Að sögn Unnars og Jóhanns eru flestar ár á Vestfjörðum svokallaðar dragár með missterkum lindáreinkennum. Þannig er bæði hitastig og rennsli í ánum sveiflukennt, en vegna lindáreinkenna sýna þær þó sumar fram á ákveðinn stöðugleika í rennsli sem gerir þær að fýsilegri virkjanakostum. „Hvatinn að gerð skýrslunnar var þá að finna og skilgreina hagkvæma kosti fyrir smávirkjanir á Vestfjörðum,“ segir Jóhann.

Jóhann Birkir Helgason hjá Verkís.

Afhendingaröryggi ábótavant

Um 60 prósent af raforkuþörf Vestfjarða koma af svæðinu sjálfu. „Hin 40 prósentin koma um flutningskerfið frá öðrum virkjunum á landinu. Afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum hefur ekki verið fullnægjandi um árabil. Með tilkomu 10,8 MW dísilvaraaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík, sem var formlega tekin í notkun árið 2015 og er eingöngu keyrð við sérstakar aðstæður, hefur afhendingaröryggi á rafmagni aukist töluvert á norðanverðum Vestfjörðum. Það getur þó ekki talist algert,“ segir Jóhann og Unnar bætir við að svo megi alveg búast við aukinni eftirspurn eftir orku á Vestfjörðum vegna aukinna umsvifa, svo sem kalkþörungavinnslu, fiskeldis og ferðaþjónustu.

Unnar Númi Almarsson hjá Verkís.
Anton Brink

Aukin eftirspurn krefst meiri orku

Í skýrslunni mátu Jóhann og Unnar 68 mögulega smávirkjanakosti á Vestfjörðum. Úttektin er langt í frá tæmandi, en þeir kostir sem voru skoðaðir voru fundnir með kerfisbundinni yfirferð loftmynda, korta og landlíkana. „Útkoman er sú að 18 þessara kosta teljist vera hagkvæmir. Eftir að hafa staðsett þá kosti sem við vildum skoða útfærðum við þá nánar. Við ákvörðuðum hentuga tilhögun, fundum stíflustæði, skoðuðum mögulega legu vatnsvega og hentugt stöðvarhússstæði. Þá mátum við uppsett afl og orkuframleiðslu kostanna út frá orkulíkani og svo var kostnaður við hverja virkjun fyrir sig metinn með kostnaðarlíkani. Þannig fékkst mat á hagkvæmni kostanna. Þar sem um samræmda aðferðafræði var að ræða voru þeir vel samanburðarhæfir. Ef farið væri í allar þessar 18 smávirkjanir, sem við gerum ekki endilega ráð fyrir að verði gert, myndi uppsett afl þeirra til samans vera um 43 MW,“ segir Unnar. Þá bendir Jóhann á að til samanburðar muni kalkþörungaverksmiðja sem áformað er að rísi í Súðavík krefjast um 10 MW, sem er fjórðungur af orku úr öllum þessum kostum. „Fleiri virkjanir og aukin raforkuframleiðsla myndu bæta ástandið á svæðinu, en í tilfelli iðnaðar á svæðinu getur verið sérlega óheppilegt að verða fyrir rafmagnsleysi,“ segir Jóhann.

„Það má bæta við að einn af þeim kostum sem við mátum í skýrslunni sem mögulega hagkvæman virðist mega flokka sem hagkvæman. Um var að ræða Hólsárvirkjun í Tálknafirði, en nýjar mælingar á rennsli árinnar á vegum Tálknafjarðarhrepps sýndu að rennslislangæi var talsvert hagstæðara til virkjanareksturs en okkar forsendur höfðu gert ráð fyrir. Því voru hæg heimatökin að uppfæra okkar forsendur þegar rennslismælingar frá hreppnum lágu fyrir. Frá því við gáfum út skýrsluna hafa um fimm kostir verið skoðaðir nánar, nokkrir kostir hafa reynst hagkvæmari en við mátum, á meðan aðrir hafa reynst óhagkvæmari. Við hvetjum því landeigendur og aðra áhugasama til að kynna sér efni skýrslunnar og hafa samband ef þeir hafa uppi hugmyndir um álitlega virkjanakosti sem þeir vilja láta kanna nánar,“ segir Unnar.

Hagkvæmniflokkun, fjöldi kosta, samanlagt afl og orkuframleiðsla.
Grænt telst hagkvæmt, gult er mögulega hagkvæmt, rautt er líklega óhagkvæmt og svart er óhagkvæmt.

Heimarafstöðvar

Löng hefð er fyrir heimarafstöðvum á Íslandi og þar eru Vestfirðir engin undantekning. „Á fyrri hluta síðustu aldar voru víða byggðar litlar heimarafstöðvar, með virkjun vatnsafls, flestar um eða undir 30 kW. Þó svo að rafbúnaður til búrekstrar og heimilis þróaðist hratt var ekki búið að rafvæða landið. Því var eina leiðin fyrir bændur að komast í rafmagn sú að framleiða það sjálfir. Víða á Vestfjörðum eru aflagðar smávirkjanir sem gæti verið áhugavert fyrir landeigendur að láta skoða og hvetjum við bændur eindregið til að hafa samband við Verkís, eða Vestfjarðastofu ef þeir hafa hugmyndir um slíka möguleika. Því það kann að vera hagkvæmt fyrir bændur að endurbyggja þessar virkjanir eða reisa nýjar með nýrri tækni. Raforkuna má þá nýta heima og/eða selja inn á kerfið,“ segir Unnar.

Þrír flokkar vatnsaflsvirkjana

Þegar kemur að vatnsaflsvirkjunum skiptast þær upp í þrjá flokka, út frá uppsettu afli. „Oft er rætt um smávirkjanir sem þær virkjanir sem hafa uppsett afl undir 10 MW. Þær sem eru stærri og hafa 10 MW uppsett afl og meira fara sjálfkrafa í rammaáætlun og eru háðar mati á umhverfisáhrifum. En þeim minni má skipta upp í tvo flokka, ekki síst þegar kemur að leyfismálum. Þá eru smávirkjanir sem framleiða frá 200 kW upp í 10 MW, en það eru þær sem fjallað er um í skýrslunni. Þær virkjanir falla undir B-flokk og eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar og kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Svo eru það minni virkjanir, með uppsett afl undir 200 kW, þær falla í C-flokk og eru tilkynningarskyldar til sveitarfélags og kunna að vera tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar ef þeim fylgja til dæmis framkvæmdir á verndarsvæðum. Þó er óalgengt að leyfum fyrir þess lags virkjanakostum sé hafnað, nema um verndarsvæði sé að ræða eða annað slíkt,“ segir Jóhann.

Umfangsmikið ferli

Að sögn Unnars eiga landeigendur í flestum tilvikum vatnsréttindi á sínum landsvæðum. Þá segir hann að ýmis vinna þurfi að fara í gang samhliða skoðun á hverjum smávirkjanakosti fyrir sig. „Þetta byrjar allt á hugmynd. Landeigendur, bændur og staðkunnugir hafa oft góða þekkingu á staðháttum og fá góðar hugmyndir að nýtingu auðlinda á landi sínu. Það er þó að mörgu að hyggja. Frumúttekt á virkjanakostum er einungis fyrsta skrefið. Í framhaldinu þarf að vinna forathugun sem leiðir til nákvæmara hagkvæmnimats. Þá er tilhögun virkjunarinnar útfærð nánar og allar forsendur metnar líkt og tiltæk gögn gefa kost á. Ef kosturinn sýnist hagkvæmur tekur við leyfis- og skipulagsferli samhliða frekari öflun gagna, svo sem rennslismælingum sem gott er að standi í sem lengstan tíma. Það þarf að sækja um ýmis leyfi, ganga frá samningum og huga að umhverfis- og skipulagsmálum. Því getur ferlið frá hugmynd að veruleika tekið mörg ár.“

Nauðsynleg skref í þróun smávirkjanakosta:

 • Forathugun sem leiðir til hagkvæmnimats
 • Samningar um vatnsréttindi
 • Undirbúningsrannsóknir (mælingar á rennsli, könnun jarðlaga og jarðefna, greining vatnasviða)
 • Hönnun virkjunar og innkaup búnaðar
 • Tenging við dreifiveitur, samningamál
 • Framkvæmd og gangsetning

Einnig þarf að huga að leyfismálum en þau eru fjölmörg:

 • Aðalskipulag
 • Tilkynning til skipulagsstofnunar
 • Deiliskipulag
 • Rannsóknaleyfi
 • Virkjanaleyfi
 • Framkvæmda- og byggingarleyfi

Verkís veitir ráðgjöf og þjónustu á öllum stigum ferlisins

Verkís hefur tekið þátt í hönnun flestra virkjana á Íslandi og hefur einnig komið að verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku víða um heim. Verkefnin spanna bilið allt frá 1 MW Tungudalsvirkjun í Skutulsfirði að 100 MW Búrfellsvirkjun II svo dæmi séu tekin. „Við hjá Verkís gerum út á að geta sinnt verkkaupum frá upphafi til enda í hvívetna. Þá erum við með sérfræðinga á okkar snærum á öllum sviðum, og meðal annars þegar kemur að frekari skoðun á hagkvæmni virkjunarkosta, hönnun mannvirkja, kaupum á búnaði og umhverfis- og skipulagsmálum. Þá erum við til aðstoðar við allt ferlið, allt frá hugmynd, til reksturs og viðhalds,“ segir Jóhann.

„Við byrjuðum að vinna skýrsluna í febrúar 2020 og hún kom út í apríl tveimur mánuðum síðar. Við gerum ráð fyrir að Vestfjarðastofa muni nú í framhaldinu kynna skýrsluna enn betur fyrir íbúum og landeigendum á Vestfjörðum. En þar sem skýrslan kom út í byrjun faraldursins hefur ekki enn gefist gott tækifæri til að halda fund um útkomuna,“ segir Jóhann að lokum.