Iðjuþjálfun á Landspítala í Fossvogi, þar sem Valgerður starfar, sinnir jöfnum höndum sjúklingum sem liggja á spítalanum sem og á göngudeildum. „Þegar sjúklingar útskrifast af spítalanum reynum við að koma þeim í úrræði í nálægð við heimili þeirra sé þess þörf,“ segir hún.

Mikið forvarnastarf gegn byltum hefur verið unnið á Landspítalanum undanfarin ár og hefur Valgerður meðal annars komið að því verkefni. „Það starf hófst árið 2017. Byltur á stofnunum geta haft alvarlegar afleiðingar og því brýnt að reyna að fyrirbyggja þær eftir fremsta megni. Iðjuþjálfar hafa gert umhverfisúttektir á deildum spítalans með það markmið að leiðarljósi að draga úr byltuhættum. Vitaskuld er ekki hægt að koma alveg í veg fyrir byltur en rannsóknir sýna að hægt er að draga úr þeim með breytingum á verklagi og nýtingu á tæknilausnum. Í september síðastliðnum var byltuvarnavika á Landspítalanum þar sem opnuð var vefsíðan landspitali.is/byltur en þar má finna fróðlegt efni um byltuvarnir. Áhættuþættir fyrir byltum eru margir eins og aldur einstaklinga, hreyfigeta, næringarástand, lyfjanotkun og veikindi. Þess vegna koma mismunandi fagaðilar að verkefninu,“ útskýrir Valgerður.

Heimilisathuganir

Annað mikilvægt starf iðjuþjálfa þegar kemur að byltuvörnum eru heimilisathuganir. Iðjuþjálfar ásamt sjúkraþjálfurum Landspítalans fara í heimilisathuganir til að meta umhverfið heima með tilliti til færni skjólstæðinganna og hvort hægt sé að bæta umhverfið til að draga úr líkum á byltum og efla sjálfsbjargargetu þeirra. „Við veitum ráðgjöf og metum þörf á hjálpartækjum og sækjum um þau fyrir skjólstæðingana. Dæmi um hjálpartæki sem sótt er um í kjölfar heimilisathugana eru salernisupphækkanir, stoðir við rúm eða salerni, sturtustólar og öryggishnappar. Rannsóknir hafa sýnt að heimilisathuganir draga meðal annars úr byltum og endurinnlögnum á spítala. En byltur geta haft mikil áhrif á líðan einstaklinga, trú þeirra á eigin getu, félagslega einangrun og á bataferlið,“ segir hún.

Leita úrræða

Iðjuþjálfar sinna öllum deildum spítalans með margvíslegum hætti. „Í Fossvogi vinnum við með einstaklingum sem eru í bráðafasa, metum færni þeirra og veitum þjálfun, metum hjálpartækjaþörf og hvaða úrræði henta í kjölfar veikinda eða slysa en það er unnið í þverfaglegum teymum. Að auki sé ég um að sérsmíða handarspelkur fyrir einstaklinga sem hafa orðið fyrir áverka á höndum í samvinnu við sjúkraþjálfara og handarskurðlækna en í dag eru þessar tegundir spelkna eingöngu smíðaðar á spítalanum. Það er því óhætt að segja að starfið sé mjög fjölbreytt.“

Valgerður segist sjálf hafa glímt við veikindi sem vakti áhuga hennar á starfi iðjuþjálfa. „Ég fór í fjarnám á Akureyri og sé alls ekki eftir því. Í náminu fengum við góðan grunn til að byggja starfsferil okkar á og í starfi dýpkar svo þekkingin á því sviði sem maður kýs að starfa á. Starfið á Landspítalanum er mjög fjölbreytt og því dýrmæt reynslan sem ég hef fengið þar. Ómetanlegt að fá tækifæri til að sjá árangur starfsins þegar vel gengur hjá skjólstæðingum okkar og finna fyrir þakklætinu,“ segir hún.