„Gefn þróar tækni sem umbreytir úrgangi og útblæstri í græna efnavöru og styður þannig við innleiðingu hringrásarhagkerfisins og að sjálfbærara samfélagi,“ útskýrir Vala Steinsdóttir, rekstrarstjóri Gefn, um starfsemi félagsins.

„Við erum að ljúka fyrstu fjármögnun félagsins og á næstunni munum við setja í sölu græn, Svansvottuð hreinsiefni sem eru hönnuð út frá tækni og hugmyndafræði fyrirtækisins. Gefn selur efnin undir eigin vörumerkjum en getur einnig boðið öðrum söluaðilum sérmerktar vörur (e. white label),“ greinir Vala frá. Við framleiðslu hreinsiefnanna eru notuð innlend hráefni sem unnin eru úr úrgangi.

„Kolefnisspor hráefnanna eru því í lágmarki og geta komið í stað varasamra efna sem alla jafna eru unnin úr jarðefnaeldsneyti, til dæmis terpentínu og annarra rokgjarnra lífrænna leysiefna,“ upplýsir Vala.

Leysa mengandi efni af hólmi

Hjá Gefn starfar öflugt teymi efnaverkfræðinga, efnafræðinga og annarra sérfræðinga.

„Það gerist ekki á hverjum degi að hreinsiefni, sem fram að þessu hafa þótt óumhverfisvæn og skaðleg, hljóti Svansvottun, en Gefn fékk afhentar Svansvottanir fyrir annars vegar tjöruhreinsi og hins vegar olíu- og asfalthreinsi. Það er í fyrsta skipti sem íslenskt fyrirtæki fær Svansvottun fyrir slík efni,“ segir Vala.

Efnunum sem Gefn hefur þróað, og hafa nú hlotið Svansvottun, er ætlað að leysa af hólmi heilsuspillandi og mengandi efni sem víða eru notuð í iðnaði, fyrirtækjarekstri og af einstaklingum.

„Um er að ræða einstaka vöru, ekki bara á Íslandi heldur einnig á alþjóðlegum markaði þar sem er full þörf á sambærilegum vörum og Gefn þróar. Hugmyndafræði Gefnar fer saman við hugmyndafræði Svansins sem snýst meðal annars um að setja kröfur á uppruna og eðli hráefna, framleiðsluaðferðir, vinnu- og gæðaferla, sem og möguleika til endurnýtingar eða endurvinnslu. Kröfurnar eiga að tryggja að Svansvottaðar vörur hafi sem minnst áhrif á heilsu fólks og umhverfi,“ upplýsir Vala.

Verðmæti úr úrgangi

Ásgeir Ívarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Gefnar, segir Svansvottanirnar mikilvægan áfanga sem staðfesti að Gefn sé á réttri leið með þær tæknilausnir sem fyrirtækið vinni að.

„Á undanförnum árum hefur fyrirtækinu verið úthlutað um 100 milljónum króna úr samkeppnissjóðum sem er til marks um nýsköpunargildi, mikla þörf fyrir tæknilausnir sem félagið vinnur að og hæfi teymis þess til að leysa flókin tæknileg viðfangsefni. Sem dæmi má nefna að í fyrra fékk félagið styrk úr Tækniþróunarsjóði til tveggja ára og fyrr á þessu ári hlaut félagið styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar, fjórða árið í röð. Í sumar fékk Gefn líka styrk frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, og í haust fékk félagið styrk frá Orkusjóði sem nýttur verður ásamt annarri fjármögnun til byggingar fyrstu verksmiðju félagsins,“ segir Ásgeir og bætir við:

„Öll verkefni Gefnar miða að því að nýta úrgang, aukaafurðir og útblástur til framleiðslu grænna og verðmætra efna.“

Sjá allt um Gefn á gefn.is