Raggagarður er skemmtigarður fyrir alla fjölskylduna í Súðavík. Vilborg Arnarsdóttir (einnig þekkt sem Bogga í Súðavík) er frumkvöðull að uppsetningu hans og framkvæmdastjóri Raggagarðs. Nafn garðsins kemur frá syni Vilborgar, Ragnari Frey Vestfjörð, sem lést í bílslysi í Súðavík 17 ára gamall árið 2001, en Vilborg setti garðinn upp til minningar um hann.

Súðavíkurhreppur lagði til lóðina og garðurinn var fyrst opnaður árið 2005, en frá stofnun hefur garðurinn tekið miklum breytingum þökk sé þrotlausri sjálfboðavinnu heimamanna og annarra velunnara garðsins. Þar eru nú leiktæki fyrir yngri og eldri börn, sæti og borð fyrir 130 manns, grill sem hægt er að er fá afnot af og ýmislegt fleira.

Hefur öðlast sjálfstætt líf

„Raggagarður hefur í raun öðlast sjálfstætt líf og er nú farinn að þróast sjálfur,“ segir Vilborg. „Þetta byrjaði þannig að ég ætlaði að kaupa leiktæki svo ég fór af stað með fjáröflun. Fyrsti styrkurinn kom frá Pokasjóði og þannig fór þetta allt af stað.

Í Raggagarði eru frábær leiktæki fyrir börn og yndisleg útivistaraðstaða fyrir þau sem eldri eru.

Nú er þetta orðið miklu stærra en ég ætlaði mér í upphafi. Fólk kemur með alls kyns hugmyndir og hefur gefið garðinum ýmis listaverk, svo að nú eru sjö listaverk til sýnis í honum, þar á meðal verkið Blóm í glugga eftir Jón Gunnar Árnason,“ segir Vilborg. „Fjölskylda Finns Jónssonar ákvað að gefa Raggagarði verkið, sem var mikill heiður. Við erum líka með sex gríðarlega falleg verk eftir Gerði Gunnarsdóttur.“

Rukkuð um þakkir og knús

„Það er gríðarlega mikið hjarta í garðinum og ég hefði aldrei getað gert þetta án þess að fá svona mikla hjálp frá Vestfirðingum og öðrum landsmönnum,“ segir Vilborg. „Ég fer aldrei í framkvæmdir sem ég á ekki fyrir og tek aldrei lán en ég hef fengið stórar gjafir sem hafa munað miklu.

Þegar ég bað um torf á túnið sem er hérna, sem er kallað Boggutún, vildi ég fá einhverja verðhugmynd, en fékk frekar óskýr svör. Svo kom maður með svakalegt magn af torfi og þegar ég ætlaði að fara að borga sagði hann bara „segðu bara takk“,“ segir Vilborg. „Svipað gerðist þegar mig vantaði sand fyrir bílaplanið. Ég bað um farm af sandi og svo mætti maður með svakalegt magn af sandi og spurði hvar ætti að sturta þessu niður. Þetta var svo mikið að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið en svo var ég bara rukkuð um eitt knús.

Í Raggagarði er líka svið og áhorfendasvæði, þannig að þar er hægt að halda útihátíð, ættarmót og alls kyns skemmtanir fyrir börn og fullorðna.

Eitt sinn vantaði mig líka hjálp við að mála og þá kom elsti maður í Bolungarvík hingað með 100 þúsund króna framlag og spurði hvað þyrfti að mála og svo málaði hann, þessi elska,“ segir Vilborg.

Það eru ótal dæmi um svona, fólk kemur bara og hjálpar. Þetta munar öllu, því allur garðurinn er afrakstur sjálfboðavinnu. Vestfirðingar og landsmenn allir hafa lagt mikið í þennan garð,“ útskýrir Vilborg.

Margt að sjá og gera

„Það hefur svo spurst út hvað þetta er fallegur garður og fólk er að uppgötva að þetta er ekki bara leiksvæði fyrir börn heldur eru hér líka skemmtileg útivistarsvæði fyrir alla,“ segir Vilborg. „Hér er líka svið og áhorfendasvæði þannig að það er hægt að halda útihátíð, ættarmót og alls kyns skemmtanir fyrir börn og fullorðna. Svo er tjaldsvæði bara hérna rétt hjá. Þetta svæði býður upp á gríðarlega möguleika.

Það er líka ýmislegt að sjá hér og gert ráð fyrir að fólk njóti umhverfisins. Hér er hægt að skoða hvalsporð, sögu fyrstu hrefnuveiðanna, dvergasteina, álfasteina og setjast niður í rekaviðarskóginum,“ segir Vilborg. „Við byrjuðum ekki á þeim hluta garðsins fyrr en eftir 2008, en þá var hér eingöngu leiksvæði, sem garðurinn hefur verið þekktur fyrir. Svæðið hefur tekið stakkaskiptum síðan þá.

Í Raggagarði er ýmislegt að sjá og gera og margir koma sérstaklega til Súðavíkur til að heimsækja garðinn.

Margir segja að Raggagarður sé falin perla, en við auglýsum aldrei því að við pössum rosalega vel upp á hverja krónu,“ segir Vilborg. „Við seljum ekki aðgang í garðinn en frjáls framlög eru vel þegin í baukinn.“

Vilborg setti upp teljara til að telja gesti Raggagarðs fyrir þremur árum síðan.

„Fyrsta árið fengum við 7.000 gesti og það sem af er á þessu ári höfum við tekið á móti um 9.000 gestum,“ segir Vilborg. „Bílaplanið er líka búið að vera sneisafullt og margir koma til Súðavíkur sérstaklega til að heimsækja Raggagarð og Melrakkasetrið.“

Miklar framkvæmdir í sumar

„Það hafa verið miklar framkvæmdir í Raggagarði í sumar og núna er búið að gera alla göngustíga aðgengilega fyrir hjólastóla, göngugrindur og annað slíkt. Það er líka kominn betri rampur og aðgengi að klósettinu og þar inni eru líka höldur,“ segir Vilborg. „Við erum bara á rosa góðum stað miðað við að vera bara í litlu Súðavík og vera bara áhugamannafélag. Það er kraftaverk að garðurinn sé orðinn svona fínn.

Ég hef ekki hugsað mér að bæta miklu við, en ungmennafélagið Geisli í Súðavík vill setja upp frisbígolfvöll í samstarfi við garðinn og það á eftir að bæta við nokkrum upplýsingaskiltum á Boggutún. Það eru einu framkvæmdirnar sem eru fyrirhugaðar,“ segir Vilborg. „En það er enn nóg pláss fyrir fleiri listaverk ef einhverjir vilja setja upp listaverkin sín.

Það er margt að skoða hérna í Raggagarði og það verður enginn fyrir vonbrigðum við að kíkja til Vestfjarða, stoppa í Súðavík og njóta garðsins. Við hvetjum alla til að koma í heimsókn, koma sér fyrir á flotta tjaldsvæðinu og njóta lífsins með okkur,“ segir Vilborg að lokum.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um Raggagarð á heimasíðu garðsins og það er hægt að fylgjast með garðinum með því að gerast vinur hans á Facebook, þar sem Vilborg er dugleg að setja inn stöðuuppfærslur.