Menningarhúsin í Kópavogi bjóða upp á skemmtilegar og fræðandi smiðjur í sumar fyrir ungt fólk. Um er að ræða vikulegar smiðjur frá þriðjudegi til fimmtudags og hefjast þær 30. júní. Það eru fjórir sumarstarfsmenn menningarhúsanna sem stýra smiðjunum, en hópurinn kallar sig Sumarspírurnar. Hópinn skipa þær Guðný Sara Birgisdóttir, myndlistarkona og meistaranemi í hönnun við Listaháskólann, Ýr Jóhannsdóttir, textíllistakona og nemi í listkennsludeild Listaháskólans, Jóhanna Malen Skúladóttir, jarðvísindanemi við Háskóla Íslands og teiknari, og Þórhildur Magnúsdóttir sem er víólunemi í Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn.

„Við munum leggja áherslu á umhverfisvitund, listræna sköpun og leikgleði, en smiðjurnar standa yfir frá klukkan 13-15, þrjá daga vikunnar, og standa yfir frá 30. júní til 13. ágúst,“ segir Guðný Sara.

„Á þriðjudögum verða vísindamiðaðar smiðjur og þrautagerð, myndlist verður í boði á miðvikudögum, og á fimmtudögum bjóðum við upp á fimmtudagsflækjur.

Smiðjurnar eru öllum opnar og ekkert kostar inn á þær,“ bætir Ýr við.

Það er alltaf líf og fjör hjá ungu kynslóðinni í Kópavogi enda margt í gangi.

Þverfagleg samskipti aukin

Smiðjurnar eru hugsaðar fyrir 10-14 ára krakka, en verða að sjálfsögðu opnar fyrir alla þá sem hafa áhuga á listrænni sköpun segir Jóhanna Malen. „Dagskráin mun að mestu leyti fara fram í Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu, en einnig munum við nýta útivistarsvæði Menningarhúsanna og vera eina viku í Lindasafni.“

Það er þeim mikið hjartans mál að viðhalda því flotta og öfluga menningarstarfi sem Menningarhúsin í Kópavogi bjóða upp á yfir vetrartímann og færa það yfir á sumartímann líka.

Salalaug er glæsileg en hún er önnur tveggja sundlauga í bænum.

Mikil fjölbreytni

Guðný ætlar að leggja áherslu á skemmtilegar myndlistarsmiðjur á miðvikudögum undir heitinu Myndlistar-miðvikudagar! „Smiðjurnar verða allar mjög fjölbreyttar og snerta á sem flestum flötum myndlistarinnar. Við verðum til dæmis með klippimyndasmiðju, prentsmiðju með áherslu á endurvinnslu á efniviði og vatnslitasmiðju.“

Ýr, sem skapar undir nafninu Ýrúrarí, stendur fyrir smiðjunum á fimmtudögum, sem verða með furðu- og flækjuþema. „Það verða meðal annars textíltilraunir og leikir úti á túni, fléttað úr lofti og vatni, frumlegar fataviðgerðir og skapandi útsaumur og dúskagerð, með endurunnum efnivið.“

Í Menningarhúsunum getur fjölskyldan komið saman til að skapa og skemmta sér.

Leyniletur og sólkerfi

Jóhanna Malen, sem meðal annars hefur unnið með námi í vísindasmiðju Háskóla Íslands, við vísindamiðlun til grunnskólabarna, mun sjá um þverfaglegar smiðjur. „Ég mun leggja áherslu á sköpun í tengslum við vísindi og náttúru og bjóða upp á til dæmis tetrisþrautasmíði, seglasmiðju, leyniletur og sólkerfið, svo fátt eitt sé nefnt.“

Starf Þórhildar í sumar felst einna helst í að spila á víóluna og tvinna saman lifandi tónlist og annars konar list, sem fram fer í smiðjunum, á skapandi hátt.

Nánari upplýsingar verða svo settar jafnóðum inn á Facebook hópinn „Sumarspírur Menningarhúsanna“ og á facebook síðu Menningarhúsanna í Kópavogi.

Björn Thoroddsen og Unnur Birna.

Eitthvað fyrir alla

Menningarhúsin í Kópavogi eru Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Bókasafn Kópavogs, Héraðsskjalasafn Kópavogs og tónleikhúsið Salurinn, en öll húsin eru staðsett í hjarta Kópavogsbæjar í Hamraborginni.

Í sumar standa þau fyrir samvinnuverkefni sem ber heitið Söfnum sumri í Menningarhúsunum í Kópavogi. Um er að ræða fjölskylduverkefni sem skapar vettvang til útiveru og samveru, þar sem fjölskyldan getur unnið saman að skemmtilegum og fræðandi verkefnum. Þátttakendur fá afhentan glæsilegan taupoka, stútfullan af fjölbreyttum og sumarlegum verkefnum og þrautum, sem fjölskyldan er hvött til að taka með sér út í sumarið og í ferðalögin fram undan.

Nokkra fimmtudaga í sumar verður boðið upp á svokallaðan Sumarbræðing í Menningarhúsunum í Kópavogi. Þá verður boðið upp á Sumarjazz í Salnum og lengri opnunartíma í Gerðarsafni og Pure Deli, eða til klukkan 21. Næsti Sumarjazz í Salnum er 9. júlí, en þá koma fram Unnur Birna og Bjössi Thor. Ókeypis er á Sumarjazzinn og í Gerðarsafn frá klukkan 17.

Gerðarsafn opnar sýninguna Þegar allt kemur til alls, eftir tólf íslenska samtímalistamenn, laugardaginn 4. júlí. Verkin eru sérvalin út frá því hvernig fegurðin í hversdagsleikanum, léttleiki, húmor og leikgleði, birtast í þeim.

Á sýningu Náttúrufræðistofu Kópavogs er gestum boðið í ferðalag um helstu búsvæði sem finnast á Íslandi, allt frá myrkustu undirdjúpum til hæstu fjallatoppa. Á leiðinni mæta gestum þær lífverur sem finna má í hinum mismunandi búsvæðum.

Bókasafn Kópavogs býður upp á mikið úrval bóka og tímarita, auk þess sem lestraraðstaða safnsins er hin huggulegasta.

Útivistarsvæði Menningarhúsanna í Kópavogi býður upp á eitthvað fyrir alla fjölskylduna. Fullorðnir geta notið sín með kaffibolla frá Pure Deli og bók við hönd, á meðan börnin leika sér á svæðinu, sem inniheldur meðal annars ærslabelg, klifurgrind og gosbrunn.

Að lokum má nefna að í Kópavogi eru tvær frábærar sundlaugar, Salalaug og Sundlaug Kópavogs. Þær eru opnar frá klukkan 6.30 – 22 alla virka daga og frá klukkan 8 – 20 um helgar.

Nánari upplýsingar um viðburði og opnunartíma er að finna á menningarhusin.kopavogur.is.

Litróf eftir Harald Jónsson verður á næstu sýningu Gerðarsafns.