„Þann 23. júlí 1941 var Byggða- og sjóminjasafn Ísfirðinga stofnað og var Bárður G. Tómasson kosinn fyrsti formaður þess. Á þessum fundi afhenti hann safninu sexæringinn til eignar og lagði fram greinargerð um kostnað við byggingu hans og fjáröflun. Með byggingu sexæringsins má segja að lagður hafi verið grunnur að sjóminjadeild byggðasafnsins, sem opnað var í Turnhúsinu í Neðstakaupstað á sjómannadaginn 1988,“ segir Jóna Símonía Bjarnadóttir, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða. „Þegar verbúðin í Ósvör í Bolungarvík var byggð upp var sexæringurinn, ásamt fjölmörgum öðrum munum tengdum árabátaútvegi, fluttur þangað og allir þessir munir eru nú varðveittir þar.“

Byggðasafn Vestfjarða er í elstu húsaþyrpingu landsins.

Meira en bara sjóminjar

„Í dag er safnið í Turnhúsinu aðeins meira en bara sjóminjar, þó að vissulega sé það meginþunginn, enda er sjósókn stór hluti af atvinnusögu Vestfjarða,“ segir Jóna. „Síðustu ár hefur verið lögð meiri áhersla á að tengja útgerðarsöguna við líf fólksins á svæðinu og nú er aðaláherslan á að sýna hvað þróunin í sjávarútvegi þýddi fyrir konurnar og hvaða áhrif aukin atvinna og meiri velmegun hafði á líf fólks hér fyrir vestan.

Á safninu er fjallað um áhrifin sem þróunin í sjávarútvegi hafði á konurnar á svæðinu.

Fyrir utan grunnsýninguna okkar erum við líka með skipasmíði, bátalíkön, beykisverkstæði og brot af harmoníkusafni Ásgeirs S. Sigurðssonar, en það telur í heild rúmlega 220 harmoníkur, sú elsta frá árinu 1830, og margar þeirra voru í eigu þekktra íslenskra harmoníkuleikara,“ segir Jóna.

Á safninu er meðal annars hægt að skoða ýmis áhugaverð verkfæri fyrri tíma.

Fjölbreyttar sýningar við allra hæfi

„Fyrir utan þessar föstu sýningar er safnið líka með ýmsar aðrar tímabundnar sýningar. Við erum til dæmis með jólasýningu á hverju ári og núna stendur yfir sýning á handunnum fiskikortum sem byggja á Lóran-tækninni,“ útskýrir Jóna. „Svo höfum við líka verið að auka þjónustu við börn, en við erum með leikhorn og erum í auknum mæli að taka á móti skólahópum.

Safnið geymir líka alls kyns fallega muni sem varpa ljósi á hversdagslíf almennings á horfnum tíma.

Stór hluti af gestum safnsins yfir sumarið kemur af skemmtiferðaskipum sem heimsækja Ísafjörð. Það er áhugasamur hópur sem hefur mikla ánægju af því að kynna sér sögu lands og þjóðar,“ segir Jóna. „Í þessum hópi eru oft gamlir sjómenn sem sigldu á Íslandsmið, áttu feður sem dvöldu hér á árum síðari heimsstyrjaldar, eða tóku jafnvel þátt í þorskastríðunum. Þegar svo ber undir getum við ekki síður fræðst af þeim en þeir af okkur.

Sjósókn er stór hluti af atvinnusögu Vestfjarða og á safninu eru alls kyns munir tengdir henni.

Þá varðveitir safnið allnokkra báta og stefnan er að koma þeim flestum á sjó aftur, en ástand þeirra er æði misjafnt. Það er tímafrekt og fjárfrekt verkefni að koma bátum í haffært ástand en það mjatlast og vonandi verður bryggja hér í framtíðinni full af safnabátum,“ segir Jóna. „ Safnið rekur einnig Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri, sem er elsta starfandi vélsmiðja landsins. Smiðjan er nánast í sinni upprunalegu mynd og ber nafn Guðmundar, sem stofnaði smiðjuna til helminga með Br. Proppé. Það er því í mörg horn að líta í starfsemi safnsins og sannarlega margt að sjá og upplifa.“ ■

Á safninu er meðal annars hægt að skoða nokkur falleg líkön af bátunum sem notaðir voru til fiskveiða á Vestfjörðum í gamla daga.