Í ár er einlægur vilji til að beina kastaranum að örlítið fleiri konum, í von um að þær fái verðskuldaða athygli á tímum heimsfaraldurs. Konur sem hafa verið heiðraðar í gegnum árin hafa fundið á eigin skinni hvernig Viðurkenning FKA er hreyfiafl, hefur liðkað til í leit að fjármagni og aukið sýnileika kvenna sem eru að taka flugið. Félagið óskaði eftir tilnefningum af landinu öllu, þar sem mikilvægt er að fá fjölbreyttan hóp kvenna á blað. Dómnefnd skipuð sjö aðilum fór yfir allar tilnefningar sem bárust FKA vegna Viðurkenningarhátíðar 2022 og funduðu. Hér vindum við okkur í tilraun „út úr kófinu“ en um eitt hundrað og fimmtíu tilnefningar bárust – Það sagði enginn að þetta ætti að vera auðvelt.

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

„Edda er vísindakona á heimsmælikvarða og Carbfix stórmerkileg tækni sem nýtist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.“ „Áberandi talskona jafnréttis, öðrum konum og einstaklingum í orkugeiranum fyrirmynd og fyrirmynd þvert á allt, enda að leiða eitt framsæknasta fyrirtæki heims á sviði loftslagsmála.“ „Edda hefur verið lykilkona í Carbfix-hópnum frá upphafi, hefur þróað aðferðina og fylgt henni gegnum rannsókna- og tilraunafasa auk innleiðingar hennar á Íslandi. Ísland er í þeirri stöðu að hafa þróað verðmæta tæknilausn í loftslagsmálum. Edda er fyrirmynd jafnt í vísindum sem í atvinnulífinu. Tæknilausn sem er að virka gegn loftslagsvánni, það er erfitt að toppa!

Fortuna Invest.

Fortuna Invest

Samstarfsverkefni Anítu Rutar Hilmarsdóttur, Kristínar Hildar Ragnarsdóttur og Rósu Kristinsdóttur „Fortuna Invest hefur sprungið út og það hefur verið frábært að fylgjast með þeim vaxa og þróast. Rakel Eva Sævarsdóttir er ekki lengur með, en er sannarlega einn af stofnendum og er líka flott fyrirmynd, vaxandi leiðtogi.“ „Hér hefur tekist að fá aðeins meiri fjölbreytileika á fjármálamarkaði og koma af stað umræðu og vitundarvakningu meðal kvenna sem var nauðsynleg.“ „Fræðsla um fjárfestingar hefur fengið andlitslyftingu og það verður spennandi að fylgjast með þróun mála. Instagram er frábær fræðsluvettvangur og ánægjulegt að sjá þær taka sér þar pláss.“

Inga Tinna Siruðardóttir.

Inga Tinna Sigurðardóttir, Dineout

„Inga Tinna byrjaði með autt blað, stofnaði fyrirtækið, þróaði hugbúnað, kom á koppinn markaðstorgi sem tengir alla veitingastaði við almenning, hótelstarfsfólk og fleira.“ „Mikill frumkvöðull sem hefur skapað störf og stuðlar að nýsköpun. Síðast þegar ég vissi voru tæplega 200 veitingastaðir að nota hugbúnaðarlausnir frá Dineout og margar milljónir bókana hafa farið í gegnum kerfið.“ „Hugbúnaðarfyrirtæki sem stækkar svo ört. Ef þið hafið ekki horft til hennar, mæli ég með því! Þvílíkur kraftur og þvílík kvenfyrirmynd.“

María Guðmundsdóttir.

María Guðmundsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Parity

„Fjölbreytileikinn í tölvuleikjagerð er mikilvægur og hér hefur María náð þvílíku flugi og fengið verðskuldaða athygli með íslenska tölvuleikjafyrirtækið Parity, sem var stofnað fyrir um tveimur árum.“ „María Guðmundsdóttir starfaði hjá CCP í yfir áratug, sem er mikill áhrifavaldur í leikjaiðnaðinum. Þetta er afar karllægur heimur, en María hefur sýnt að hann þarf ekki að vera það.“ „Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Parity sem stofnað er af Maríu hefur náð þvílíku flugi í bransa sem er annars að kafna í karlamenningu. Á sama tíma er fullt af fólki, annað en karlar, sem eru, eða hefðu gaman af því, að vera „gamers“.

Gerður Huld Arinbjarnardóttir.

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Blush

„Gerður er búin að reka Blush í áratug og hefur á þeim tíma breytt ímynd kynlífstækja og stjórnenda. Það er kjarkur og þor sem einkennir hana og óhætt að segja að hún hafi breytt viðhorfi.“ „Karakterinn og einlægnin hefur skapað Gerði sérstöðu og skapað Blush samkeppnisforskot.“ „Einbeitt í því sem hún gerir og það vantar ekki kraftinn í þessa konu. Fyrirmynd sem hefur opnað samtalið og breytt ásýnd kynlífstækja og unaðsvara.“