Linda Lea Bogadóttir, markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar, segir möguleikana á afþreyingu og útivist í sveitarfélaginu ótæmandi.

„Fjallabyggð býr að stórbrotinni náttúrufegurð þar sem fegurð fjalla og fjarða er stórfengleg og möguleikar á sviði útivistar og tómstunda eru hreint óþrjótandi. Návígið við náttúruna er ávallt innan seilingar, hvort heldur haldið er í gönguferðir, í golf, sjósund, sjóbretti, kajak, sæþotur, eða slakað á í rómuðum bæjarkjörnunum. Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Fjallabyggð.“

Linda Lea Bogadóttir, markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar, segir að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Fjallabyggð.

Stórbrotin náttúra

Linda segir Héðinsfjarðargöngin, sem opnuð voru árið 2010, hafa gert það að verkum að nú sé auðveldara að ferðast um svæðið, nokkuð sem ferðamenn hafa nýtt sér. „Ferðamannastraumur til Ólafsfjarðar og Siglufjarðar hefur aukist umtalsvert eftir að Héðinsfjarðargöng voru opnuð, en með tilkomu þeirra er nú aðeins um 15 mínútna akstur á milli þessara byggðakjarna, sem mynda sveitarfélagið Fjallabyggð.“

Þetta hafi opnað fyrir nýjan heim möguleika. „Með tilkomu Héðinsfjarðarganga er Tröllaskagi orðinn ákjósanlegur áfangastaður fyrir ferðamenn, enda hefur hann upp á margt að bjóða; stórbrotna náttúru, fjölbreyttar gönguleiðir, fjölskrúðugt fuglalíf og mikla afþreyingarmöguleika.“

Það sé nóg um að vera hvað afþreyingu snertir. „Í Fjallabyggð eru tveir níu holu golfvellir og tvær sundlaugar, þar af er önnur útisundlaug, heitir pottar, setlaug, vaðlaugar og tvær rennibrautir.“

„Í Héðinsfirði hefur verið komið upp upplýsingaskiltum um sögu fjarðarins og eru ferðalangar hvattir til að nota tækifærið á ferð sinni og hafa þar viðdvöl, njóta náttúrunnar og fræðast um þennan eyðifjörð.“

Þá nýtur Fjallabyggð ákveðinnar sérstöðu. „Sem nyrsta byggð á landinu er Fjallabyggð með betri stöðum til að njóta miðnætursólarinnar.

Hamingja á fjöllum

Annað sem er bæði sérstakt og eftirsóknarvert við Fjallabyggð, eru að sjálfsögðu ægifögur fjöll. „Fjöllin á Tröllaskaga geyma einhver hæstu fjöll Norðurlands, sem heilla marga fjallagarpa. Fjölmargar fallegar og spennandi gönguleiðir eru í kringum Siglufjörð, Ólafsfjörð og Héðinsfjörð,“ segir Linda.

„Snjóflóðavarnargarðarnir á Siglufirði og varnargarðurinn við Hornbrekku í Ólafsfirði hafa vakið mikla athygli fyrir góða hönnun, þeir falla vel að náttúrunni og eru göngustígar á þeim flestum og henta vel til útivistar.“

Gönguleiðakort er bæði að finna á heimasíðu bæjarfélagsins, sem og í upplýsingamiðstöðvum Fjallabyggðar.

Sundlaug Ólafsfjarðar svíkur engan. MYND/MAGNÚS A. SVEINSSON

Blómlegt menningarlíf

Það er ekki bara náttúran sem er gróskumikil í Fjallabyggð, en þar er að finna fjölda veitingastaða og áhugaverðra safna. „Í Fjallabyggð er blómlegt menningarlíf. Fjöldi veitingahúsa og gistimöguleikar miklir. Söfnin okkar og setrin, gallerí og listasmiðjur sem enginn má láta vera að skoða, en þar má nefna söfn sem flestir þekkja eins og Síldarminjasafnið á Siglufirði, Ljóðasetur Íslands á Siglufirði, Pálshús í Ólafsfirði, sem hýsir einstakt náttúrugripasafn, og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði.“

Fyrir alla fjölskylduna

Þá eru börnin að sjálfsögðu ekki undanskilin. „Börnunum ætti ekki að leiðast í Fjallabyggð en hér er að finna afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Svört sandfjaran heillar marga krakkana, gönguferðir á snjóflóðavarnargarðana, ganga í Hvanneyrarskál er auðveld fyrir litla fætur og útsýnið stórkostlegt þegar upp er komið. Hægt er að fara á hestbak, spila minigolf, dorga á bæjarbryggjunni, eða leyfa börnunum að gleyma stað og stund í stórkostlegum söfnum og setrum og kíkja á ævintýraheiminn í skógræktinni á Siglufirði, en skógurinn okkar er sannkölluð náttúruperla sem býður upp á ratleiki, góða grillaðstöðu og margt fleira sem gerir góða fjölskyldustund gulli betri.“

Linda hvetur fjölskyldufólk til að kynna sér upplýsingar um afþreyingu og námskeið í Fjallabyggð. „Á heimasíðu Fjallabyggðar er meðal annars að finna upplýsingar um sumarnámskeið, þar sem mörg þeirra eru opin öllum börnum. Í Fjallabyggð er líka að finna tvær frábærar sundlaugar, ærslabelgi, góð leiksvæði og margt, margt fleira. Hér ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.“

Sjá nánar á: fjallabyggd.is / visittrollaskagi.is