„Íslensk ættleiðing var stofnuð í núverandi mynd árið 1978 en það var ekki fjölskyldufræðingur starfandi hér fyrr en fyrir tveimur árum, þegar ég útskrifaðist sem slíkur, en ég hef verið hér í fimm ár,“ segir Rut Sigurðardóttir hjá Íslenskri ættleiðingu.

„Ég byrjaði sem félagsráðgjafi en bætti svo við mig fjölskyldufræðinámi sem efldi mig sem fagaðila og hefur gefið mér tækifæri til að auka þjónustu við fjölskyldur í ættleiðingarferlinu og til ættleiddra. Árið 2018 breyttum við ráðgjöf, stuðningi og fræðslu til fjölskyldna sem eru í ættleiðingarferlinu og svo hefur þjónustan haldið áfram að þróast á meðan ég var í náminu og eftir það.

Sérstaða fjölskyldufræðinga er að við höfum færni og þekkingu til að vinna með mörgum í einu og það er mikilvægur þáttur þegar unnið er að þjónustu við fjölskyldur sem verða til við ættleiðingu,“ segir Rut. „Ég hef séð mikla breytingu á því hvernig ég get stutt við fólk og fjölskyldur hjá félaginu eftir að ég bætti við mig þessari menntun.“

Veita þjónustu í gegnum allt ferlið

„Við veitum þjónustu fyrir, meðan og eftir ættleiðingu. Við byrjum á því að undirbúa fólk, aðstoða við umsóknarferlið og erum svo til staðar eftir ættleiðinguna. Íslensk ættleiðing sinnir milligöngu, stuðningi og ráðgjöf, en það er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem veitir leyfi til hjóna og einstaklinga til ættleiðinga,“ segir Rut.

„Við komum eingöngu að milligöngu ættleiðinga frá öðrum löndum og erum í dag í samvinnu við Tékkland, Tógó, Kólumbíu og Kína. Í dag eru börnin sem ættleidd eru að utan yfirleitt yngst tveggja ára en meðalaldur undanfarin ár hefur verið þriggja til fjögurra ára.

Ástæðan fyrir því að börnin eru yfirleitt yngst tveggja ára er sú að það þarf að vera tryggt að barnið sé lagalega laust til ættleiðingar,“ segir Rut.

„Þá er búið að leita innan fjölskyldu og í upprunalandi barnsins að fjölskyldu, en ættleiðing úr landi er alltaf síðasta úrræðið fyrir barn. Ættleiðing er alltaf áfall fyrir barn, það er verið að taka það úr aðstæðum sem það þekkir og setja það inn í nýjar aðstæður sem eru því framandi. Slíkt reynir alltaf á bæði barnið og foreldrana og því mikilvægt að undirbúningur, stuðningur og ráðgjöf í ferlinu öllu sé til staðar.“

Gera það sem er best fyrir barnið

„Hugmyndafræðin okkar sem ættleiðingafélag gengur út á það sem er best fyrir börnin og í okkar helsta samstarfslandi í dag, Tékklandi, eru börn pöruð saman við réttu fjölskylduna, í stað þess að vera bara númer á lista,“ útskýrir Rut. „Því er það mjög misjafnt hvað fólk þarf að bíða lengi, allt frá hálfu ári til fjögurra ára, eftir að fólk hefur fengið forsamþykki hjá Sýslumanni og er komið á biðlista í upprunalandi.

Sýslumaður vinnur eftir reglugerð um ættleiðingar og gefur leyfi, en það tekur níu til tólf mánuði og við vildum gjarnan stytta ferlið. Það að kerfið ákveði hvort þú megir vera foreldri er líka áskorun í sjálfu sér.

„Við leggjum líka mikla áherslu á að þetta séu börn með áfallasögu sem foreldrar þurfa að vera tilbúnir að takast á við,“ útskýrir Rut.

Þjónustan stuðlar að velferð

„Þegar fólk fer að sækja barnið fær það stuðning og líka eftir að heim er komið. Þegar það er erlendis tilnefnir það svo vini og fjölskyldumeðlimi sem fá líka fræðslu, þannig að við sinnum líka stórfjölskyldu og tengslanetinu,“ útskýrir Rut. „Svo kemur frekari fræðsla þegar börnin hefja nám í leik- og grunnskóla.

Til er ættleiðingarþunglyndi og það er töluvert algengara en fæðingarþunglyndi. Áskoranirnar eru oft miklu meiri og það eru oft væntingar um að allt verði frábært eftir þessa löngu bið,“ segir Rut. „Því þarf að huga vel að því að fjölskyldur og börn fái viðeigandi þjónustu svo þeim farnist vel eftir ættleiðingu og það viljum við standa vörð um. Í ljósi aldurs barnanna njóta þau ekki sömu þjónustu og nýfædd börn, en þeirri þjónustu er ætlað að styðja við barnið og foreldra þess. Þarna kemur Íslensk ættleiðing inn í staðinn og veitir stuðning og ráðgjöf sem stuðlar að velferð þeirra.“