Í starfi Smára felst greining á heilaskaða, endurhæfing og meðferð. Hann starfar með þverfaglegu teymi sem metur hvort einstaklingur hefur orðið fyrir heilaskaða.

„Þegar greining er fengin kemur í ljós hvort einstaklingur þurfi meðferð á Reykjalundi eða hvort vísa ætti honum eitthvert annað,“ útskýrir hann.

Þegar Smári er spurður hvort enn séu hlutir að koma honum á óvart í starfinu svarar hann því játandi.

„Ef maður þekkir eina manneskju með heilaskaða þá þekkir maður bara eina manneskju. Heilinn stýrir og stjórnar öllu sem við gerum og hugsum. Sjúkdómurinn hefur áhrif á andlega og líkamlega líðan auk hugrænnar getu. Fólk getur verið að glíma við alls konar afleiðingar heilaskaða. Það gerir endurhæfinguna flókna og þess vegna þarf aðkomu þverfaglegs teymis. Reykjalundur er frábær staður til að sinna svona þverfaglegu starfi þar sem hægt er að fylgja fólki eftir til lengri tíma,“ segir hann.

Það eru innan við tuttugu taugasálfræðingar starfandi á landinu og tveir þeirra starfa á Reykjalundi.

„Það eru tvö heilaskaðateymi starfandi á Íslandi, það er á Reykjalundi og á Grensásdeild Landspítalans. Fagráð um heilaskaða var stofnað árið 2006 til þess að hjálpa þessum þverfaglega hópi fagfólks að vinna betur saman. Okkur tókst til dæmis að vinna að stofnun Hugarfars, félags fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið,“ segir Smári.

Þekking og frumkvæði – fræðsla og samvinna

Smári segir að Fagráð um heilaskaða samanstandi af þverfaglegum hópi sem lætur sig málefni heilaskaða varða.

„Lögð er áhersla á að fagráðið samanstandi af fjölbreyttum hópi með þekkingu er snýr að málefnum fólks með heilaskaða. Því er fagfólk með áhuga á málefninu hvatt til þátttöku í fagráðinu. Eitt af lykilhlutverkum fagráðsins er að styðja við Hugarfar,“ segir hann.

Formaður fagráðsins er Þórunn Hanna Halldórsdóttir talmeinafræðingur og Ella Björt Teague taugasálfræðingur er ritari. Smári er tengiliður fagráðs við Hugarfar. Öll eru þau starfandi í tauga- og hæfingarteymi Reykjalundar og í heilaskaðateymi Reykjalundar. ■