Janus heilsuefling er ráðgjafa- og þjónustufyrirtæki sem hefur það að markmiði að stuðla að bættri heilsu og betri lífsgæðum eldri borgara. Verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ - Leið að farsælum efri árum hófst árið 2017 í Reykjanesbæ og byggir á doktorsverkefni Janusar sem hann vann á árunum 2007-2014. „Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að sýna fram á að hægt væri að færa ýmsar heilsufarslegar breytur til betri vegar hjá eldri einstaklingum með markvissri þjálfun. Hnitmiðuð fræðsla um æskilega næringu fyrir þennan aldurshóp var einnig lykilþáttur í þessu ferli,“ segir dr. Janus Guðlaugsson.

Ótvíræðar niðurstöður

Doktorsverkefni Janusar var ætlað að sýna fram á að snúa mætti öldrunarferlinu við um tíma með markvissum heilsutengdum forvörnum. Enda kom það í ljós að heilsa hinna eldri batnaði til muna, afkastageta þeirra efldist og hreyfigetan varð betri. Vöðvamassinn jókst og fitumassinn minnkaði auk þess sem blóðþrýstingur lækkaði verulega og blóðgildi færðust til betri vegar.

Rannsóknin stóð yfir í eitt og hálft ár og voru niðurstöðurnar ótvíræðar. Þátttakendur voru 115 talsins og meðalaldur um 80 ár. „Helmingur hópsins tók fyrst þátt sem viðmiðunarhópur og breytti ekki daglegum venjum sínum í 6 mánuði á meðan hinn helmingurinn, þjálfunarhópurinn, hlaut þjálfun í 6 mánuði.

Áður en þjálfun hófst voru báðir hópar mældir. Engan mun var að finna milli hópanna í upphafi. Eftir sex mánaða þjálfun var marktækur munur á flestum mælibreytum. Á sama tíma stóð viðmiðunarhópur í stað eða niðurstöður færðust til verri vegar og munur milli hópanna kom í ljós. Þegar viðmiðunarhópur fékk sömu þjálfun 6 mánuðum síðar færðust niðurstöður hjá þeim til betri vegar á sama hátt og hjá þjálfunarhópi.

Þegar sömu hópar voru mældir þremur árum síðar kom í ljós að flestar breyturnar höfðu færst til baka í upphaflegt horf eða versnað. Við greiningu kom í ljós að um 50% þátttakenda höfðu hætt styrktarþjálfuninni og verulega dró úr daglegri hreyfingu. Þetta sagði okkur að sex mánaða þjálfun væri of stutt heilsufarsferli til að breyta lífsstíl eldri einstaklinga. Þess vegna bjóðum við upp á tveggja ára þjálfunarferli hjá Janus heilsueflingu sem skipt er upp í fjögur sex mánaða stigvaxandi þrep með fjórum markvissum fræðsluerindum í hverju þrepi þar sem næring er ráðandi þáttur.“

Önnur mjög áhugaverð niðurstaða kom í ljós þegar öllum þátttakendum var skipt í þrjá mismunandi aldurshópa. Þá sáum við að elsti aldurshópurinn, 85 ára og eldri, náði meðal annars hreyfifærni og styrk þeirra sem voru 10-15 árum yngri. Þetta sýndi vel hvað aldur er afstæður en um leið hve máttur heilsueflingar getur verið mikill, sé vel og skipulega að verki staðið.“

Janus ítrekar að nú ríði á að styðja við heilbrigðiskerfið með heilsutengdum forvörnum svo það kikni síður undan auknu álagi sem hlýst af þjónustu við þennan sívaxandi hóp eldri borgara. Fréttablaðið/Eyþór

Starfsemi í sjö sveitarfélögum

„Verkefnið hófst í Reykjanesbæ árið 2017. Síðan þá hefur hvert sveitarfélagið af öðru bæst í hópinn. Í dag er verkefnið starfrækt í sex sveitarfélögum og það sjöunda fer af stað í haust.

Við erum í samstarfi við Reykjanesbæ, Hafnarfjörð, Vestmannaeyjabæ, Grindavík, Seltjarnarnes og Félag eldri borgara í Garðabæ sem greiða niður kostnað við þátttöku íbúa sinna sem eru 65 eða eldri. Í lok sumars hefjum við samstarf með Fjarðabyggð en kynning á verkefninu fer fram á þremur stöðum mánudaginn 8. ágúst næstkomandi; kl. 11.00 í Skrúð á Fáskrúðsfirði, kl. 15.00 í samkomusal Reyðarfjarðarkirkju og kl. 19.30 í Egilsbúð á Norðfirði.

Vegna mikillar eftirspurnar höfum við síðustu mánuði boðið íbúum þeirra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem ekki eru í samstarfi við okkur að taka þátt í verkefninu án niðurgreiðslu. Það hefur gengið gríðarlega vel og ætlum við að bæta við fleiri þátttakendum núna í ágúst. Hægt er að kynna sér verkefnið betur á heimasíðu okkar: janusheilsuefling.is. Kynningarfundur á verkefninu verður 15. ágúst kl. 17.00 í húsakynnum KSÍ (Knattspyrnusambands Íslands) í Laugardal.“

Áframhaldandi árangur

„Starfsemi Janusar heilsueflingar er enn þá rannsóknartengd og niðurstöður hafa vakið athygli. Hvert þjálfunarferli er skipulagt í 6 mánuði í senn. Með því móti höldum við árangrinum sýnilegum yfir tveggja ára tímabil.

Í styrktarþjálfun er unnið í 8-12 manna hópum. Þjálfunin er samt sem áður einstaklingsmiðuð þar sem hver og einn fær þjálfunarálag út frá eigin getu. Líkaminn er magnað fyrirbæri og þrátt fyrir hækkandi aldur getum við bætt við meðal annars vöðvamassann eða aukið afkastagetuna.

Myndin sýnir áhugaverða þróun á mati rúmlega 800 þátttakenda á eigin heilsu yfir tveggja ára tímabil. Sjá má að heilsa þeirra batnar með hverju sex mánaða tímabili sem líður.

Markmið markvissrar heilsueflingar

Eitt af markmiðum með heilsueflingunni er að gera einstaklinginn sjálfbæran á eigin heilsu og fræða hann um það hversu oft í viku, hve lengi í senn og hve ákaft sé æskilegt að stunda heilsurækt. „Þannig eflist heilsulæsið. Það gerir þetta enginn fyrir okkur. Til þess að snúa heilsunni til betri vegar þarf einstaklingur að hreyfa sig daglega í um 30 mínútur og stunda styrktarþjálfun 2-3 sinnum í viku. Þá þarf hann að nærast vel, sér í lagi að huga að próteinríkri fæðu vilji hann bæta vöðvamassann. Þetta er lykillinn að áframhaldandi árangri.

Ég veit ekki um neinn aðila á landinu sem er með jafnhátt þjónustustig á heilsutengdum forvörnum og Janus heilsuefling er með fyrir þennan aldurshóp. Við mælum vöðva- og fitumassa hjá þátttakendum og fylgjumst með heilsu þeirra og velferð. Einnig störfum við með heilsugæslunni á nokkrum stöðum sem leggja nú aukna áherslu á þjónustu við 65 ára og eldri.

Við höfum kannað efnaskiptavillu hjá mörgum hópum okkar, en það er áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma. Hér getum við greint í samvinnu við heilsugæsluna hvort þátttakendur búi við efnaskiptavillu. Að baki greiningu eru þrjú blóðgildi (blóðsykur, góða kólesterólið og blóðfitan) auk blóðþrýstings og ummál mittis. Sé einstaklingur með þrjá þætti eða fleiri yfir eða undir alþjóðlegum viðmiðunum þá er hann í áttfalt meiri áhættu að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóm en sá sem er með alla þessa þætti í lagi. Því miður búa á milli 25-50% okkar þátttakenda við efnaskiptavillu en með markvissri heilsueflingu, þjálfun og fræðslu höfum við séð um og yfir 30% ávinning á 6-12 mánaða tímabili þar sem einstaklingar færast úr áhættuflokki.“

Ertu að flýta þér inn á dvalar- og hjúkrunarheimilið?

„Færa má rök fyrir því að ávinningur heilsueflingarinnar getur að öllum líkindum seinkað innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili, jafnvel hindrað slíkt ferli. Ef einstaklingur vill búa lengur í sjálfstæðari búsetu og sinna athöfnum daglegs lífs lengur, þarf hann að vita hvernig eigi að bregðast við. Lykilatriðið er að stunda hreyfinguna reglubundið, gefa ekkert eftir og taka sér ekkert frí frá þjálfun. Lífið er stöðug heilsuefling. Ef vilji er fyrir hendi að fólk starfi lengur en til 67 ára aldurs á vinnumarkaði, þá þarf samfélagið að huga að því að halda fólki lengur við góða heilsu.“

Ef vilji er fyrir hendi að fólk starfi lengur en til 67 ára aldurs á vinnumarkaði, þá þarf samfélagið að huga að því að halda fólki lengur við góða heilsu.
Eyþór Árnason

Ávinningur fyrir einstaklinga og samfélagið

Ávinningurinn er ekki aðeins gagnvart einstaklingunum heldur fyrir samfélagið í heild. „Hver einstaklingur sem þarf að leggjast inn á sjúkrahús kostar ríkið gífurlegar fjárhæðir. Hverri krónu sem varið er í heilsutengdar forvarnir skilar sér fjórtánfalt til baka í ríkissjóð samkvæmt breskum rannsóknum. Heilsutengdar forvarnir eru því fljótar að skila sér í sparnaði. OECD komst á snoðir um niðurstöður okkar eftir að við kynntum þær á ráðstefnu í Búdapest fyrir Evrópusambandið og Embætti landlæknis árið 2018. Nú hefur OECD gefið út viðamikla skýrslu um verkefnið okkar sem sýnir enn betur að ávinningurinn er ekki aðeins heilsufarslegur heldur einnig fjárhagslegur. Þar er sýnt fram á mikilvægi þess að heilsutengdar forvarnir séu innleiddar til landa OECD og má því segja að ávinningurinn nái á heimsvísu.“

Stígum skrefið til fulls

„Áhrif markvissrar heilsueflingar vara að sjálfsögðu ekki að eilífu. Við eldumst jú öll og kveðjum lífið að lokum. Markmiðið sem við leggjum upp með, er ekki alltaf að bæta árum við lífið, heldur lífi við árin, þó svo hið fyrrnefnda fylgi oft í kjölfarið. Svo lengi sem við drögum andann, þá er aldrei of seint að hefja heilsurækt."

Svo lengi sem við drögum andann, þá er aldrei of seint að hefja heilsurækt.
Guðmundur Jóhannsson

Við lifum lengur en áður, þökk sé læknavísindunum og heilbrigðiskerfinu. En með hverju árinu fjölgar í þessum hópi, 60 ára og eldri. „Það ríður á að styðja við heilbrigðiskerfið með heilsutengdum forvörnum svo það kikni síður undan auknu álagi sem hlýst af þjónustu við þennan sívaxandi hóp eldri borgara. Ég hóf þessa vegferð fyrir um tuttugu árum og enn sem komið er hefur enginn heilbrigðisráðherra stigið nægilega stórt skref í átt að heilsutengdum forvörnum svo eftir sé tekið. Við erum komin langt á veg hjá Janusi heilsueflingu með að móta ákjósanlegt forvarnarferli fyrir þennan hóp, en það er deginum ljósara að hér þarf hið opinbera að gera enn betur og styðja slíkt ferli. Það er von mín að núverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, stígi þetta skref til fulls.“

Janus heilsuefling er með aðstöðu í Lífsgæðasetri St. Jó. í Hafnarfirði. Á heimasíðunni janusheilsuefling.is er að finna helstu upplýsingar um verkefnið. Þar má einnig skrá sig í Hágæða heilsueflingu 60+ á höfuðborgarsvæðinu eða hjá þeim sveitarfélögum sem Janus heilsuefling er í samstarfi við með verkefnið; Fjölþætt heilsuefling 65+ – Leið að farsælum efri árum.