Hvort sem fólk þarf sérsmíðaða spelku, innlegg, sjúkraskó, handaspelku, bakbelti eða gervifót, þá er hægt að finna réttu lausnina hjá Össuri. María Jónasdóttir, forstöðumaður innanlandsdeildar, segir að áhersla sé lögð á að veita framúrskarandi þjónustu hver sem þörfin er.

„Þjónustan okkar miðast við að finna faglegar lausnir til að auka lífsgæði og vöruúrvalið er mjög fjölbreytt,“ segir María.

„Við erum að sjálfsögðu með gervifætur fyrir alla notendahópa og höfum líka verið mjög framarlega í að búa til rafstýrðar gervihendur. Nýlega bættist líka við sjúkraskósmiður hjá okkur en mikil þörf er á bæklunarskóm, sjúkraskóm, stöðluðum og sérsmíðuðum innleggjum,“ útskýrir hún.

„Slitgigt hefur aukist verulega. Því eru slitgigtarspelkur mikið notaðar og þar erum við í góðu samstarfi við lækna. Við bjóðum líka upp á ökkla- og úlnliðsspelkur svo eitthvað sé nefnt. Við erum líka með ýmiss konar stuðningshlífar og stuðningssokka og notkun koltrefjainnleggja hefur aukist. Þau eru oft notuð sem meðferðarúrræði við tábroti eða ristarbroti.“

María segir að yfirleitt fái fólk umsókn frá lækni um styrk til kaupa á hjálpartæki áður en það kemur til Össurar, en Sjúkratryggingar veita í mörgum tilfellum styrki til kaupa á hjálpartækjum samkvæmt samningum.

„Fólk hefur líka komið til okkar án tilvísunar og vill greiða sjálft. Það er ekkert því til fyrirstöðu en það er mikilvægt að fólk panti fyrst tíma hjá stoðtækjafræðingi sem veitir nauðsynlega ráðgjöf. Ef fólk er að kaupa hefðbundnar vörur eins og stuðningshlífar eða handarspelkur sem fást í búðinni hjá okkur, þá er hægt að koma inn beint af götunni.“

Mikilvægt að bóka tíma

Stoðtækjafræðingar hjá Össuri hafa sérfræðiþekkingu og veita faglega ráðgjöf og kenna fólki hvernig á að nota hjálpartækin rétt. „Skiljanlega þarf fólk oft að prófa og fá ráðleggingar áður en rétt vara er fundin. Það þarf að vera visst um að rétt vara sé fundin fyrir hvert tilfelli,“ segir María.

„Það er skemmtilegt að sjá þegar fólk labbar út frá okkur, að þá gleymir það kannski stafnum eða hækjunni. Það er gaman að sjá fólk brosa því það finnur minni verki og hreyfir höndina eða stígur léttara af stað en þegar það kom. Þetta eru miklir sigrar þegar rétta lausnin finnst. Til dæmis geta innlegg gert miklu meira fyrir fólk en það gæti trúað.“

María segir að þó að starfsstöð Össurar hér á landi sé í Reykjavík þá þjónusti stoðtækjafræðingar fyrirtækisins landsbyggðina líka. Þeir heimsækja Akureyri, Ísafjörð og fleiri staði reglulega og bjóða upp á ráðgjöf og þjónustu þar. „Það er ánægjulegt hve mikið innanlandsþjónustan hefur þróast í gegnum árin samhliða vexti Össurar á erlendum mörkuðum“, segir María að lokum.