Rannsóknir benda til þess að meira en þriðjungur fullorðinna þjáist af svefnleysi og er svefntími fólks jafnframt að styttast. Nýlegar tölur benda til þess að rúmlega þriðjungur Íslendinga sofi minna en sex klukkustundir á nóttu að meðaltali,“ segir Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum.

Erla er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns. Hún hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi og vinnur að rannsóknum á því sviði ásamt samstarfsmönnum í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Ómeðhöndlaður svefnvandi dregur úr framleiðni í vinnu og fjölgar veikindadögum,“ segir Erla.

„Bandarískar rannsóknir sýna fram á að framleiðslutap vegna fjarvista starfsmanna sem þjást af svefnleysi nemi um 60 milljónum Bandaríkjadala á ári, en það jafngildir um 9.000 milljörðum íslenskra króna. Viðamiklar rannsóknir á Norðurlöndunum sýna jafnframt fram á að þeir sem annað hvort þjást af langvarandi svefnvanda, eða sofa of stutt að meðaltali, taka fleiri veikindadaga á ári en aðrir.“

Tapa milljörðum vegna svefnleysis starfsfólks

Einungis ein svefnlítil nótt hefur neikvæð áhrif á athygli, einbeitingu og á viðbragðshraða líkamans.

„Rannsóknir benda til þess að rekja megi fjórðung vinnuslysa, eða mistaka sem gerð eru á vinnustöðum, beint til svefnleysis. Árlegur kostnaður vegna slíkra mistaka er metinn á um 32 milljónir Bandaríkjadala sem jafngildir yfir fjögur þúsund milljörðum íslenskra króna,“ upplýsir Erla.

Því sé ekki ofsögum sagt að töluverður ávinningur yrði af því að draga úr svefnvanda fólks.

„Svefnleysi er eitt dýrasta vandamál fyrirtækja í dag,“ segir Erla. „Það sem mikilvægara er, er að við sæjum fram á verulega bætt áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks ef dregið væri úr svefnvanda þess. Með aukinni fræðslu og bættum svefnvenjum má vinna gegn því að vægur svefnvandi þróist yfir í langvinnt svefnleysi. Að sama skapi hefur aukin þekking forvarnargildi og stuðlar að því að fólk tileinki sér góðar og hjálplegar svefnvenjur til langframa.“

Svefnvottað fyrirtæki

Betri svefn býður upp á víðtæka þjónustu til fyrirtækja og veitir viðurkenninguna ,,Svefnvottað fyrirtæki“ til þeirra sem nýta sér þessa þjónustu.

„Bæði er um að ræða fræðslu um svefn til starfsmanna, skimun á svefnvanda innan fyrirtækis og meðferð við svefnleysi fyrir þá starfsmenn sem á þurfa að halda. Nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki nýtt sér þessa þjónustu og má þar til dæmis nefna Landhelgisgæsluna og lögregluna,“ segir Erla.

Nánar má lesa um þjónustu Betri svefns á vefnum á: betrisvefn.is