Skarðshlíðin er vissulega falin náttúruperla í jaðri Hafnarfjarðar,“ segir Jóna Draumey Hilmarsdóttir. Jóna og eiginmaður hennar, Sigurjón Atli Benediktsson, eru í hópi þeirra sem fengu úthlutað lóð í nýju og spennandi hverfi sem rís nú í Skarðshlíð í Hafnarfirði. Svæðið, sem er nú í örri byggingu, þykir eftirsóknarvert, raunar svo að ein gatan hefur hlotið nafngiftina „Glimmerskarð“ en það er einmitt gatan sem þau hjónin eru að koma sér fyrir í.

„Við fjölskyldan höfðum lengi látið okkur dreyma um að byggja okkar eigið hús frá grunni og geta hannað það sjálf,“ segir Sigurjón. Þau hjónin segja að ákvörðunin um að sækja um lóð hafi ekki átt sér langan aðdraganda. „Það var hálfgerð skyndihugdetta hjá okkur að sækja um lóð hjá Hafnarfjarðarbæ sem við gerðum haustið 2018 og eftir það var eiginlega ekki aftur snúið,“ segir Jóna.

Sigurjón segir að það sem hafi helst komið á óvart hafi verið hversu fljótlegt ferlið hefur verið. „Við fengum úthlutað lóð í september 2018 og tókum fyrstu skóflustunguna í febrúar 2019,“ segir hann. „Við fengum fokheldisvottorð í byrjun september og nú erum að gera okkur vonir um að geta flutt inn fyrir jól,“ útskýrir Sigurjón.

Þá hafi þau lært ýmislegt í leiðinni. „Ferlið er því búið að taka okkur eitt ár í heildina. Það sem hefur komið okkur mest á óvart er hversu stuttan tíma þetta hefur tekið og hversu skemmtilegt og lærdómsríkt þetta ferli hefur verið,“ segir Jóna.

„Við ákváðum að byggja einingahús og höfum átt í ákaflega góðu samstarfi við BM-Vallá en þeir eru með sér deild innan fyrirtækisins sem snýr eingöngu að steypueiningum og koma sterkir inn ef að maður vill leggja áherslu á að gera þetta á sem stystum tíma,“ segir Sigurjón. Það tekur þó alltaf tíma að byggja frá grunni. „Við mælum alveg með þessu en það er mikilvægt fyrir fólk að gera sér grein fyrir því að þetta tekur tíma og er svolítið mikil vinna,“ segir hann.

Þau hjónin segja hverfið sniðið að þörfum fjölskyldufólks og stutt er í alla þjónustu. „Á svæðinu er bæði frábær skóli og leikskóli og öflugt íþróttafélag ásamt fjölbreyttri verslun og þjónustu, þannig að þjónustan við íbúa er mjög góð á svæðinu,“ segir Jóna. Þá er byggðin umlukt grænum svæðum sem henta vel til útivistar af öllu tagi.„Það er stutt í frábær útivistarsvæði eins og Hvaleyrarvatn, Ástjörn, Helgafell og svo er fjöldinn allur af göngu- og hjólaleiðum,“ segir Jóna.

Jóna Draumey Hilmarsdóttir er frumbyggi í Skarðshlíð. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Eftirsóknarverð staðsetning

Skarðshlíð er nýbyggingarsvæði sem liggur sunnan og vestan í Ásfjalli. Svæðið er svar Hafnarfjarðarbæjar við aukinni eftirspurn eftir húsnæði. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir svæðið löngum hafa lofað góðu, enda einstök staðsetning með tilliti til nálægðar við bæði náttúru og byggð. „Skarðshlíðin hefur lengi þótt vænlegt svæði til uppbyggingar,“ segir Rósa.

„Þótt áhersla sé lögð á þéttingu byggðar á ákveðnum svæðum þarf einnig að mæta þeim hópi sem vill búa í grænu og fjölskylduvænu úthverfi með greiðan aðgang að fjöllum, vötnum og öðrum náttúruperlum. Þar liggur einmitt ein sérstaða Skarðshlíðarhverfisins af mörgum,“ útskýrir Rósa.

Þá er menningin skammt undan. „Á sama tíma er stutt í miðbæ Hafnarfjarðar sem hefur að geyma fjöldann allan af veitingastöðum, kaffihúsum, leikhús, tónlistarhús og menningarstofnanir auk verslana með íslenskri hönnun og handverki,“ segir Rósa.

Rósa Guðbjartsdóttir er bæjarstjóri Hafnarfjarðar. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Margir valmöguleikar í boði

„Áhersla hefur verið lögð á blandaða byggð á svæðinu og húsagerðir með því móti að geta svarað þörf ólíkra fjölskyldugerða sem og einstaklingum,“ segir Rósa. „Hugmyndafræði deiliskipulagsins gerir það kleift að bæði er hægt að minnka við sig og komast í minna einbýli, par- eða raðhús eða íbúð í fjölbýli,“ segir hún. Hún segir þann valmöguleika koma sér vel fyrir vissa hópa. „Það er jákvæður kostur fyrir þá sem eiga aldraða foreldra eða ungmenni sem eru að stíga sín fyrstu skref í eigin búsetu eða þá sem vilja fjármagna kaup að einhverju leyti með útleigu á íbúð. Möguleikarnir eru margir,“ segir Rósa bjartsýn.

Þá eru allir helstu innviðir nú þegar til staðar og hverfið skipulagt út frá hagkvæmum sjónarmiðum. „Það sem er öðruvísi og áhugavert við Skarðshlíðina er að nú þegar eru bæði grunnskóli og leikskóli komnir í rekstur undir einu og sama þakinu þannig að fullbúnir og nýir skólar taka vel á móti nýbúum,“ segir Rósa.

„Fjölþætt starfsemi í einu og sama húsinu er til þess fallin að hafa samlegðaráhrif í margþættu tilliti. Ekki bara rekstrarlegu heldur ekki síður með beinum áhrifum á skólastarfið. Skólinn er staðsettur í kjarna hverfisins, lítil og meðalstór fjölbýlishús umlykja skólann og svo hríslast blönduð byggð einbýlishúsa, raðhúsa, parhúsa og fjölskylduhúsa upp í hlíðina,“ segir hún.

„Í Vallahverfi, sem liggur næst við Skarðshlíðarhverfi, er að finna helstu verslanir, líkamsræktarstöðvar auk þess sem fjölmörg fyrirtæki eru með rekstur á svæðinu sem opnar á möguleika þeirra sem vilja lifa og starfa í heimabyggð og hafa tækifæri til að ganga eða hjóla í vinnuna,“ segir Rósa. „Íþróttasvæðið á Ásvöllum er einnig í göngu- og hjólafæri en þar er að finna fyrsta flokks aðstöðu sem áform eru um að eflist enn frekar með byggingu knatthúss á svæðinu. Sannkölluð draumaaðstaða fyrir einstaklinga, börn og ungmenni sem stunda íþróttir.“

Skarðshlíðin hefur lengi þótt vænlegt svæði til uppbyggingar. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Forvitnileg götuheiti

Götuheitið „Glimmerskarð“ hefur vakið eftirtekt, enda óvenju skrautlegt.

„Nafnið Glimmerskarð var ákveðið á árunum 2010-2014 þegar ég sat í skipulags- og byggingarráði. Þá strax vakti nafngiftin mikla athygli og rataði meira að segja inn á borð örnefnanefndar sem þótti nafnið ekki eins viðeigandi og skemmtilegt eins og okkur,“ segir Rósa, létt í bragði. „Við ákváðum þó að láta slag standa og sjáum ekki eftir því,“ segir hún.

Þá eru heitin líka innblásin af jarðfræði. „Nafn Skarðshlíðarhverfis er sótt í lögun landsvæðisins og forskeyti gatna er svo sótt í jarðmyndanir, íslenska steina og steindir. Þar liggur grunnurinn,“ útskýrir Rósa. „Undantekningin er gatan, sem tengir allt hverfið saman og skólinn stendur við, Hádegisskarð, en það er gamalt örnefni á svæðinu. Þarna má líka finna m.a. göturnar Apalskarð, Drangsskarð og Móbergsskarð.“

Í Skarðshlíð mætast náttúra og byggð á skemmtilegan hátt. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Frumbyggjum fer fjölgandi

„Hverfið hefur byggst upp í þremur áföngum. Fyrsti áfangi fól í sér undirbúning og sölu á fjölbýlishúsalóðum sem liggja við skólann. Allar þessar lóðir eru þegar seldar og uppbygging komin nokkuð vel á veg. Lóðir í öðrum og þriðja áfanga eru nú í sölu og töluvert margar seldar nú þegar. Frumbyggjarnir í hverfinu fluttu inn í sumar og alltaf bætist í hóp íbúa.“

Áhersla var lögð á að gæta sanngirnis í úthlutunarferlinu. „Fyrsta úthlutun í hverjum áfanga var bundin ákveðnum dagsetningum og dregið úr umsóknum þegar þær voru fleiri en ein um sömu lóðina. Þannig áttu allir jafnan möguleika á draumalóðinni en ekki bara sá sem var fyrstur.“

„Í dag er opið fyrir umsóknir um allar lausar lóðir á svæðinu og afgreiðsla þeirra tekin fyrir á bæjarstjórnarfundum á tveggja vikna fresti. Allar upplýsingar um lausar lóðir er að finna á www.skardshlidin.is þar sem áhugasamir geta m.a. mátað sig í hverfið og séð hvernig það fellur að núverandi byggð þegar það verður fullbyggt. Umsóknarform um lausar lóðir er á Mínum síðum á hafnarfjordur.is. Ferlið er aðgengilegt og einfalt og allar lóðir tilbúnar til afhendingar.“

Skarðshlíð er staðsett á eftirsóknarverðu svæði í Hafnarfirði. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Framtíðin er björt

Rósa segist sjá fyrir sér líflegt og náið samfélag í þessu nýja hverfi. „Ég sé fyrir mér blandaðan hóp íbúa, að heilu stórfjölskyldurnar setjist að á svæðinu og að samfélagið verði sterkt og samheldnin mikil.“

„Að sjálfsögðu fylgir því eitthvað rask meðan framkvæmdir standa yfir en virk þátttaka í stækkun, mótun og uppbyggingu mun skila sér í sterku og samheldnu samfélagi einstaklinga þar sem allir hafa það markmið að búa sér til framtíðarheimili á fallegum stað í Hafnarfirði,“ segir Rósa. „Það er ómetanlegt til lengri tíma litið.“

Það er nóg um að vera í Skarðshlíð þessa dagana eins og sjá má á fjölda byggingakrana og nýbygginga.FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK