Margrét Jóna Ísólfsdóttir, býflugnabóndi með meiru, hefur búið í Rangárþingi eystra í átta ár og þekkir svo að segja hvern krók og kima í bæjarfélaginu.

Margrét er uppalin á Hvolsvelli en bjó um árabil í Reykjavík. „Fyrir átta árum flutti ég aftur á Hvolsvöll með manninum mínum og dóttur. Þá var ég ólétt að yngri dóttur okkar. Við fundum strax hve mikil lífsgæði eru fólgin í því að búa í Rangárþingi eystra. Fjölskylduvænt, frábærir skólar, gott mannlíf, stutt í allt og stórbrotin náttúra í bakgarðinum. Eftir þrjú ár á Hvolsvelli byggðum við hús í Fljótshlíðinni og færðum okkur enn nær náttúrunni,“ segir Margrét.

Ævintýraskógur

Fjölskyldan er dugleg að skoða sig um, finna leynistaði og eiga saman fjölskyldustundir í sumarylnum. „Við eigum tvær stelpur, 8 og 12 ára, og úr Fljótshlíðinni er stutt í alls konar heillandi staði. Við heimsækjum ósjaldan Tumastaði og höldum í Tunguskóg. Þar er ævintýraveröld fyrir börn, stór og há grenitré, ótal göngustígar og leynistaðir með leiktækjum, náttúrulegri viðarhörpu og notalegum lundum. Þá er tilvalið að safna eldiviði á göngunni þar sem í skógarjaðrinum er eldstæði sem má nota til að elda kvöldmatinn.“

Fullkominn fjölskyldudagur

„Fullkominn laugardagur myndi hefjast á dýrindis kaffibolla á heimakaffihúsinu mínu. Þá myndum við fjölskyldan halda í Múlakot og ganga um gamla skrúðgarðinn. Þar var snemma á 19. öld rekið veitingahús og síðar hótel enda lá gamla þjóðleiðin þar um. Næst lægi leiðin yfir í Landeyjar en miðja vegu milli Landeyja og Fljótshlíðar er fjallið Stóri-Dímon. Það væri tilvalið að stoppa þar og ganga upp. Fjallið er eitt af uppáhalds fjöllunum mínum og hentar vel til að æfa börn í fjallgöngu. Að lokum myndum við leggja leið okkar í Landeyjafjöru. Þar er dásamlegur svartur og hlýr sandur og Vestmannaeyjar eru ótrúlega nálægt. Fjaran geymir endalausa leyndardóma og fjársjóði fyrir börnin eins og steina og kuðunga en reyndar alls konar drasl líka sem sjórinn hefur skilað af sér. Ef þú ert heppinn gætir þú gengið fram á gamlar gúmmítúttur eða flöskuskeyti. Það þarf þó að passa sig og börnin á briminu sem getur verið hættulegt.

Landeyjarfjara er alger fjársjóðurskista fyrir unga fólkið .

Okkur þykir líka ógurlega gaman að þvælast um hin ýmsu gil víða um sveitarfélagið og eitt það flottasta er Nauthúsagil. Ef gil sem á að skoða virðist tilheyra bóndabæ er um að gera að fletta viðkomandi upp og biðja um leyfi til að ganga gilið. Af öllum þessum fjölmörgu stöðum er þó einn í sérstöku uppáhaldi; Húsadalur í Þórsmörk. Þar er einstök orka, óteljandi gönguleiðir, hellar og endalausir möguleikar til útivistar.“