Þegar fólk kemur í Ljósið í endurhæfingu þá byrjar það á því að fá viðtal við iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara. Helga Jóna Sigurðardóttir, iðjuþjálfi og fjölskyldumeðferðarfræðingur hjá Ljósinu, segir að iðjuþjálfar hafi sérþekkingu í að líta á daglega iðju mannsins.

„Við sérhæfum okkur í því sem fólk innir af hendi í daglegu lífi til að annast sig og vinna ýmis störf sem nýtast samfélaginu og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Margir líta á endurhæfingu sem eitthvað sem er bara líkamlegt, en heilsan er metin út frá líkamlegum, sálrænum og félagslegum þáttum. Við leggjum mikla áherslu á að endurhæfa líka sálfélagslega þætti eins og að vinna úr tilfinningum, taka þátt í félagslegum samskiptum og skipuleggja og móta sitt líf,“ segir Helga Jóna

.„Þegar manneskjan er heilbrigð þá sinnir hún vel öllum sínum hlutverkum eins og móður- eða föðurhlutverkinu, vinnunni eða öðru. En þegar fólk greinist er svolítið eins og það missi fótanna, það nær ekki að sinna öllu eins og áður og færnin skertist. Fólk er allt í einu komið í nýtt hlutverk. Hlutverk sjúklings sem þú kannt ekkert á. Það er alveg skiljanlegt enda færðu enga handbók um það. Við bjóðum upp á mörg og fjölbreytt námskeið með áherslu á fræðslu frá fagaðilum og umræður með jafningjum, sem hjálpa til við að efla heilsuna og þar af leiðandi lífsgæðin“, segir Helga Jóna.

Ljósið býður einnig upp á fjölskylduráðgjöf. Helga Jóna segir fjölskylduráðgjöfina leggja áherslu á að vandi einstaklingsins hefur áhrif á alla fjölskylduna. „Við lítum á okkur sem fjölskylduhús, svo við sinnum bæði þeim veika og fjölskyldumeðlimum. Ljósið býður upp á aðstandendaviðtöl sem fólk getur komið í sem einstaklingar eða fjölskyldan í heild. Við erum líka með aðstandendanámskeið sem eru sérsniðin bæði fyrir fullorðna og fyrir börn frá sex ára aldri,“ segir Helga Jóna.

Ýmis hreyfiúrræði

Gyða Rán Árnadóttir, sjúkraþjálfari hjá Ljósinu, segir að markmiðið með líkamlegri endurhæfingu hjá þeim sé að draga úr neikvæðum áhrifum sem fylgja krabbameini og krabbameinsmeðferð. „Við hjálpum fólki að byggja upp fyrri getu eins og hægt er og tryggjum þannig að einstaklingurinn hafi sjálfstæði í sinni heilsu og þörfum.

“Hjá Ljósinu starfa sex sjúkraþjálfarar og tveir íþróttafræðingar. Ljósið býður að mestu leyti upp á hópþjálfun en allir fá þó einstaklingsmiðaða endurhæfingaráætlun. „Við bjóðum upp á alls konar leikfimi og hreyfiúrræði,“ segir Gyða Rán. „Krabbamein getur verið svo mismunandi og hver og einn er á ólíkum stað í meðferðarferli og með mismikla hreyfigetu.

“Það er mikilvægt fyrir krabbameinssjúklinga að stunda bæði þolþjálfun og styrktarþjálfun. Ljósið er með bæði kvennahópa og karlahópa þrisvar sinnum í viku. Einnig er boðið upp á jafnvægistíma, jógatíma og gönguferðir í nágrenni Ljóssins.

„Við vinnum líka í samstarfi við Hreyfingu í Glæsibæ. Þar erum við að bjóða upp á þol- og styrktartíma sem eru fyrir þá sem eru aðeins lengra komnir í sinni endurhæfingu eða hafa alltaf verið mjög virkir og þurfa meira krefjandi þjálfun. Þar eru opnir tímar fyrir alla aldurshópa og sérhópar fyrir ungt fólk á aldrinum 20-45 ára. Því maður finnur að það þarf oft öðruvísi áherslur hjá yngra fólkinu,“ segir Gyða Rán.

Hjá Ljósinu er einnig boðið upp á líkamsmælingar í sérstöku tæki þar sem fólk getur séð hvernig hlutföll vöðva og vökva í líkamanum skiptast. „Við notum mælingarnar við að fylgjast með hvernig líkaminn fer í gegnum krabbameinsferlið. En krabbameinsmeðferð getur haft mikil áhrif á fólk,“ segir Gyða Rán.

Matti Ósvald Stefánsson, markþjálfi hjá Ljósinu, hjálpar fólki að koma út úr meðferð sem sterkari manneskjur.
FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Umbreytingartímabil

Matti Ósvald Stefánsson markþjálfi segir að áherslur í markþjálfun hjá Ljósinu séu svolítið öðruvísi en annars staðar. „Það er áfall að greinast. Fólk lendir oft í því að hugsa ekki skýrt og sjá ekki möguleika. En það versta sem fólk gerir er að stoppa og gera ekki það sem það getur. Markþjálfun snýst um að hjálpa fólki að hlusta á sjálft sig og finna hvað er mikilvægt fyrir það og hvaða skref það þarf að taka til að komast þangað. Hjá krabbameinssjúklingum snýst hún oft um að reyna að komast aftur til fyrra sjálfs, ná heilsu aftur og jafnvel ná einhverri færni upp á nýtt.“

„Það kemur fyrir að ég spyrji fólk í Ljósinu hvort það væri tilbúið að fara til baka í nákvæmlega sama líf og það lifði áður en það greindist en man ekki til þess að neinn hafi svarað því játandi,“ segir Matti. „Þegar fólk veikist byrjar það að endurhugsa líf sitt og hvað er mikilvægt. Þetta er umbreytingartímabil og ég geri allt sem ég get til að aðstoða fólk áfram svo það komi jafnvel út úr krabbameinsmeðferðinni ekki bara reynslunni ríkara heldur sterkari manneskjur með skýrari áttavita.“

Matti nefnir að honum finnist ánægjulegt að karlmenn jafnt sem konur sæki Ljósið. En framan af voru þar konur í miklum meirihluta. „Okkur hefur tekist að fá karlmennina inn og stundum eru fleiri karlmenn en konur í húsinu. Okkur hefur tekist að bjóða upp á endurhæfingu á þeirra forsendum. En þó konur og karlar séu vissulega lík á margan hátt er einhver munur á því hvað karlmenn þurfa til að vera tilbúnir að koma.“

Í Ljósinu eru fræðslufundir fyrir karlmenn sérstaklega þar sem kemur fagfólk og fólk sem talar af eigin reynslu um sjúkdóminn. „Það er virkilega mikilvægt fyrir karlmenn að geta mætt og deilt reynslu sinni með öðrum karlmönnum,“ segir Matti.

Í Ljósinu er boðið upp á margs konar handavinnu.

Mín gæfuspor í ferlinu

Oddfríður Ingvadóttir greindist með brjóstakrabbamein í júní árið 2018. Upphaflega ætlaði hún bara að klára þetta krabbamein, eins og hún orðar það, og halda svo áfram með líf sitt. Hún ætlaði ekki að koma nálægt svona stöðum eins og Ljósinu því hún hélt að það myndi bara minna hana á veikindin.

„En svo var ég bara komin á fætur fyrir klukkan 10 á morgnana og allur dagurinn eftir og ég hugsaði bara hvað geri ég núna,“ segir Oddfríður.

Hún ákvað því að hringja í Ljósið og athuga hvort hún mætti koma í tækjasalinn þar. Henni var sagt að fyrst þyrfti hún tíma hjá sjúkraþjálfara og var boðið að koma og kíkja á staðinn. Oddfríður mætti á staðinn bara með það í huga að nýta sér sjúkraþjálfunina og tækjasalinn og sér ekki eftir því enda segir hún gleði og afslappað andrúmsloft einkenna Ljósið.

„Það voru mín gæfuspor í þessu ferli. Ég fékk ótrúlega góðar móttökur, það var svo mikil virðing, kærleikur og skilningur hjá fólkinu þarna. Ég fékk tíma hjá sjúkraþjálfara og svo voru þær duglegar að kynna fyrir mér allt annað sem var í boði í Ljósinu.“

Oddfríður talaði við iðjuþjálfa sem fór yfir daginn með henni, hún nýtti sér sálfræðiþjónustuna og hefur sótt ýmis námskeið á vegum Ljóssins. „Ég fór á námskeið sem heitir Heilsuefling í þínum höndum, núvitundarnámskeið, hef aðeins farið í jógatíma og núna er ég á leirnámskeiði.“

Oddfríður fór einnig á námskeið fyrir fólk sem nýlega hefur fengið greiningu sem hún segist hafa verið mjög ánægð með. Þar lærði hún ýmsa praktíska hluti allt frá því hvaða réttindi hún hefur til hvaða tannkrem sé gott að nota. Eftir að hún lauk meðferð fór hún á námskeið sem heitir Aftur til vinnu eða náms sem er hugsað þannig að fólk sé betur í stakk búið til að mæta aftur til vinnu, náms eða nýrra verkefna að veikindaleyfi loknu.

„Ég furða mig á hvernig starfsfólkið í Ljósinu nær að veita svona frábæra, faglega og heildræna þjónustu fyrir allt þetta fólk, og megnið af námskeiðunum er ókeypis. Ég hefði ekki viljað hafa endurhæfinguna mína í einhverjum öðrum höndum eða á öðrum stað,“ segir Oddfríður.