Álfheiður Svana Kristjánsdóttir, neyðarvarnafulltrúi Rauða krossins og sjálfboðaliði í viðbragðshópi Eyjafjarðar, var meðal þeirra sem komu frá Akureyri til að aðstoða þegar alrýming var fyrirskipuð á Seyðisfirði vegna stórrigninga og aurskriðufalla sem ógnuðu byggðinni tæpri viku fyrir jól 2020. Aðeins einu sinni áður hefur heilt sveitarfélag verið rýmt, vegna eldgossins í Heimaey.

„Þetta var krefjandi,“ segir Álfheiður Svana. „Korter í jól og verkefnið svo stórt að það þurfti mikla aðstoð austur. Engin Covid-smit voru á Austurlandi á þessum tíma og ekki æskilegt að flytja margt fólk annars staðar frá án skimunar. Engin smit voru heldur á Akureyri og því tókst að koma sjálfboðaliðum þaðan strax á föstudeginum. Sjálfboðaliðarnir frá Seyðisfirði voru líka þolendur í þessum hamförum og því stigu aðrir inn en þannig styðja viðbragðshóparnir hver við annan.“

Álfheiður Svana segir samheldni fólks hafa verið eftirtektarverða. „Allir lögðust á eitt. Fólk hafði samband og bauð fram húsnæði svo gisting fannst fyrir alla. Þarna var einstök samkennd, samhugur og samvinna. Magnþrunginn tími, komið að jólum, skammdegið drungalegt og mikil óvissa. Sem betur fer gekk þetta allt vel, ekki síst vegna þess hve skipulagið var skilvirkt og hve samstarf allra viðbragðsaðila var gott.“

Samráðshópur um áfallahjálp var að störfum bæði á staðnum og í Reykjavík. Hlutverk þeirra er að samræma og kortleggja stuðning við íbúana.

„Viðbragðshóparnir grípa þá sem lenda utan kerfisins,“ segir Álfheiður Svana, „fólk sem verður vitni að alvarlegum atburðum og aðra þá sem ekki þurfa beina aðstoð viðbragðsaðila en þurfa sálrænan stuðning. Í viðbragðshópunum er vel þjálfað fólk með þekkingu og reynslu af sálrænum stuðningi í gegnum menntun, reynslu og störf sem veitir þolendum sálræna aðstoð á vettvangi eða fyrstu dagana á eftir.

Á mánudagskvöldinu gekk ég um á Seyðisfirði. Allt var kyrrt. Nokkrir íbúar voru komnir í húsin sín en enginn á götum úti. Þögn fyrir utan vélardyn, jólaljós, hús á bensínplani, rústir og sár í hlíðunum fyrir ofan bæinn. Ég fann hve smá við erum andspænis náttúrunni þegar svona dynur yfir.“