Helmingur stjórnenda Reiknistofu bankanna (RB) eru konur og eru stjórnendur og starfsfólk afskaplega stolt af þeirri staðreynd. Utan þess er um 35% starfsfólks kvenkyns sem er yfir meðaltali annarra upplýsingatæknifyrirtækja.

Meðal kvenkyns stjórnenda RB eru þær Þórunn Ingibjörg Pálsdóttir, forstöðumaður innlána og greiðslna, Þórný Pétursdóttir, forstöðumaður innheimtu og greiðslukerfa og Margrét Ingibergsdóttir, forstöðumaður kortakerfa. Helstu viðskiptavinir RB eru bankar og aðrar fjármálastofnanir og eru þær sammála um að það skipti miklu máli að ólíkir einstaklingar sitji við borðið þegar teknar eru ákvarðanir sem varða viðskiptavini bankanna. „Viðskiptavinir bankanna endurspegla fjölbreytileika mannlífsins og það skiptir máli að það sé fjölbreyttur hópur sem komi að ákvörðunum sem snerta þessa viðskiptavini. Svo er líka mikilvægt fyrir starfsfólk okkar að hafa fyrirmyndir af öllum kynjum og sjá að hér eru tækifæri til starfsþróunar og að láta gott af sér leiða,“ segir Þórunn.

Mjög eðlileg þróun

Raunar segja þær starfsfólk upp til hópa svo vant háu hlutfalli kvenkyns stjórnenda að það taki varla eftir því. „Hér starfa svo margar hæfar konur að þessi þróun í fjölda kvenkyns stjórnenda hefur bara gerst á mjög eðlilegan hátt,“ segir Margrét.

Þær kjósa reyndar frekar að nota orðið fjölbreytni í stað jafnréttis. „Þannig horfum við víðara á þetta en áður. Fyrst og fremst viljum við nefnilega fjölbreytni innan RB, hvort sem það snýr að kyni, aldri, menntun eða öðrum þáttum. Við höfum rekið okkur á það fyrir löngu að fjölbreytni gerir allt hópa­starf miklu betra. Auk þess er það hollt að okkar mati að viðskiptavinir okkar sjái hvað við búum yfir fjölbreyttum starfskrafti.“

Gönguhópur RB á góðri stund á leið upp Snæfell.

Laun kvenna hærri

Stjórnendur RB hafa ráðist í ýmsar aðgerðir á undanförnum árum til auka jafnrétti og fjölbreytileika innanhúss. RB hlaut fyrst jafnlaunavottun árið 2019 og gekk í gegnum s.k. endurvottunarúttekt í apríl sem gekk mjög vel. „Niðurstaðan var sú að jafnlaunakerfi RB uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins og nú gildir jafnlaunavottunin til ársins 2025. Í launagreiningu sem var framkvæmd í apríl var niðurstaðan sú að laun kvenna voru í fyrsta skipti hærri en laun karla,“ segir Þórný.

Ekki má gleyma breyttri hugtakanotkun í ræðu og riti en hjá RB er lögð mikil áhersla að segja ekki alltaf „þeir“ heldur „þau“ þegar talað er um hóp fólks. Þar sem umræðan í þessum tæknigeira hallast oft að því að verða heldur karllæg þá er mikilvægt að hafa þetta í huga, sérstaklega þar sem miðað er að því að fá ungt fólk til starfa.

Margt hefur breyst

Þórunn, Þórný og Margrét hafa verið mislengi á vinnumarkaði en allar greina þær breytingar í rétta átt þótt vissulega gætu þær verið hraðari. „Ég er búin að vera í þessum bransa í hátt í 40 ár og jafnrétti meðal kynjanna hefur verið að breytast jafnt og þétt allan tímann. Á síðasta vinnustað mínum voru aðstæður kannski svipaðar og hér hjá RB en það er mjög mikill munur á fyrsta vinnustaðnum mínum fyrir öllum þessum árum síðan og hvernig staðan er í dag. Á fyrsta staðnum sem ég vann á sem tölvunarfræðingur var ég eina konan,“ segir Þórunn.

Margrét hefur áður starfað hjá tveimur stærri tæknifyrirtækjum. „Kynjahlutfallið þar var mjög ólíkt eftir deildum. Sums staðar var það gott en svo síðra í öðrum deildum en starfsemin þar var reyndar mun fjölbreyttari en hér hjá RB.“

Það er öflugt félagslíf hjá RB og margt brallað saman.

Haldið áfram á sömu braut

Þær segja RB leggja sig fram um að skapa umhverfi þar sem starfsfólki líður vel og ráða til sín starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Enda hefur starfsánægja mælst há hjá fyrirtækinu og lykilatriði þar er að bjóða upp á gott starfsumhverfi þar sem fólki líður vel. „Það er því mikilvægt að halda áfram á sömu braut og RB hefur sett sér skýr markmið í aðgerðaáætlun sinni í jafnréttismálum sem gildir til loka árs 2022 og sem er aðgengileg öllum á heimasíðu fyrirtækisins. Innan RB starfa þrjú svið, hugbúnaðarsvið, tæknirekstur og skrifstofa forstjóra og þrátt fyrir að hlutfall kvenna sé hátt hjá RB miðað við önnur upplýsingatæknifyrirtæki þá starfa þær flestar innan hugbúnaðarsviðsins og næsta áskorun er að auka hlut kvenna í störfum í tæknirekstri,“ segir Margrét.

Skemmtilegur vinnustaður

RB er eftirsóttur vinnustaður og eru þær sammála um að það sé mjög gott að vinna þar. „Hér vinnur fyrst og fremst svo frábært starfsfólk og verkefnin eru fjölbreytt og skemmtileg enda snerta þau flest öll almenning á hverjum degi með einum eða öðrum hætti. Ég man að þegar ég hóf störf hér sagði margt fólk í kringum mig: „Það vinnur svo gott fólk hjá RB“ og það reyndist svo sannarlega rétt. Hér er líka boðið upp á öflugt félagslíf en hjá RB er meðal annars starfandi kór, gönguhópur og nokkrar hljómsveitir,“ segir Þórný.