Hugbúnaður frá Skræðu ehf. er notaður á nær öllum sviðum heilbrigðisþjónustu á Íslandi eins og til dæmis á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, af sérfræðilæknum, sálfræðingum, heimaþjónustu, endurhæfingarþjónustu og fleirum, enda hefur fyrirtækið starfað hérlendis í um 13 ár.

„Útbreiddasta lausnin frá okkur er PMO sjúkraskrárkerfið. PMO er fullkomnasta sjúkraskrárkerfi sem völ er á á Íslandi og þó víðar væri leitað enda gríðarlega fjölhæf og sveigjanleg lausn,“ segir Eyþór Kristleifsson, framkvæmdastjóri hjá Skræðu.

„Við bjóðum PMO ásamt hýsingu í skýinu í ISO-27001, vottuðu gagnaveri þannig að notendur geta komist í kerfið á öruggan máta hvar og hvenær sem er. Þetta reyndist mjög mikilvægt þegar lokanir fóru í gang í mars og apríl.“

Önnur lausn frá Skræðu sem náð hefur mikilli útbreiðslu er eGátt. eGátt er ný kynslóð hugbúnaðar sem virkar á öllum tækjum hvort sem það eru farsímar, spjaldtölvur eða venjulegar tölvur, svokallaður „cross platform“ hugbúnaður.

PMO sjúkraskrárkerfið er að sögn Eyþórs það fullkomnasta á Íslandi.

„Í eGátt höfum við smíðað eitt flóknasta en um leið notendavænsta og hraðvirkasta reikningskerfi sem þekkist. Tilgangurinn var að lágmarka tíma og vinnu við gerð og umsýslu reikninga. Að afgreiða reikning sjúklings tekur innan við 10 sekúndur. eGátt talar jafnframt við greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands og reiknar allar upphæðir í rauntíma á grundvelli afsláttarstöðu sjúklings hjá Sjúkratryggingum. Reikningarnir sendast síðan sjálfvirkt til Sjúkratrygginga án frekari aðgerða eða handavinnu,“ útskýrir Eyþór.

„Auk reikningsgerðar erum við jafnframt með í eGátt lyfjaávísanakerfi, uppflettingargátt fyrir sjúkraskrár sjúklinga á landsvísu auk uppflettinga í lyfjagrunni landlæknis. Þetta eru allt eiginleikar sem eru mjög mikilvægir við fjarvinnu og til mikillar hagræðingar þar sem unnt er að afgreiða lyfjaávísanir, skoða lyf sjúklings, gefa út reikninga og fleira hratt og örugglega, hvort sem er úr farsíma, spjaldtölvu eða venjulegri tölvu.“

eGátt, notendavænt reikningskerfi.

Fjarlækningar fyrir sálfræðinga og geðlækna

Quera er annað glænýtt hugbúnaðarkerfi frá Skræðu sem er hannað til að framkvæma skimanir og leggja staðlaða spurningalista fyrir sjúklinga með rafrænum hætti. Sjúklingar geta þannig svarað hvort sem er á staðnum eða í farsímanum heima hjá sér. Lausnin nýtist vel til fjarlækninga þar sem hún gerir mögulegt að safna hvers kyns upplýsingum frá sjúklingum fjarrænt með öruggum hætti að sögn Eyþórs. Quera er hægt að tengja við sjúkraskrárkerfið þannig að niðurstöðurnar flytjist beint inn í sjúkraskrána.

„Í dag erum við mest að stíla inn á sálfræðinga og geðlækna enda skimanir, spurningalistar og greiningarpróf mikið notuð hjá þessum fagaðilum. Hins vegar sjáum við fjölmörg önnur tækifæri fyrir Quera, bæði innan og utan heilbrigðisgeirans, hérlendis og erlendis.“

Skræða býður einnig upp á rafrænar tímabókanir. Sjúklingar geta þannig bókað tíma hjá lækni, sálfræðingi eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni á netinu.

„Við bjóðum einnig upp á að bókunin færist sjálfkrafa í sjúkraskrárkerfið þannig að heilbrigðisstarfsmaður hafi yfirsýn yfir tímabókanirnar á einum stað fremur en að þurfa að fara milli vefbókunarkerfisins og sjúkraskrárinnar til að skoða hvaða tímar eru lausir eða hverjir eiga bókaðan tíma,“ segir Eyþór.

„Nálgun okkar í netbókunum er frábrugðin því sem aðrir eru að bjóða á Íslandi. Hún miðast við einstaklingsbundna nálgun í þeim tilgangi að ná sem flestum notendum inn á vefsíðu viðkomandi þjónustuaðila. Hún byggist á grundvelli þeirra lögmála sem gilda um viðbrögð netverja við niðurstöðum úr leitarvélum eins og Google. Þannig er vel þekkt að efstu fimm niðurstöður leitar fá 75% af öllum smellum (CTR: click through rate) og að 53% notenda yfirgefa síðuna (bounce rate) hafi þær upplýsingar sem viðkomandi var að leita að ekki birst innan þriggja sekúndna. Það er því til lítils að leggja í mikinn kostnað við bókunarkerfi eða vefsíður til þess eins að til dæmis lenda á löngum lista yfir heilbrigðisstarfsmenn á vefsíðu sem ekki grípur athygli sjúklingsins. Okkar lausnir miðast við að geta boðið heilbrigðisþjónustuaðilum einstaklingsmiðaða netframsetningu á þjónustu þeirra og bókunarsíður til hámörkunar á sjúklingabókunum. Þar með taldir eru möguleikar á að sérsníða mikilvægar upplýsingar á síðurnar fyrir hvern einstakan veitanda heilbrigðisþjónustunnar sem ná athygli þess sem leitar.“

Eyþór segir að viðskiptavinir Skræðu sem tekið hafa upp heildrænar lausnir af þessu tagi nái ekki að anna eftirspurn á sama tíma og umsýslu- og ritarakostnaður hefur orðið að nánast engu.

Quera er glænýtt hugbúnaðarkerfi, hannað til að framkvæma skimanir.

Þróuðu sitt eigið fjarfundakerfi

Þegar COVID-faraldurinn skall á snemma árs ákváðu þau hjá Skræðu að meta hvernig unnt væri að bregðast við. Þau sáu þá að fyrirtækið var með lausnarmengi sem nær til nánast alls sem þörf er á til að reka fjarheilbrigðisþjónustu.

„Það eina sem upp á vantaði var fjarfundakerfi. Við tókum okkur því til og þróuðum okkar eigið kerfi sem kallast TeleMed. TeleMed er hannað með það fyrir augum að auðvelt sé að samþætta það við hvaða sjúkraskrárkerfi sem er. Þannig getur heilbrigðisstarfsmaður opnað viðtalið beint úr sjúkraskrá sjúklings. Sjúklingur skráir sig inn í viðtalið með rafrænum skilríkjum og öll samskiptin eru dulkóðuð,“ segir Eyþór.

„TeleMed var síðasta púslið sem vantaði til að geta boðið upp á heildræna samþætta lausn til reksturs fjarrænnar heilbrigðisþjónustu um netið og á sama tíma uppfylla lagalegar kröfur yfirvalda um öryggi og vernd samskiptanna og persónuupplýsinga. Með okkar kerfum er hægt að veita heilbrigðisþjónustu til sjúklinga um allan heim, hvaðan sem er, með fartölvunni einni saman. Við erum mjög hreykin af öllu því sem við höfum þróað, ekki síst í ljósi þess að okkur hefur tekist þetta með einungis tveimur starfsmönnum, auk mín, og án aðkomu hins opinbera.“


Nánari upplýsingar á Skræða.is