum er samt nokkuð vegna þess að ökumenn hafa einfaldlega verið að skoða og nota samfélagsmiðla á meðan þeir eru að keyra.“

Tölur frá Vegagerðinni segja að umferð á landinu hafi aukist um allt að 50 prósent frá árinu 2013. „Það gefur augaleið að umferð hefur þyngst og svo má líka benda á að hjólreiðar hafa orðið æ vinsælli hjá Íslendingum síðustu árin, og þrátt fyrir heilmikla uppbyggingu hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu er sú tegund af samgöngutækjum einnig að nota sama vegakerfi og bílar og getur þetta samspil mismunandi ferðamáta orsakað núning. Það er þó til bóta að ný umferðarlög taka heilmikið á samskiptum ökumanna og hjólreiðafólks.“

Árni segir að Íslendingar séu þó vel flestir á góðri leið í umferðinni. „Ungir ökumenn eru í dag miklu betur undirbúnir fyrir þátttöku í umferðinni með tilkomu æfingaaksturs og Ökuskóla 3 sem dæmi. Við sjáum oft mikla tillitssemi hjá ökumönnum, sérstaklega á álagstímum. Þannig hefur til dæmis „tannhjólaaðferðin“ náð fótfestu hér og er mikið notuð, sem er ánægjulegt að sjá. Heilt yfir eru íslenskir ökumenn tillitssamir og löghlýðnir. Þó eru alltaf svartir sauðir inni á milli og er það verkefni þeirra sem vinna að umferðaröryggismálum að fækka þeim. Þar hefur lögreglan stóru og mikilvægu hlutverki að gegna,“ segir Árni að lokum.