Stærsti hlutinn af starfsemi Hagvangs eru ráðningar en auk þess býður fyrirtækið líka upp á ýmiss konar mannauðsráðgjöf. Fyrirtækið var stofnað árið 1971 og er því með mikla reynslu á sínu sviði. Hjá Hagvangi starfa sérfræðingar sem beita faglegum aðferðum til að finna rétta starfsfólkið í þau störf sem koma inn á borð hjá fyrirtækinu.

„Ráðningar skiptast í grófum dráttum í tvennt þó að þetta blandist eitthvað saman. Við auglýsum störf og fólk sækir um. Við beitum svo þeim aðferðum sem þarf til að finna hæfasta fólkið til að sinna starfinu. Við notum meðal annars stöðluð ráðningarviðvöl og persónuleikamat,“ útskýrir Sverrir Briem, einn af eigendum Hagvangs.

„Við erum í fyrsta lagi að velja fólk úr hópi umsækjenda en svo erum við líka í því að finna fólk. Það eru í rauninni hausaveiðar. Hagvangur hefur verið lengi í þessum geira og fyrirtækið mjög vel tengt inn í íslenskt atvinnulíf. Með því að vera sterk í hausaveiðum og faglegri ráðgjöf tryggjum við alltaf að hæfir einstaklingar fari í þau störf sem við erum að ráða í. Ef við til dæmis sjáum að það þarf sterkara fólk í hóp umsækjenda þá notum við okkar tengsl til að sjá til þess að hæfur umsækjandi bætist við umsækjendahópinn.“

Sverrir segir að starfsfólk Hagvangs fylgist vel með því sem er að gerast í íslensku atvinnulífi og er alltaf tengslum við fólk til að finna rétta starfskraftinn en bíði ekki bara eftir umsóknum.

„Það að leita að fólki er stór hluti af okkar starfi.“

Stór grunnur af umsækjendum

Þegar fyrirtæki leita til Hagvangs í leit að starfskrafti þá aðstoða sérfræðingar þau og ráðleggja þeim um hvernig best sé að bera sig að.

„Atvinnurekendur velta því oft fyrir sér hvort sé best að auglýsa eða hvort við finnum einhvern fyrir þá. Stundum auglýsum við, ef við teljum það vera best, en oft bjóða aðstæður ekki upp á það. Þá þarf að leita án þess að starfið sé auglýst og við gerum það líka. Í raun og veru er bara um 30% af því sem við erum að gera auglýst. Það á þó ekki við um störf hjá hinu opinbera þar sem öll störf eru auglýst. Í öðrum tilfellum erum við að leita sjálf en við erum með gríðarlega stóran hóp af umsækjendum,“ útskýrir Sverrir.

Inni á vefsíðu Hagvangs getur fólk fyllt inn almenna umsókn vilji það vera á skrá hjá þeim. Þá er haft samband ef störf sem henta því koma inn á borð hjá fyrirtækinu.

„Þannig að sem atvinnuleitandi þarftu að fylla út almenna umsókn á vefnum hjá okkur. Þar finnum við í mjög miklum mæli fólk í störf sem ekki hafa verið auglýst.“

Hjá Hagvangi starfa reyndir sérfræðingar sem beita viðurkenndum aðferðum til að finna rétta starfsfólkið.

Faglegt mat á huglægum þáttum

Eitt af þeim tækjum sem Hagvangur notar til að meta umsækjendur er Hogan persónuleikamat.

„Það er eitt öflugasta persónuleikamatið í heiminum í dag. Með prófinu fáum við faglegt mat á eiginleika eins og metnað, félagsfærni, hvernig viðkomandi vinnur undir álagi, hvort viðkomandi sé hugmyndaríkur og fleira. Þetta eru þessir huglægu þættir hjá fólki sem er oft erfitt að mæla. Þess vegna eru þessi próf notuð svo við fáum faglega niðurstöðu en byggjum ekki matið á okkar eigin huglæga áliti á umsækjandanum,“ útskýrir Sverrir.

„Við notum þessi próf sífellt meira, sérstaklega þegar strangar kröfur eru gerðar um faglegt ráðningarferli. Þetta er oftast notað á seinni stigum ráðningarferlisins, þegar þarf að gera upp á milli umsækjenda, og hefur reynst gagnlegt í stórum faglegum ráðningarferlum.“

Hagvangur þjónustar bæði stór og smá fyrirtæki og opinberar stofnanir og býður viðskiptavinum sínum alhliða þjónustu við ráðningar á öllum sviðum atvinnulífsins.

„Við bjóðum svo líka upp á stjórnendaþjálfun þar sem stuðst er við stjórnendamat frá Hogan, vinnustaðagreiningar og komum að lausn ágreiningsmála, svo eitthvað sé nefnt.“