Jón Gunnar kláraði doktorsnám í fjölmiðlafræði í London árið 2019. Í náminu skoðaði hann meðal annars breytingar á íslenskum fjölmiðlamarkaði með tilkomu samfélagsmiðla og hvað einkennir umfjöllun íslenskra fjölmiðla um stjórnmál. „Ég hef undanfarið unnið meira með efnið úr doktorsrannsókninni og byggt ofan á hana. Nýlega kom ég nýr inn í stjórn Íslensku kosningarannsóknarinnar, en fyrir voru þau Ólafur Þ. Harðarson (sem byrjaði með rannsóknina 1983), Eva H. Önnudóttir, Hulda Þórisdóttir og Agnar Freyr Helgason. Þau starfa öll við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands eins og ég,“ segir Jón Gunnar.

Rannsóknir á Íslandi

Íslenska kosningarannsóknin hefur farið stækkandi undanfarin ár. „Mitt hlutverk snýr aðallega að fjölmiðlahlutanum. Miðlun upplýsinga í kosningabaráttu hefur lítið verið rannsökuð á Íslandi og ég hef meðal annars þróað spurningar um hvernig fólk nálgast upplýsingar um stjórnmál, hversu virkt það er að ræða stjórnmál á samfélagsmiðlum og hversu miklum tíma það eyðir í að fylgjast með stjórnmálatengdri umfjöllun í fjölmiðlum.

Annað stórt rannsóknarverkefni sem ég vinn að er rannsókn á fjölmiðlaumfjöllun um Covid-19 á Íslandi í samstarfi við Sigrúnu Ólafsdóttur, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Við Sigrún höfum fengið styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna undanfarin tvö ár og ráðið nemendur til að vinna í greiningunni með okkur. Gagnasafnið er orðið ansi stórt. Við höfum þegar birt eina fræðigrein upp úr efninu og fleiri greinar eru í vinnslu.“

Eitt af því sem er forvitnilegt er hversu virk við erum á samfélagsmiðlum og hve stór hluti upplýsingamiðlunar fer í gegnum þá. Um 90 prósent Íslendinga nota Facebook daglega sem er mjög há tala í alþjóðlegum samanburði.

Íslendingar og samfélagsmiðlar

Að sögn Jóns Gunnars er dreifing upplýsinga áhugaverð í íslensku samhengi. „Eitt af því sem er forvitnilegt er hversu virk við erum á samfélagsmiðlum og hve stór hluti upplýsingamiðlunar fer í gegnum þá. Um 90 prósent Íslendinga nota Facebook daglega sem er mjög há tala í alþjóðlegum samanburði. Margt sem er skrifað á samfélagsmiðla ratar í hefðbundna fjölmiðla og hefur áhrif á umfjöllun þeirra. Því er mikilvægt að skoða þróunina með tilliti til bæði samfélagsmiðla og hefðbundinna fjölmiðla.“

Falsfréttir á Íslandi

Það hefur mikið verið rætt um falsfréttir erlendis en að sögn Jóns Gunnars er fræðafólk einnig byrjað að rannsaka þessi mál hér á Íslandi. „Í Vísindakaffinu fjallaði ég um falsfréttir og upplýsingaóreiðu á samfélagsmiðlum og ræddi meðal annars í samhengi við Covid-19 og kosningabaráttuna og setti í íslenskt samhengi.“

En hvað eru falsfréttir?

„Þegar rætt er um falsfréttir er gjarnan verið að vísa til rangra eða misvísandi upplýsinga. Slíkar upplýsingar eru ekki nýjar af nálinni en með tilkomu samfélagsmiðla hefur dreifing á þannig upplýsingum gjörbreyst. Fólk sækir sér fréttir og fróðleik í gegnum samfélagsmiðla og rannsóknir hafa sýnt að þar hafa oft alls kyns ósannindi komist á flug. En eins og ég segi, þá er auðvitað ekki nýtt að fólk sé að deila eða skoða eitthvað sem er rangt eða misvísandi, en netið hefur breytt dreifingunni töluvert.“

Falsfrétt er of pólitískt orð

Jón Gunnar segir þó að fræðasamfélagið noti almennt ekki orðið falsfréttir. „Margt fræðafólk vill fremur nota hugtakið upplýsingaóreiða þar sem oft er um fleira en fréttir að ræða í þessu samhengi. Jafnframt hefur orðið falsfrétt orðið ansi pólitískt, eins og sést á umræðunni undanfarin ár. Upplýsingaóreiða er mun nákvæmara hugtak. Þar er gerður greinarmunur á því hvort dreifing á röngum eða misvísandi upplýsingum sé viljandi (kallast disinformation á ensku) eða hvort þeim sé dreift óafvitandi (kallast misinformation). Einnig fellur þar undir ef viðkvæmum persónulegum upplýsingum er dreift til að valda skaða (kallast malinformation).“

Við sjáum að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur farið versnandi undanfarin ár sem tengist meðal annars samfélagsmiðlum og því hvernig dreifing upplýsinga hefur breyst.

Samfélagsmiðlar og fjölmiðlalæsi

Jón Gunnar segir ýmislegt hægt að gera til að minnka dreifingu á hinum svokölluðu falsfréttum eða upplýsingaóreiðu. „Við höfum séð hvernig samfélagsmiðlarnir sjálfir reyna að taka á þessum málum, þó með misjöfnum árangri. Fólk í minni fræðigrein nefnir oft að við þurfum trausta, fjölbreytta og öfluga fjölmiðla og ég tek undir það. Þeir hafa kannski aldrei skipt jafn miklu máli og einmitt nú. Við sjáum að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur farið versnandi undanfarin ár sem tengist meðal annars samfélagsmiðlum og því hvernig dreifing upplýsinga hefur breyst. Þetta hangir allt saman. Einnig hefur mikið verið rætt um að efla fjölmiðlalæsi í þessu síbreytilega tækniumhverfi.“

Kosningabaráttan lögð til grundvallar

Rannsóknir Jóns Gunnars snúast í dag um kosningabaráttuna sem er í fullum gangi, enda kosningar á næsta leiti. „Ég kem nýr inn í stjórn Íslensku kosningarannsóknarinnar í ár eins og ég nefndi. Kosningabaráttukönnunin hefur verið í gangi í mánuð og þar höfum við meðal annars gert daglegar mælingar. Við erum að skoða hvaða miðla fólk notar helst og hversu miklum tíma það ver í að fylgjast með pólitískri umræðu. Einnig erum við að skoða hvort, og þá hvar, fólk hafi rekist á rangar eða misvísandi upplýsingar eða nafnlausan áróður.“

Hvað er næst á dagskrá?

„Ég mun halda áfram að rannsaka fjölmiðlaumfjöllun um Covid-19 og einnig kosningabaráttuna. Að auki hef ég verið að taka þátt í tveimur stórum alþjóðlegum verkefnum um stöðu fjölmiðla, the Media for Democracy Monitor og Worlds of Journalism Study, í samstarfi við Valgerði Jóhannsdóttur, Birgi Guðmundsson, Guðbjörgu Hildi Kolbeins og Friðrik Þór Guðmundsson, en þau hafa öll unnið að fjölmiðlarannsóknum. Ég stefni á að birta efni um stöðu fjölmiðla á Ísland í samanburði við önnur ríki upp úr gögnum úr þessum tveimur rannsóknum. Þannig að það verður nóg að gera á næstunni,“ segir Jón Gunnar að lokum.