„Þegar kemur að starfsendurhæfingu hentar enginn einn ferill ólíkum einstaklingum. Því er hlutverk mitt að yfirfara þær beiðnir sem berast til VIRK frá tilvísandi læknum, sem meta sem svo að orsök óvinnufærni megi rekja til afleiðinga ákomins heilaskaða, heilahristings eða sjúkdóma í miðtaugakerfi sem hafa áhrif á heilastarfsemi,“ upplýsir Guðrún Rakel Eiríksdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur hjá VIRK.

Þegar sótt er um starfsendurhæfingu þurfa allir einstaklingar að svara spurningalista áður en umsóknir eru yfirfarnar af sérfræðingum hjá VIRK.

„Á spurningalistanum er skimað fyrir ákveðnum þáttum. Spurt er hvort einstaklingur hafi orðið fyrir slysi, höfuðhöggi eða öðru sem hafði áhrif á heilastarfsemi hans. Svari einstaklingur játandi bætast við fleiri spurningar þar sem gefa þarf ítarlegri upplýsingar um aðdraganda heilaskaðans, vitræn (e. cognitive) og önnur einkenni sem komu fram í kjölfarið, áhrif einkenna á starfsgetu og svo framvegis. Svörin draga upp ákveðna mynd af vanda hvers og eins og hjálpa til við að velja þjónustu sem talið er að einstaklingur þurfi til að auka við starfsgetu og líkur á endurkomu á vinnumarkað,“ útskýrir Guðrún.

Margt hefur áhrif á starfsgetu

Algengt er að fólk glími við fjölþættan vanda sem hefur áhrif á starfsgetu þess, þar á meðal annan heilsufarsvanda eða erfiðar, félagslegar aðstæður.

„Þegar lagt er upp með úrræði í starfsendurhæfingu þarf að taka alla þessa þætti inn í myndina. Einnig er skoðað hvort einstaklingurinn hafi fengið greiningu og endurhæfingu í heilbrigðiskerfinu. Í vissum tilvikum getur verið gagnlegt að hafa samráð við þá fagaðila sem komið hafa að málinu, til dæmis á Grensásdeild og Reykjalundi; meðal annars með tilliti til þess að tryggja samfellu í endurhæfingu, meta hvort einstaklingur sé tilbúinn í starfsendurhæfingu og fleira,“ greinir Guðrún frá.

Hafi einstaklingur ekki fengið greiningu eða kortlagningu á einkennum sem tengd eru heilaskaða er möguleiki að skima fyrir slíkum einkennum hjá sérfræðingi VIRK.

„Það er gert með taugasálfræðilegri skimun og skal tekið fram að ekki er um fullt mat eða greiningu að ræða heldur skimun á vitrænum einkennum með tilliti til þess að kortleggja styrk- og veikleika til vinnu. Í vissum tilfellum er metið sem svo að vandi einstaklings sé það umfangsmikill að þörf sé á frekari þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Oft á tíðum er starfsendurhæfing talin eiga við, þar sem þessi einkenni hindra til vinnu og/eða náms. Þá er lagt upp með áætlun í starfsendurhæfingu þar sem úrræði eru valin sem talin eru auka líkur á farsælli endurkomu til vinnu,“ skýrir Guðrún frá.

Viðvarandi einkenni

Þegar höfuðáverki leiðir til heilaskaða er hægt að nota heitið vægur heilaskaði (e. mild traumatic brain injury; mTBI).

„Viðmið fyrir vægan heilaskaða eru meðal annars minnisleysi í kringum atburðinn (0-24 klst.) og meðvitundarleysi í allt að 30 mínútur. Breytingar í heila sjást ekki endilega með myndrannsókn. Algengt er að fólk fái höfuðverk, flökurleika og svima strax í kjölfar höfuðáverkans. Breyting á meðvitundarástandi getur einnig orðið og fólki finnst það vera ruglað og jafnvel óáttað. Þegar einkenni verða langvarandi er mögulega um heilahristingsheilkenni (e. post-concussion syndrome) að ræða. Samansafn vitrænna, líkamlegra og geðrænna einkenna getur komið fram. Dæmi um slík einkenni er minnisvandi, einbeitingarskortur, skapbreytingar, þreyta, svefntruflanir, minnkað þol fyrir hljóði og ljósi, sjóntruflanir, þunglyndi og kvíði,“ útskýrir Guðrún.

Áhugaverð rannsókn frá 2018 sýnir að af öllum þeim einstaklingum sem leituðu á bráðamóttöku þriggja sjúkrahúsa í Noregi á rúmlega einu og hálfu ári vegna höfuðáverka uppfylltu 67 prósent greiningarskilmerki fyrir vægan heilaskaða. Algengustu orsakir voru föll (37%), umferðarslys (24%), ofbeldi (20%) og íþróttir (11%).

Vitræn skerðing hamlandi

Vægir höfuðáverkar eru fremur algengir hjá börnum og fullorðnum. Langflestir jafna sig að fullu innan nokkurra daga eða vikna, á meðan aðrir glíma við langtíma­afleiðingar í vikur, mánuði eða ár eftir atburðinn.

„Ákveðinn hluti situr uppi með langvarandi einkenni og uppfyllir þá greiningarskilmerki fyrir heilahristingsheilkenni. Vitræn skerðing, auk fleiri einkenna, getur verið afar hamlandi og truflað getu til að stunda vinnu eða nám. Auk þess getur vitræn skerðing truflað árangur í öðrum meðferðum. Dæmi um slíkt er hugræn atferlismeðferð (HAM) en sumir einstaklingar með heilaskaða geta átt í erfiðleikum með að nýta sér þá meðferð sökum skerðingar sinnar,“ útskýrir Guðrún.

Rannsóknir benda til að snemmtækt inngrip, kortlagning á viðvarandi einkennum, fræðsla og einstaklingsmiðuð starfsendurhæfing geti skipt sköpum þegar kemur að farsælli endurkomu á vinnumarkað.

„Þar sem vitræn einkenni geta haft veruleg áhrif á starfsgetu einstaklinga hafa margir rannsakendur athugað hversu langan tíma það taki að komast aftur til vinnu. Í yfirgripsmikilli rannsókn (e. meta-analysis) Bloom og fleiri var farið yfir tæplega 1.000 rannsóknir á einstaklingum með vægan heilaskaða eða heilahristingsheilkenni, með tilliti til endurkomu til vinnu. Rannsóknin leiddi í ljós að af öllum þeim sem leita til bráðamóttöku í Englandi og Wales í kjölfar höfuðáverka má greina allt að 90 prósent með vægan heilaskaða. Af þeim hópi upplifa um 15 prósent langvarandi einkenni og skerta virkni,“ segir Guðrún.

Heilahristingsheilkenni, mikil þreyta, þunglyndi, höfuðverkur, meiðsli og heilablæðing eða heilamar voru þættir sem virtust spá fyrir um fjarveru af vinnumarkaði eftir 12 mánuði.

„Aðrir þættir sem ekki tengjast höfuðáverkanum með beinum hætti virðast einnig skipta máli. Rannsóknir benda meðal annars til þess að hærra menntunarstig spái fyrir um farsæla endurkomu til vinnu eftir sex mánuði. Fjöldi veikindadaga á árinu fyrir skaðann, sálræn streita og minnkuð virkni almennt virtist einnig hafa forspárgildi þegar kom að fjarveru af vinnumarkaði 12 mánuðum síðar,“ upplýsir Guðrún.

Einstaklingsbundin einkenni

Þeir sem gert hafa rannsóknir á endurkomu til vinnu eftir vægan heilaskaða hafa staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum. Ótal þættir skipta máli eins og alvarleiki einkenna, fyrri staða á vinnumarkaði, menntunarstig, geðrænn vandi, innsæi einstaklinga varðandi eigin heilsu og svo mætti lengi telja.

„Vitræn geta virðist gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að farsælli endurkomu á vinnumarkað í kjölfar heilaskaða. Auk þess er skerðing og breyting vitrænnar færni eitt mesta áhyggjuefni einstaklinga með vægan heilaskaða og aðstandenda þeirra. Þessi breyting felur meðal annars í sér skerta minnisgetu, hægara hugarstarf, erfiðleika í rökhugsun, erfiðleika við að halda utan um flókin verkefni og skerta skipulagsfærni,“ segir Guðrún.

Samansafn einkenna og umfang skerðingar er einstaklingsbundið.

„Hægt er að meta vitræna þætti með taugasálfræðilegu mati þar sem próf og verkefni eru notuð til að meta styrk- og veikleika. Afar sjaldgæft er að fyrir liggi niðurstöður á taugasálfræðilegu mati fyrir slys. Því skiptir viðtal fyrir prófun miklu þegar mat er lagt á fyrri getu. Þá er meðal annars skoðuð skólaganga, menntun, ferill á vinnumarkaði, geðsaga og upplifun einstaklings á breytingu í kjölfar heilaskaðans. Stundum er mikilvægt að taka viðtal við aðstandendur sem lýsa jafnvel persónubreytingum og telja einstaklinginn ekki „þann sama“ í kjölfar höfuðáverkans,“ upplýsir Guðrún.

Hún segir suma fara beint í fyrra starf en finna eftir stuttan tíma að illa gengur að ráða við verkefni sem þeir áður fóru létt með.

„Skiljanlega er erfitt fyrir fólk að hafa ekki greiningu eða staðfestingu á sínum vanda í heilbrigðiskerfinu. Niðurstöður á taugasálfræðilegum prófum kortleggja styrkleika og veikleika sem hægt er að nýta í starfsendurhæfingu. Með því er hægt að setja raunhæf markmið varðandi endurkomu til vinnu eða náms. Rannsóknir á endurkomu til vinnu í kjölfar heilaskaða hafa skilgreint stöðu á vinnumarkaði með misjöfnum hætti. Sumar þeirra flokka ólaunaða vinnu og atvinnu með stuðningi sem árangursríka endurkomu á vinnumarkað, á meðan aðrar skoða eingöngu þá sem komast í fullt starf á almennum vinnumarkaði.“

Taugasálfræðilegt mat getur verið mikilvægt þegar kemur að því að hjálpa einstaklingum að aðlagast vinnumarkaði á ný og gera raunhæfar væntingar varðandi ýmsa atvinnumöguleika.

„Ekki má gleyma að skert, vitræn færni getur haft aðrar alvarlegar afleiðingar í för með sér. Einstaklingar eiga oft erfiðara með félagsleg samskipti og finna fyrir vanmætti sínum sem getur dregið úr félagslegri virkni. Vegna skertrar vinnugetu verða lífsgæði minni og oft koma upp erfiðleikar í samböndum. Stuðningur og fræðsla um einkenni, bæði fyrir aðstandendur og einstaklinginn sjálfan, geta því skipt sköpum varðandi líðan og framtíðarhorfur.“

Snemmtæk inngrip mikilvæg

Þörf er á snemmtæku inngripi og kortlagningu á vanda hvers og eins. Þannig er hægt að veita viðeigandi endurhæfingu og aðstoða þennan hóp við að komast aftur á vinnumarkað með farsælum hætti.

„Þó svo að fólk hafi ekki möguleika á endurkomu í sitt fyrra starf er hægt að meta þá færni sem er til staðar í kjölfar skaðans og með þeim hætti finna starf sem hentar getu hvers og eins,“ segir Guðrún.

Hlutverk starfsendurhæfingar fyrir einstaklinga með vægan heilaskaða og heilahristingsheilkenni getur verið flókið vegna einstaklingsbundinna einkenna og samsláttar við geðraskanir auk líkamlegra einkenna og verkja.

„Rannsóknir á árangri starfsendurhæfingar í kjölfar vægs heilaskaða eru af skornum skammti. Mælikvarði árangurs í flestum þessara rannsókna er endurkoma á vinnumarkað, en þegar fólk er enn að glíma við eftirköst heilaskaða geta tilraunir til endurkomu í fyrra starf leitt til mikillar streitu. Útkoman getur því orðið minni framleiðni í vinnu og sú upplifun einstaklinga að finnast þeir ekki standa sig, sem getur leitt til niðurrifshugsana og vanlíðunar. Því skiptir máli að endurkoma á vinnumarkað sé viðeigandi fyrir hvern og einn og í því samhengi er mikilvægt að einstaklingar ráði vel við starfið sitt,“ greinir Guðrún frá.n

VIRK er í Borgartúni 18. Sími 535 5700. Sjá nánar á virk.is