„Í Dáleiðsluskólanum Hugareflingu er hægt að læra dáleiðslu og allt sem henni viðkemur. Skólinn var stofnaður árið 2019, en við sem kennum við skólann höfum þó kennt dáleiðslu á Íslandi mun lengur og erum líklega reyndustu dáleiðslukennarar landsins,“ segir Jón Víðis Jakobsson, dáleiðslukennari og annar eigandi Dáleiðsluskólans Hugareflingar, en samkennari hans og meðeigandi er Arnþór Arnþórsson CHt. „Á síðasta skólaári fóru líka vel á annað hundrað nemenda í gegnum námskeið skólans, svo þetta er líklega stærsti dáleiðsluskóli landsins.“

Alþjóðlega viðurkennt nám

„Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á fagmennsku í vinnubrögðum, framsetningu og kennslu,“ segir Jón. „Kennarar skólans hafa sótt námskeið erlendis og hlotið alþjóðleg kennsluréttindi og við sækjum einnig reglulega námskeið og fyrirlestra til að hafa alltaf bestu og nýjustu þekkingu sem völ er á.

Námskeiðin okkar, Lærðu að dáleiða og Meðferðardáleiðsla, koma frá stærstu dáleiðslusamtökum í heimi, National Guild of Hypnotists (NGH), en mörg þúsund manns hafa farið gegnum þessi námskeið og þau hafa alþjóðlega vottun frá óháðum aðilum,“ útskýrir Jón. „Þeir sem útskrifast hjá okkur hljóta því alþjóðlega viðurkennd dáleiðsluréttindi frá NGH.“

Nýtt námskeið að hefjast

„Við erum að byrja með nýtt námskeið núna 17. september og það eru ennþá örfá sæti laus, en það borgar sig að skrá sig sem fyrst til að tryggja sér sæti,“ segir Jón. „Námskeiðið sem er að fara af stað núna er Lærum að dáleiða, þar sem fólk lærir grunnaðferðir dáleiðslu, siðferði og hvernig eigi að meðhöndla dáleiðslu á ábyrgan hátt, ásamt meðferð við reykingum, streitustjórnun og aðferðir til sjálfstyrkingar.

Dáleiðsluskólinn Hugarefling byrjar með námskeiðið Lærum að dáleiða 17. september næstkomandi og örfá sæti eru laus. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Svo bjóðum við líka upp á námskeið í meðferðardáleiðslu sem er í beinu framhaldi af hinu námskeiðinu,“ segir Jón. „Þar eru kenndar mismunandi dáleiðsluaðferðir sem gera fólki kleift að fara dýpra og nálgast vandamál á ólíka vegu. Við kennum fólki að fást við það sem kemur upp í dáleiðslu og leggjum mikla áherslu á æfingu og verklega kennslu. Við útskrift úr því námskeiði verður fólk meðlimir í NGH.“

Getur komið að miklu gagni

„Dáleiðsla hefur ýmsa kosti. Hún getur leyft fólki að líða betur, aðstoðað það við að ná markmiðum sínum, hjálpað fólki að einbeita sér og losað það við hugsanir og tilfinningar sem einu sinni skiptu máli en hjálpa ekki lengur,“ segir Jón. „Dáleiðsla getur hjálpað fólki að átta sig betur á því hvað það vill í raun og veru, með því að láta ekki stjórnast af gömlum tilfinningum, ávönum og hugsunum sem gagnast ekki lengur. Dáleiðsla getur líka gert fólk þolinmóðara og hjálpað því að láta hluti sem ekki skipta máli hætta að trufla sig.

Dáleiðsla virkar á allt sem er huglægt, þar á meðal líkamlega kvilla sem eiga sér huglægar rætur. Ristilkrampi eða iðraólga virðist til dæmis oft eiga sér huglægar rætur, en flestir tengja dáleiðslu samt við að vinna bug á kvíða, létta sig eða hætta að reykja,“ segir Jón. „Margir íþróttamenn nota líka dáleiðslu til að bæta árangur, en hún getur bætt einbeitingu og dregið úr streitu og álagi þegar mikið liggur við.“

Öflugt verkfæri í kistuna

„Nám í dáleiðslu er fyrir alla, hvort sem það er til að hjálpa öðrum eða vinna með sjálfan sig á einhvern hátt eða hefja eigin starfsemi með dáleiðslumeðferðir,“ segir Jón. „Þeir sem hafa lært dáleiðslu hjá okkur koma alls staðar að úr þjóðlífinu. Sumir læra hana einfaldlega til að auka við sína eigin þekkingu til að geta hjálpað öðrum og meðferðaraðilar læra meðferðardáleiðslu til að bæta í verkfærakistuna sína, en dáleiðsla er öflugt verkfæri sem nauðsynlegt er að hafa fyrir alla sem sinna fólki, hvort sem það er meðferðarvinna eða annars konar samtal eða umönnun.

Dáleiðsla er öflugt tæki til að vinna á einhverju sem annars hefði verið hulið eða ekki náðst til. Það sem dáleiðsla býður upp á umfram venjulega samtalsmeðferð er leið til að ná dýpra í undirvitundina og fá aðgang að því sem er búið að loka á,“ segir Jón. „Þannig er hægt að fara djúpt í orsakir eða uppruna vandamála án þess að þurfa að upplifa þá erfiðleika sem ollu vandamálinu sem glímt er við. Það er líka hægt að fá skýrari mynd af löngu liðnum eða óljósum atburðum og eins er hægt að fara í hina áttina og vinna með afleiðingar vandamála án þess að þurfa að vita hver orsökin eða vandamálið var. Tilfinningarnar eru einfaldlega leystar upp.“


Frekari upplýsingar um námskeiðin er að finna á heimasíðu skólans, daleidsluskolinn.is, og þar er einnig hægt að skrá sig.