Við erum búin að vera að vinna að því að stytta vinnutímann hjá starfsfólki. Markmiðið með því sem við erum að gera er í raun og veru fyrst og fremst að gera þetta fjölskyldu- og vinnuvænna fyrir starfsfólkið okkar.“ Hann segir einn mikilvægasta þáttinn felast í því að breytingarnar skili sér ekki í lægri launum. „Það sem er líka stór hluti í þessu er að fólk verður ekki fyrir neinni launaskerðingu við það sem er auðvitað mjög stór punktur í þessu.“

Skilningsríkir viðskiptavinir

Ómar segir að ráðgert hafi verið að útfæra breytingarnar í áföngum. „Við tókum fyrsta skrefið að þessu í maí síðastliðnum. Þá styttum við opnunartímann á föstudögum og breyttum þessu þannig að það var bara opið til 16 á föstudögum. Það var alltaf hugsað þannig, að sjá hvernig þetta færi með okkur í sambandi við markaðinn og annað slíkt. Stefnan hjá okkur var síðan sú að klára þetta með því að byrja á að taka alla daga í þetta, núna á vetrarmánuðum.“

Hugmyndin hafi fallið í kramið meðal viðskiptavina. „Fólk hafði fullan skilning á því sem við vorum að gera og brást vel við þessum breytta opnunartíma á föstudögum. Það hvatti okkur til þess að klára að taka þetta skref og gera það bara núna. Þetta var í raun og veru ákvörðun sem við tókum áður en þessir lífskjarasamningar og annað slíkt kom til tals þannig að við vorum svona dálítið á undan þessu, að reyna að gera þetta enn fjölskylduvænna fyrir starfsfólk okkar.“

Markmiðið hafi fyrst og fremst verið að auka lífs- og starfsgæði starfsfólks og gera því kleift að eyða meiri tíma með fjölskyldunni, enda sé þessi hefðbundni vinnudagur bæði langur og krefjandi. „Þessi 8-17 vinnudagur er auðvitað langur og áherslurnar í samfélaginu eru bara farnar að fara í þessa átt, að stytta vinnutímann þannig að fólk hafi meiri tíma fyrir tómstundir og fjölskyldu.“

Ómar segir að þrátt fyrir að breytingarnar á opnunartíma hafi í för með sér hugsanlegan tekjumissi hafi þau verið reiðubúin til þess að takast á við þær áskoranir fyrir þennan verðuga málstað. „Það var svona aðallega það sem ég hafði í huga og vildi gera bara fyrir okkur, burtséð frá því hvort það hefði áhrif á reksturinn, sem það gerir vissulega, en það er bara það sem við tökum á okkur til að skapa betra umhverfi fyrir starfsfólkið.“

Ótvíræður árangur

Breytingarnar hafa borið góðan árangur. „Þetta hefur gengið mjög vel og ég held að þau sem þurfi á okkar þjónustu að halda séu líka farin að horfa til þeirra fyrirtækja sem eru að breyta þessum kúltúr. Það eru náttúrulega fleiri fyrirtæki sem eru farin að hugsa með þessum hætti. Þetta er stefna sem önnur fyrirtæki eiga örugglega eftir að fylgja í kjölfarið og taka upp, í þeim tilgangi að bæta starfsumhverfi fólks.“

Ómar segir að starfsánægja hafi aukist markvert í kjölfar breytinganna. „Hún gerði það með þessari vinnutímastyttingu sem við fórum af stað með í maí, þá mældum við það alveg að starfsánægjan jókst og það er búinn að vera mikill hugur í fólki að takast á við þessa tilraun núna og klára hana með þessu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þetta eigi eftir að skila sér í aukinni starfsánægju og minni fjarvistum sem hafa nú ekki verið miklar. Fólk brennur síður út með þessu. Við merkjum klárlega starfsánægjuna og meiri gleði.“

Markmiðið sé skýrt og ávinningurinn margþættur. „Fókusinn er bara á starfsfólkið og líðan þess og fjölskylduna og annað slíkt, svo ekki sé minnst á að fólk sé ekki að tapa neinum launum á þessu, það er líka náttúrulega stór partur af þessu. Mér skilst, miðað við það sem við erum búin að reikna út, að þetta sé um það bil 20% launahækkun.“ Þá sé stefnt á að yfirfæra styttinguna á alla daga innan skamms. „Frá og með núna, næsta föstudegi, þá verður þetta alla daga, 8-16. Það er mín trú að framleiðnin aukist við það að stytta tímann sem fólk þarf að vera í vinnunni.“

Ómar Pálmason, framkvæmdarstjóri Aðalskoðunar. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Auknar áherslur á umhverfismál

Það er ekki bara starfsfólkið sem nýtur góðs af breyttum áherslum. „Umhverfisþátturinn er ekki síður mikilvægur og leitast er eftir að gera reksturinn eins umhverfisvænan og frekast er unnt. Við ætlum að fara í kolefnisjöfnun á okkar starfsemi og útrýma pappír eins og hægt er og reyna að gera þetta allt saman rafrænt hjá okkur.“

Ómar segir verkefnið hafa átt sér töluverðan aðdraganda og að á næsta ári sé fyrirhugað að fagna áfanganum. „Við erum búin að vera með þennan pakka allan í um ár í undirbúningi og við erum að klára þetta síðasta núna um áramótin þannig að á nýju ári þá getum við skreytt okkur alveg fullum fetum með öllum þessum umhverfisvæna þætti.“

Auknar áherslur á umhverfisþáttinn hafi einnig skilað sér í endurbættri þjónustu. „Svo erum við að reikna út meðaleyðslu á bílum á meðan þeir eru hjá okkur og á okkar athafnasvæði, það er að segja í gegnum skoðun og annað slíkt, og það er það sem við ætlum að kolefnisjafna í raun og veru, þennan akstur sem er á okkur,“ útskýrir Ómar.

Færanleg skoðunarstöð

„Svo erum við að taka skref í þá átt að við ætlum að fara til fólks með færanlegu skoðunarstöðina okkar þannig að stærri fyrirtæki geta nýtt sér þjónustu okkar. Í sambandi við það þá erum við ekki að missa fólk úr vinnu og minnka í raun og veru kolefnissporið á stóru vinnustöðunum við að þurfa ekki að fara eitthvert í burtu til að láta skoða bílana.“

Þessi nálgun sé í anda við stór og leiðandi fyrirtæki. „Við erum að fara í samstarf við nokkur stór fyrirtæki í þessum geira, að fara í raun og veru svona Google-leiðina að þessu, að koma með þjónustuna til fólksins frekar en að fólkið þurfi að sækja hana.“

Þá skilar þetta sér einnig í aukinni hagræðingu. „Stærri fyrirtæki geta óskað eftir því að fá okkur á staðinn, þá eru þau kannski búin að gera könnun innan sinna raða um hvort þetta sé þjónusta sem þau vilja fá og þá getum við komið á hvaða tíma sem hentar þannig að fólk lendi ekki í því að borga vanrækslugjöld eða annað slíkt. Við getum boðið upp á þetta þrisvar á ári til að koma í veg fyrir að fólk lendi í að þurfa greiða þessi gjöld. Það ýtir svolítið á fólk að tapa ekki pening þar, að gleyma sér að koma með bílinn í skoðun. Þá er þetta að sama skapi bæði gott fyrir fólk og fyrir fyrirtækið og minnkar kolefnissporin ekki síst.“