Maðurinn er snillingur í að koma sér í vanda og enn meiri snillingur í að græða á honum. Hann lendir iðulega í áföllum og vandræðum en í þetta sinn er vandinn næstum óyfirstíganlegur því á fyrstu blaðsíðu kemur í ljós að hann vaknar á ókunnum spítala í ókunnri borg og man ekki neitt, ekki baun. Hann man ekki hver hann er, hvernig hann komst þangað né sitt eigið andlit og þá er spurning hvort svikahrappurinn Lavander komi aftur í ljós eða líf hans muni breytast til batnaðar,“ segir Jón Páll, um gamanfantasíur sem nú eru orðnar að þríleik.

„Á vegi Lavanders í leit að sjálfum sér mæta honum alls konar erfiðleikar, þar á meðal mislukkaður töframaður, tröll sem tala forníslensku, skrímsli, líka borgarstjórnarkosningar og fjallmyndarlegur sellóleikari. Atburðarásin er því spennandi frá upphafi til enda.“

Hvítur hrafn í bókmenntum

Jón Páll segir hreinræktaðar gamansögur fátíðar á Íslandi í dag.

„Gamanfantasía er hvítur hrafn í íslenskum bókmenntum, en sú tegund bóka hefur notið mikilla vinsælda í útlöndum í meira en fjörutíu ár. Hún hefur í gegnum tíðina verið vettvangur fyrir háðsádeilu á samfélagið og þannig er það í Lavander-bókunum líka; ég pota í það sem er spaugilegt í samtímanum, meðal annars hernaðarbrölt, fjöldamótmæli, borgarstjórnarkosningar, trúmál, samfélagsmiðla og skyndibita,“ upplýsir Jón Páll sem setur nútímalega hluti inn í miðaldabrag bókanna.

„Þá sér maður hvað samfélagsmiðlar verða fáránlegir í umhverfi miðalda. Á miðju torgi standa stórir tréflekar með löngum pappírsrenningum sem kallast samfélagsmiðar og þar getur fólk skipst á upplýsingum, uppskriftum, lesið fréttir og haft samband við vini og ættingja. Ef því líkar við hlutina teiknar það læk því lækurinn streymir og streymi er svo mikilvægt fyrir samfélagsmiðla og þar eru líka hauspokar fyrir þá sem vilja setja inn nafnlausar athugasemdir. Þegar Lavander spyr svo af hverju fólk sé nú að þessu og tali ekki frekar saman er svarið að það sé svo gamaldags,“ segir Jón Páll og hlær.

Hann hefur ekki glóru um hvaðan hugmyndir hans um ævintýri Lavanders spretta.

„Sögurnar verða til af sjálfu sér. Lavander er svo lifandi og skemmtileg persóna að þegar maður setur hann í umhverfi er eins og hann taki völdin. Karlinn virðist búa innra með mér en er þó algjör andstæða við sjálfan mig og gerir hluti sem ég mundi aldrei gera. Hann er mikil andhetja, hrikalega óheiðarlegur og nýtir sér allt til að næla sér í peninga.“

Lavander í vanda er æsispennandi og bráðfyndin gamanfantasía um óborganlegan svikahrapp fyrir unglinga og upp úr.

Hreinræktaðar fantasíur

Bækurnar um Lavander skrifar Jón Páll fyrir fólk allt frá unglingsaldri upp í fullorðna.

„Fantasíur eru ekki bara fyrir börn og ég veit að fullorðnir skemmta sér ekki síður vel yfir Lavander. Mig grunar að flestir brosi í gegnum alla bókina og skelli upp úr af og til,“ segir Jón Páll sem sjálfur skemmtir sér stórvel við skrifin og hefði tekið Lavander-bókunum fegins hendi á unglingsárunum.

„Næsta bók verður um Lavander ungan því hann byrjaði að svíkja og pretta mjög ungur og því er kjörið að skrifa um hann barnabók þar sem börnum er kennt að svíkja út peninga og leika á samborgarana,“ segir Jón Páll sposkur.

„Íslendingar er pínulítið alvörugefnir þegar kemur að bókmenntum og skrifa mikið um dramatík og glæpi. Það er ósk mín að á næstu árum muni vegur fantasíunnar aukast því í fortíðinni áttu Íslendingar mjög ríka sagnahefð og ekki síst fantasíur því ein af okkar elstu bókmenntum á miðöldum voru riddarasögur sem voru hreinræktaðar fantasíur.“

Sjá nánar á odinsauga.is