„Þú getur byrjað hvenær sem er og færð heimaæfingar og fræðslumyndbönd frá mér í hverri viku,“ segir Harpa. „Ég leiði þig í gegnum æfingar sem byggja stoðkerfið upp á heildrænan máta en þú velur á milli þess að leggja áherslu á bakið, mjaðmagrind og fótleggi eða á háls, efra bak og axlir.“
Harpa segir æfingarnar geta verið mjög einfaldar og léttar, allt frá æfingum þar sem setið er á stól eða með stuðning, yfir í fjölbreyttar og kröftugar styrktar- og stöðugleikaæfingar með lóðum.
„Við vinnum að því að bæta líkamsstöðu, líkamsbeitingu og líkamsvitund á sama tíma og við aukum styrk, stöðugleika og liðleika líkamans. Ég fer einnig með þér í gegnum jafnvægisæfingar, öndunaræfingar, djúpvöðvaæfingar, nudd og teygjur sem minnka vöðvaspennu og draga úr stífleika í liðum,“ segir Harpa.
„Ef þú hefur háls- eða bakverki er mikilvægt að æfingarnar séu hæfilega erfiðar og að álagsþol stoðvefjanna sé byggt upp smám saman. Ef þú hefur ekki verki getur þú byggt álagsþolið upp hraðar og farið á svokallaða „Hraðbraut“. Einnig getur þú valið að gera upphitun með dansívafi sem minnkar vöðvaspennu, dregur úr stífleika í liðum og er því gott að gera samhliða styrktar- og stöðugleikaæfingum.
Ef þú átt erfitt með að gera æfingar í standandi stöðu er tilvalið að gera dýnuæfingar, æfingar sitjandi á stól eða standandi í stuttan tíma með stuðningi við borð eða vegg. Æfingar í sundlaug eru einnig góðar þar sem við vegum aðeins einn tíunda af líkamsþyngdinni þegar við stöndum með vatnsyfirborðið í axlarhæð. Vatnið veitir okkur stuðning en einnig mótstöðu í æfingum. Það þarf að eiga airpods (Bluetooth-heyrnartól) til að hlusta á mig leiða æfingarnar í laug,“ segir Harpa og bætir við að myndbönd af æfingunum fylgi einnig með.
Dr. Harpa Helgadóttir hefur starfað við greiningu og meðferð fólks með háls- og bakverki frá því hún lauk sérfræðinámi í stoðkerfisfræðum árið 2000. Doktorsgráðu lauk hún árið 2010 frá Háskóla Íslands þar sem hún rannsakaði starfsemi háls, efra baks og axla hjá fólki með hálsverki. Harpa hefur kennt Háls- og bakleikfimi í 30 ár og hefur þróað æfingakerfi sem byggir kerfisbundið upp álagsþol stoðvefja. Æfingarnar byggja á vísindalegum grunni og nýjustu þekkingu í þjálfun fólks með háls- og bakvandamál.
Harpa kennir Háls- og bakleikfimi í Heilsuklasanum við Bíldshöfða og í sundlauginni í Boðaþingi, Kópavogi.



