Umhverfisstofnun fer með umsjón Grænna skrefa sem er fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneyti. „Aðalmarkmiðin eru að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins og auka þekkingu starfsmanna á umhverfismálum. Þátttaka er stofnunum að kostnaðarlausu,“ segir Hildur Harðardóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og einn af fjórum umsjónarmönnum verkefnisins.

Lengi má gott bæta

„Eins og er þá er verkefnið hugsað fyrir ríkisstofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkis, enda mikilvægt að ríkið sýni gott fordæmi þegar kemur að ná árangri í umhverfismálum. Reykjavíkurborg starfrækir einnig Græn skref í starfsemi sinni. Von okkar er sú að í framtíðinni verði Grænu skrefin í boði fyrir öll sveitarfélög og fyrirtæki enda mikill og jákvæður ávinningur af þeim. Með skrefunum öðlast starfsmenn nýja þekkingu sem þeir tileinka sér vonandi jafnt í vinnunni og utan. Einnig er innkaupamáttur ríkisins mikill og hefur það sýnt sig að stofnanir geta með samtakamætti sínum knúið áfram breytingar í krafti stærðar sinnar í þágu samfélags og umhverfs. Í dag eru 107 stofnanir skráðar til leiks og verkefnið nær til 12.800 starfsmanna ríkisins, sem má telja afar gott, en lengi má gott bæta,“ segir Þorbjörg Sandra Bakke, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, einn umsjónarmanna verkefnisins.

Allir geta tekið skrefin

Þess má geta að allt efni tengt verkefninu, gátlistar, vinnugögn og ítarefni er opið og því er um að gera fyrir fyrirtæki og stofnanir að stíga græn skref á eigin vegum og styrkja þannig heildaráhrif verkefnisins. „Við hvetjum áhugasama að nýta sér það í sínu starfi, hvort sem það eru fyrirtæki, félagasamtök, heimili eða aðrir. Enda geta allir lagt sitt af mörkum,“ segir Þorbjörg.

Hingað til hefur verkefnið verið valkvætt en samkvæmt Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins sem var samþykkt í fyrra, eiga allar ríkisstofnanir að hafa klárað öll fimm grænu skrefin fyrir júní 2021. „Samkvæmt lögum um loftslagsmál ber öllum stofnunum, og raunar sveitarfélögum líka, að setja sér loftslagsstefnu og er tilvalið að skrá sig í Grænu skrefin og framfylgja stefnunni með þeim hætti,“ bætir Hildur við.

Flokkarnir sem farið er í hjá hverju fyrirtæki sem taka Grænu skrefin.

Fimm skref

Umhverfisstofnun leggur upp með að verkefnið sé einfalt og aðgengilegt svo allir geti tekið þátt. Þá er mikilvægt að aðgerðum sé skipt upp í skref sem gerir innleiðinguna viðráðanlegri. „Til að taka þátt í Grænum skrefum fylgir hver vinnustaður skýrum gátlistum sem skipt er upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur. Aðgerðunum er skipt í sex flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í hefðbundnum skrifstofurekstri. Flestar aðgerðirnar stuðla að framgangi heimsmarkmiðanna með einum eða öðrum hætti. Til dæmis snúa þær að því að draga úr neyslu líkt og markmið tólf um ábyrga neyslu og framleiðslu, og auka hlut vistvænna samgangna eins og markmið ellefu um sjálfbærar borgir og samfélög gerir ráð fyrir.

Þegar aðgerðirnar hafa verið uppfylltar koma fulltrúar Umhverfisstofnunar í úttekt og ef allt stenst fær vinnustaðurinn viðurkenningu sem er undirrituð af umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að hafa lokið viðkomandi skrefi. Þá er mikilvægt að starfsmenn fagni áfanganum vel og rækilega og svo er haldið áfram í næsta skref þar til öllum fimm er lokið,“ segir Hildur.

Ávinningurinn ótvíræður

„Reynslan hefur sýnt að þátttaka í Grænum skrefum er ekki einungis til þess fallin að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af rekstrinum, heldur felst ávinningurinn líka í lægri rekstarkostnaði, bættri ímynd, aukinni umhverfisvitund og starfsánægju vegna nýrrar þekkingar og jafnvel bættrar starfsaðstöðu. Svo höfum við heyrt að það sé gaman að stíga skrefin og gott að horfa á starf sitt út frá þeim! Við hvetjum ríkisstofnanir eindregið til að skrá sig í Grænu skefin á www.graenskref.is, verkefnið er stofnunum að kostnaðarlausu og Umhverfisstofnun býður aðstoð og ráðgjöf við innleiðingu,“ segir Þorbjörg að lokum.

www.graenskref.is