Stöð 2 Sport býður upp á gríðarlega mikið af beinum útsendingum frá alls kyns íþróttaviðburðum og tryggir að áskrifendur fái eitthvað fyrir aurinn á hverjum degi. Þó að enska úrvalsdeildin sé ekki lengur á dagskrá býður stöðin enn upp á fjölda beinna útsendinga frá leikjum toppliðanna í enska boltanum, ásamt því að sýna íslenska boltann og leiki spænsku og ítölsku úrvalsdeildanna. En það er ekki bara fótbolti í boði, heldur geta allir íþróttaáhugamenn fundið eitthvað fyrir sig á Stöð 2 Sport.

Bestu ensku liðin á dagskrá

„Að jafnaði erum við með um 2.000 beinar útsendingar á dagskrá hjá okkur á ári og þar af er mjög mikið af fótbolta,“ segir Eiríkur Stefán Ásgeirsson, forstöðumaður hjá Stöð 2 Sport. „Við erum enn að sýna fjöldann allan af leikjum bestu liðanna á Englandi því við sýnum Championship deildina, báðar ensku bikarkeppnirnar og verðum áfram með stóru Evrópukeppnir félagsliðanna, Meistaradeildina og Evrópudeildina.

Í þessum deildum keppa bestu lið heims og í vor voru til dæmis ensk úrvalsdeildarlið í úrslitaleikjum Meistara- og Evrópudeildarinnar, þannig að mjög margir af leikjum þessara liða voru á dagskrá hjá okkur,“ segir Eiríkur. „Við sýndum til dæmis um tuttugu leiki með Manchester City. Svo tekur bikarkeppnin náttúrulega við þegar deildin fer í frí. Við viljum sinna bestu liðum heims eins vel og við getum en til marks um það sýndum við ýmsa æfingaleiki með ensku toppliðunum í sumar og stórt æfingamót, International Champions Cup.“

Úrvalsdeildir, landsleikir og íslenski boltinn

„Við sýnum líka bæði spænsku og ítölsku úrvalsdeildirnar, þar sem mjög margir af bestu fótboltamönnum heims leika listir sínar,“ segir Eiríkur. „Þegar þetta allt saman fer svo í frí taka landsleikirnir við. Í haust sýnum við til dæmis lokasprett undankeppninnar fyrir Evrópumótið 2020 og þá kemur í ljós hvort Ísland kemst aftur á mótið.

Svo sýnum við líka frá íslensku deildununum. Þetta er búið að vera frábært íslenskt knattspyrnusumar og það hefur verið mikill áhugi á Pepsi Max-deildunum,“ segir Eiríkur. „Svo tekur karfan og handboltinn við í vetur. Við ætlum að sinna þessu öllu mjög vel áfram.“

Margt fleira í boði

„Fyrir utan knattspyrnuna erum við líka að fara að sýna frá NFL, Formúlu 1 og UFC,“ segir Eiríkur. „Gunnar Nelson berst í UFC í september en bardaginn fer fram í Kaupmannahöfn og er á besta útsendingartíma.

Við erum líka með allt besta golfið. Við sýnum Evróputúrinn, allar PGA- og LPGA-mótaraðirnar og við verðum með forsetabikarinn í haust,“ segir Eiríkur. „Við kynntum nýlega nýjan áskriftarpakka, sem kostar núna 7.990 kr. á mánuði. Það er umtalsverð lækkun og nú fylgir Stöð 2 Golf sportpakkanum, en það er líka hægt að fá hana sér.

Svo höfum við líka sýnt frá heimsleikunum í CrossFit og bæði HM og úrvalsdeildinni í pílu, því við erum alltaf að leita að efni til að bæta við,“ segir Eiríkur. „Þannig pössum við að áskrifendur fái eitthvað fyrir aurinn á hverjum degi. Við sýnum svo mikið af efni að oft þurfa áskrifendur að velja milli viðburða sem eru á dagskrá samtímis.“