Rangárþing eystra býður upp á margar af helstu náttúruperlum Íslands, auk þess sem jarðvangurinn Katla er hluti þess. Sveitarfélagið samanstendur af Hvolsvelli, Fljótshlíð, Landeyjum og Eyjafjöllum og er lega þess þannig að á stuttum tíma er hægt að komast yfir stórt svæði frá fjöru til fjalls, að sögn Ísólfs Gylfa Pálmasonar, fyrrverandi alþingismanns og sveitarstjóra og núverandi skógarbónda og áhugamanns um hjólreiðar.

„Það er einungis um klukkustundarakstur frá Reykjavík á Hvolsvöll, sem stundum hefur verið nefndur lykillinn að Suðurlandi, þar sem þetta er í raun síðasti áfangastaðurinn áður en haldið er til fjalla, svo sem í Emstrur, Þórsmörk og fleiri staða. Þess vegna er upplagt að koma í styttri eða lengri ferðir í Rangárþing.“

Einnig er hentugt fyrir þá sem vilja fara í dagsferð, jafnvel eftir vinnu, að fara í hjóla- eða gönguferð og njóta í leiðinni einhvers af þeim fjölmörgu góðu veitingastöðum sem svæðið býður upp á.

„Þó er best að koma og dvelja í nokkra daga og upplifa allt það sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða. Hér má meðal annars finna átta tjaldsvæði, þannig að allir eiga að geta fundið sitt uppáhaldstjaldsvæði.“

Í miðbænum á Hvolsvelli stendur yfir árleg útiljósmyndasýning sem ber heitið 860+. Afþreyingarmöguleikar eru fjölmargir í sveitafélaginu.

Margar perlur

Í sveitarfélaginu eru vinsælir áfangastaðir sem allir þekkja, eins og Seljalandsfoss, Skógafoss, Þórsmörk og Emstrur, bætir Ísólfur við.

„En hér eru líka ýmsar faldar perlur og þær má finna á nýrri heimasíðu sveitarfélagsins, visithvolsvollur.is. Til fróðleiks má nefna nokkrar, t.d. Efri-Hvolshella, sem eru friðlýstir, manngerðir hellar, rétt austan við Hvolsvöll. Tumastaðaskógur og Tunguskógur eru með helstu leyndarmálum okkar, en þar eru mjög fallegar göngu- og hjólaleiðir, auk hjólaleiða fyrir lengra komna. Ekki má svo gleyma ævintýralandi barnanna, sem er svokallaður „furðuveruskógur,“ en nemendur Hvolsskóla hafa tekið skóginn í fóstur.“

Hvolsvöllur er fjölskylduvænn staður með íþróttamiðstöð, skemmtilegan heilsustíg, sem gaman er að ganga og ærslabelg á miðbæjartúninu.

„Í miðbænum stendur yfir árleg útiljósmyndasýning sem ber heitið 860+. Afþreyingarmöguleikar eru fjölmargir, hvort heldur er úti í náttúrunni, í menningu og sögu, eða á sýningum og viðburðum. Einn merkasta og ríkasta menningararf okkar Íslendinga er að finna á Byggðasafninu á Skógum og á Hvolsvelli má finna margverðlaunaða eldfjallasýningu í Lava Center. Árleg Kjötsúpuhátíð verður haldin dagana 28.-30. ágúst en þá gleðjast íbúar og gestir saman og njóta alls þess sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða.“

Hjólabærinn Hvolsvöllur

Hvolsvöllur er mikill hjólabær og í raun allt sveitarfélagið, segir Ísólfur, en árið 1993 var haldin líklega fyrsta hjólreiðahátíð landsins, undir merkinu Tour de Hvolsvöllur.

„Síðan þá hefur sveitarfélagið vaxið mikið sem vinsælt hjólasvæði og hér má finna fjölmargar skemmtilegar hjólaleiðir, bæði í byggð og í óbyggðum. Sem dæmi, þá hjóla ég gjarnan í Fljótshlíðinni þar sem ég bý og í nágrenni Hvolsvallar, en svæðið hentar mjög vel til hjólreiða fyrir alla aldurshópa og ólík getustig. Ég hvet því landsmenn til að kynna sér hvað sveitarfélagið hefur upp á að bjóða inni á visithvolsvollur.is.“