Í rafhjólasetrinu eru í kringum tíu vörumerki og er Ellingsen því með langmesta rafhjólaúrval landsins að sögn Freyju Leópoldsdóttur, sölu- og markaðsstjóra.

„Fólk á öllum aldri kaupir rafhjól, en þau eru líka ansi fjölbreytt og til hjól sem henta öllum. Rafhlaupahjólin hafa til dæmis verið gríðarlega vinsæl fermingar- og sumargjöf fyrir unglinga en einnig sem fararmáti fyrir fullorðna. Til dæmis er Zero 10 eitt vinsælasta rafhlaupahjólið okkar. Ástæðan fyrir því er krafturinn, en það fer auðveldlega með allt að 120 kílóa manneskju upp brekkur. Zero 10 er auk þess með góða fjöðrun og kemst því á ómalbikaða stíga. Mér skilst meira að segja að einhverjir hafi farið upp að eldgosinu í Geldingadölum á sínum rafhlaupahjólum,“ segir Freyja.

„Það er mikill félagsskapur í kringum stóru rafhlaupahjólin, sameiginlegar ferðir eigenda um fyrir fram ákveðna slóða og þess háttar, þó COVID hafi haft einhver áhrif á það undanfarið. Sumir nota rafhlaupahjólin á móti fjölskyldubílnum og er það alveg raunhæfur kostur. Ég hef meira að segja séð barnahjólavagn festan aftan í rafhlaupahjól. Þá veit ég líka um konu sem ekur um á rafbíl og er með rafhlaupahjól í skottinu. Þegar hún fer á fundi í miðbænum leggur hún aðeins frá þar sem er auðveldara að fá stæði og fer á áfangastað á rafhlaupahjólinu.“

Hágæða rafhjól

Rafhjólin eru mjög fjölbreytt að sögn Freyju.

„Við erum til dæmis með Mate urban borgarhjól, mjög töff hjól þar sem ein stærð hentar öllum. Þau eru samanbrjótanleg og því fer lítið fyrir þeim í geymslu. Þá eru til tvær stærðir, önnur er með breiðari dekkjum sem fara auðveldlega yfir malarstíga og því tilvalið að hjóla í Heiðmörk. Kosturinn við þessi hjól er að foreldrarnir og unglingarnir geta öll notað sama hjólið. Mate hjólin eru framleidd af ungu startup fyrirtæki sem er ört stækkandi, en Kardashian fjölskyldan hefur t.d. fjárfest í fyrirtækinu,“ segir hún.

Tern rafhjólin hafa verið vinsæl en þau hafa mikla burðargetu og eru oft notuð sem sendlahjól. MYND/AÐSEND

„Nýlega fengum við síðan fyrstu Rise&Müller rafhjólin okkar, en þau eru hágæða þýsk rafmagnshjól sem hægt er að fá með vagni að framan, sem bæði er hægt að nýta sem sendlahjól eða útbúa fyrir börn. Þá hafa Tern rafhjólin verið mjög vinsæl, en þau hafa mikla burðargetu og eru mikið notuð sem sendlahjól erlendis, en eru líka tilvalin fyrir fjölskyldur. Möguleiki er á að vera með tvo stóla fyrir börn aftan á hjólinu, sem mér finnst alveg frábær valmöguleiki.“

Hjólaði í vinnuna í fyrsta skipti

Freyja keypti sér sjálf rafhjól í fyrra og er mjög ánægð með það.

„Ég valdi hefðbundið borgarhjól sem ég nýtti mikið í fyrra. Það fór með í öll ferðalög fjölskyldunnar og í fyrsta skipti á ævinni fór ég að hjóla í vinnuna. Ég hjólaði með börnin í skólann, í vagni aftan í hjólinu og fór síðan áfram í vinnuna. Eini gallinn var að maðurinn minn var ekki á rafhjóli og því var erfitt fyrir okkur að hjóla saman, hann hélt ekki í við mig. Svo núna var hann líka að fá sér rafhjól,“ segir Freyja.

Eiginmaðurinn valdi sér þó ekki eins rafhjól og Freyja, heldur fulldempað rafhjól, enda átti hann þannig fyrir, sem var órafmagnað.

„Núna er hann ansi spenntur að prófa að fara í lengri fjallaferðir. Það er það sem þeir sem eiga fulldempuð rafhjól tala helst um, að þeir komast mun lengri vegalengdir og geta því hjólað á áður ómögulegum stígum. Mig langar reyndar líka að eiga þannig hjól og er stefnan tekin á að eignast slíkt líka eftir eitt til tvö ár,“ segir Freyja.

Glæsilegt verkstæði

Samhliða opnum rafhjólaseturs var opnað fullbúið rafhjólaverkstæði á annarri hæð verslunar Ellingsen úti á Granda. Að sögn Freyju er það eitt glæsilegasta hjólaverkstæði landsins.

„Við höfum sérhæft okkur í þeim rafhjólum sem við seljum en við getum einnig gert við, yfirfarið og sinnt dekkjaskiptum fyrir flest öll rafhjól og rafhlaupahjól,“ segir Freyja.

„Við reynum að eiga alla helstu varahluti á lager. Það er tilvalið að koma með hjólið og láta yfirfara það á verkstæðinu og skoða búðina í leiðinni. Hún fékk mikla yfirhalningu í fyrra og er virkilega skemmtileg að skoða fyrir alla fjölskylduna. Enda er eitthvað fyrir alla þar.“